Fjárfestingasjóðir sýna Bakkavör áhuga

Lýður og Ágúst Guðmundssynir, stofnendur Bakkavarar.
Lýður og Ágúst Guðmundssynir, stofnendur Bakkavarar. mbl.is/Heiðar

Nokkrir stærstu fjárfestingasjóðir í Evrópu hafa lýst yfir áhuga á því að kaupa stóran hlut í Bakkavör Group. Breski bankinn Barclays hefur verið fenginn til þess að finna áhugasama kaupendur á meðal annars 25% hlut Arion banka í félaginu.

Fram kemur í frétt Sky News að PAI Partners og Pamplona Capital séu á meðal þeirra fjárfestingasjóða sem hafi sýnt áhuga á að kaupa eignarhlut í Bakkavör.

Lífeyrissjóður verslunarmanna og Gildi - lífeyrissjóður hafa jafnframt í hyggju að selja hluti sína í félaginu. Lífeyrissjóðirnir tveir eiga um 12% hlut í Bakkavör sem var í fyrra metinn á um 3,1 milljarð króna. Bókfært virði eignarhlutar Arion banka í félaginu var tæpir 7,3 milljarðar króna í lok 2013.

Forsvarsmenn lífeyrissjóðanna hafa sagt að það hafi aldrei verið leyndarmál að sjóðurinn ætli að selja hluti sína, fáist viðunandi verð fyrir þá.

Arion banki á um 62% hlut í samlagshlutafélaginu BG12, sem heldur utan um 46% eignarhlut í Bakkavör. Félagið var stofnað árið 2013 af bankanum og nokkrum lífeyrissjóðum og fjárfestingasjóðum. Lífeyrissjóður verslunarmanna á tæpan 15% hlut í félaginu og Gildi tæpan 12% hlut.

Bræðurnir stærstu hluthafarnir

Lýður og Ágúst Guðmundssynir, stofnendur Bakkavarar, hyggjast ekki selja hluti sína í félaginu, að því er fram kemur í frétt Sky. Þeir eru enn sem áður stærstu einstöku hluthafar félagsins með um 39% hlut. Bankinn Rotschild veitir þeim ráðgjöf.

Þeir bættu við sig eignarhlutum hratt árið 2012, en þá keyptu þeir hluti af fyrrverandi kröfuhöfum sínum sem breyttu skuldum Bakkavarar í nýtt hlutafé. Á meðal þeirra voru Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, þrotabú Glitnis, sjóðsstýringarfyrirtæki í eigu Íslandsbanka og MP banki.

Fram kom í fjölmiðlum á þeim tíma, um haustið 2012, að blokk annarra kröfuhafa, þar sem Arion banki, Lífeyrissjóður verslunarmanna og Gildi fóru fremstir í flokki, hefði neitað að selja þeim bræðrum eignarhluti sína.

Merki Bakkavör.
Merki Bakkavör.
Arion banki á um fjórðungshlut í Bakkavör.
Arion banki á um fjórðungshlut í Bakkavör. mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK