Íslandsbanki hagnast um 6,4 milljarða

Íslandsbanki við Kirkjusand.
Íslandsbanki við Kirkjusand. mbl.is/Ómar

Hagnaður Íslandsbanka eftir skatta nam 6,4 milljörðum króna á öðrum fjórðungi ársins samanborið við 6,6 milljarða á sama tíma í fyrra. Á fyrsta ársfjórðungi nam hagnaðurinn 14,7 milljörðum króna, en 11,2 milljörðum á sama tímabili 2013.

Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 14,5% í ársfjórðunginum, samanborið við 17,4% í fyrra, og alls 16,9% á fyrri hluta ársins, þrátt fyrir að eigið fé bankans hafi hækkað um 14% á milli ára úr 156 milljörðum króna í 178 milljarða króna.

Eiginfjárhlutfall bankans var 29,3% í lok júnímánaðar, borið saman við 30,3% í lok marsmánaðar, að því er segir í tilkynningu.

Hreinar vaxtatekjur voru 6,9 milljarðar króna á öðrum ársfjórðungi og vaxtamunur 3,1%, sem er í takt við langtímaáætlanir bankans. 

Þá voru hreinar þóknanatekjur voru 2,8 milljarðar króna á öðrum ársfjórðungi og hækkuðu þær um 5,5% á milli ára. Aukninguna má að mestu rekja til markaða, eignastýringar og dótturfélaga, segir í tilkynningunni.

Kostnaðarhlutfall bankans var 56,0%, borið saman við 58,8% á öðrum ársfjórðungi í fyrra, og má rekja lækkunina til fækkunar starfsmanna og áframhaldandi kostnaðaraðhalds.

Í tilkynningunni kemur fram að frá stofnun bankans hafi um 36.000 einstaklingar og um 4.200 fyrirtæki fengið afskriftir, eftirgjafir eða leiðréttingar á skuldum sem nema 561 milljarði króna.

Þá hefur öllum stórum málum sem lúta að fjárhagslegri endurskipulagningu nú verið lokið. LPA hlutfallið var 7,3%, en 7,8% í mars 2014, og þau smærri mál sem eftir standa munu hvert fyrir sig hafa lítil áhrif á hlutfallið.  Hlutfall vanskila umfram 90 daga var 3,5%.

Heildareignir bankans voru 908 milljarðar króna, sem er 3% aukning frá lokum fyrsta ársfjórðungs. Lán til viðskiptavina námu 604 milljörðum króna og hækkuðu um 7% á milli fjórðunga.

Einnig jukust heildarinnlán í 543 milljarða króna úr 530 milljörðum króna í lok mars 2013, sem má rekja til eðlilegra sveiflna í innlánum frá viðskiptavinum og fjármálastofnunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK