„Kannski erum við svona klikkaðir“

Legman er undarlegur í útliti.
Legman er undarlegur í útliti. Mynd af Facebook síðu Legman

„Legman er ofurhetja sem hefur nýlokið björgun og þarf að komast aftur heim í Legville. Eina gatan í átt að bænum er hins vegar einstefnugata og hann er auðvitað á móti umferð,“ segir Þorvaldur Rúnarsson, sem hannaði leikinn Legman, sem nú er fáanlegur í Appstore hjá Apple.

Ferðalagið hjá Legman er þó heldur vonlaust því leikurinn klárast aldrei. Legman kemst aldrei heim. Hann þarf hins vegar að flýja margs konar hindranir á leiðinni og safnar við það stigum. Ofurhetjan er óhefðbundin í útliti og samanstendur einungis af fæti og haus. Aðspurður hvaðan hugmyndin hafi komið segir hann Legman eiga uppruna sinn að rekja til Fifa tölvuleikjakvölds með vini sínum. „Hann byrjaði allt í einu að syngja um þennan karakter upp úr þurru. Ég kunni að búa til app og hugaði bara: Af hverju ekki að búa til tölvuleik?“ segir Þorvaldur. „Ég veit ekki alveg hvaðan útlitið kemur. Kannski erum við bara svona klikkaðir,“ segir hann og hlær.

Fær auglýsingatekjur af leiknum

Þorvaldur er á öðru ári í tölvunarfræði við Háskóla Íslands og segist hafa verið með nógu góðan grunn eftir fyrsta árið til þess að búa til leikinn. Þá tók hann einnig nokkur námskeið á netinu í sumar og lærði betur inn á tæknina „Þetta var markmiðið. Að skila appi,“ segir hann. Það tók um tíu daga að búa til leikinn og segir Þorvaldur að hönnunin hafi tekið lengstan tíma en hann teiknaði leikinn upp sjálfur.

Leikurinn birtist þann 22. september á App store og hefur verið sóttur um 800 sinnum. Þorvaldur segir það hafa verið heilmikið ferli að koma leiknum inn á Appstore og umsagnaraðilar vinna samkvæmt ströngum skilyrðum. Auðveldara sé þó að koma einhverju í gegn sé það flokkað sem tölvuleikur, frekar en app.

Ókeypis er að ná í leikinn og Þorvaldur fær engar þóknanir beint frá Apple. Hann er hins vegar búinn að selja auglýsingar í leikinn og segir tekjurnar vera ágætar af því. 

Skjáskot úr Legman leiknum.
Skjáskot úr Legman leiknum. Mynd af Facebook síðu Legman
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK