Microbar missir húsnæðið

Microbar í Austurstræti þarf að flytja.
Microbar í Austurstræti þarf að flytja.

Eigendur Microbar í Austurstræti þurfa að finna nýjan stað fyrir barinn þar sem City Center Hotel sagði upp leigusamningi þeirra til þess að nýta svæðið fyrir eigin starfsemi. Eigandi hótelsins bauðst til þess að kaupa reksturinn en eigendur neituðu. „Við vildum ekki að einhver annar fengi það sem við höfum byggt upp frá grunni,“ segir Steinn Stefánsson, rekstrarstjóri staðarins.

Hjónin Árni Sólonsson og Svanlaug Þráinsdóttir keyptu City Center Hotel af Pétri Þór Sigurðssyni í lok síðasta árs. Leigusamningurinn er aðeins uppsegjanlegur einu sinni á ári en nýir hóteleigendur létu starfsmenn Microbar fljótlega vita að samningnum yrði sagt upp. 

Microbar hefur verið í húsnæðinu frá árinu 2012 en þarf að vera farinn út fyrir 1. janúar nk.

Skoða nýtt húsnæði

Steinn reiknar þó með að staðurinn verði fluttur fyrir þann tíma þar sem leit af nýju húsnæði stendur yfir. „Við höfum verið að skoða margt og erum nokkurn veginn búnir að finna eitt. Það er ekki búið að skrifa undir og við getum því ekki gefið staðsetninguna strax upp,“ segir hann en bætir við að staðurinn verði áfram í miðbænum.

Steinn lítur björtum augum fram á veginn og segir annað húsnæði eflaust henta betur. „Við höfum verið svolítið bundnir af því að vera bar inni á morgunverðarstað á hóteli. Við höfum viljað breyta lýsingunni, kælunum og öðru en ekki mátt það. Á hinum staðnum megum við líklega innrétta þetta meira eftir okkar höfði og gera þá kannski meira í átt að hinum barnum okkar fyrir norðan,“ segir hann og vísar til Microbar and Bed á Sauðárkróki. 

„Þrátt fyrir að vera kannski ekki sá hlutlausasti í bransanum verð ég að segja að hann er flottasti bar landsins,“ segir Steinn léttur í bragði. „Eini gallinn er að hann er á Sauðárkróki,“ segir hann og hlær.

Flytja góðviljann með sér

Líkt og að framan segir buðust nýir eigendur til þess að kaupa reksturinn. Steinn segir að málið hafi ekki farið í viðræðum. „Við höfum byggt upp mikinn góðvilja frá árinu 2012 og vonumst til þess að geta tekið hann með okkur,“ segir hann.

Steinn bendir á að Microbar sé ekki samningsbundinn neinum og því eru allar dælur og annað í eigu staðarins.

Frá Microbar and Bed á Sauðárkróki.
Frá Microbar and Bed á Sauðárkróki. Björn Björnsson
Steinn segir að nýi staðurinn verði væntanlega meira í átt …
Steinn segir að nýi staðurinn verði væntanlega meira í átt að Microbar and Bed á Sauðárkróki. Mynd af Facebook síðu Microbar and bed
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK