Ársskýrslan sópaði inn verðlaunum

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar mbl.is/Kristinn

Mikil vinna var lögð í nýja ársskýrslu Landsvirkjunar sem meðal annars hefur að geyma myndskeið með ávarpi forstjóra og stjórnarformanns auk ítarlegra upplýsinga um fjárhag fyrirtækisins og efni um virkjanakosti.

Þetta er annað árið í röð sem skýrslan er eingöngu gefin út á rafrænu formi en Magnús Þór Gylfason, yfirmaður samskiptasviðs Landsvirkjunar, segir það hafa gefist mjög vel. Hann bendir á að yfir 6.500 lesendur hafi heimsótt vef síðustu ársskýrslu og voru síðuflettingar yfir 41 þúsund talsins. Áður var hún aðeins prentuð í nokkur hundruð eintökum.

Skiptir þjóðina máli

Þetta segir Magnús stuðla að auknu gagnsæi og upplýsingagjöf til almennings. „Það er mjög mikilvægt því afkoma Landsvirkjunar skiptir þjóðina miklu máli,“ segir hann. 

Hann bendir á að samkvæmt könnunum sem Landsvirkjun hefur látið í gera hafi of fáir Íslendingar talið sig þekkja starfsemi Landsvirkjunar, fyrirtækisins sem þeir eiga. Aðeins 34% segjast þekkja starfsemina vel en 39% illa. „Og að okkar mati telja of margir okkur ógegnsæ og lokuð í starfseminni eða 36%.“

Þróunin hefur hins vegar verið jákvæð og telja 45% fyrirtækið nú vera opið og gegnsætt og hefur sú mæling hækkað á hverju ári frá árinu 2011 þegar fyrst var spurt. „Við viljum heldur vera opin og gegnsæ eins og okkur er unnt, kynna starf okkar, hugmyndir og rannsóknir, ávinna okkur þannig traust og stuðning en einnig bjóða uppá möguleika á gagnrýni og gagnkvæmum samskiptum, m.a. á samfélagsmiðlum.“

„Við viljum setja sem mest á vefinn eins og við getum, á erindi til almennings, viðskiptavina og hagsmunaaðila og er hægt að setja þannig fram að fólk skilur.“

Ánægja í auknum lestri

Vefur Landsvirkjunar á síðasta ári vakti mikla athygli og hlaut ýmsar viðurkenningar. „Verðlaun eins og íslensku vefverðlaunin og Lúðurinn sem við fengum fyrir síðustu ársskýrslu hafa verið okkur hvatning,“ segir Magnús. „Tilnefningar til alþjóðlegra verðlauna hafa einnig verið mikil viðurkenning fyrir Landsvirkjun og viðleitni okkar til að auka skilning og sýnileika á stefnu og starfsemi fyrirtækisins.“

Rafræn ársskýrsla Landsvirkjunar var þá í fyrra einnig tilnefnd til verðlauna í hinni alþjóðlegu og virtu Digital Communication Awards keppni, í flokki rafrænna ársskýrslna en þetta var í fyrsta sinn sem íslenskt fyrirtæki var tilnefnt til verðlaunanna.

Aðspurður hvort verðlaunin hafi verið sérstök hvatning til þess að gera betur á þessu ári segir Magnús að það sé virkilega gaman að fá verðlaunin en hins vegar felst mesta ánægjan í því að finna fyrir auknum lestri og vitneskjunni um að fleiri séu að kynna sér efni skýrslunnar.

Magnús Þór Gylfason, yfirmaður samskiptasviðs Landsvirkjunar.
Magnús Þór Gylfason, yfirmaður samskiptasviðs Landsvirkjunar.
Magnús segir mikilvægt að almenningur þekki starfsemina vel.
Magnús segir mikilvægt að almenningur þekki starfsemina vel. Brynjar Gauti
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK