Sammála og ósammála Sigmundi

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Dagur B. Eggertsson segist sammála mörgu af því sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, gagnrýnir í sambandi við skipulagsmál í miðborg Reykjavíkur í grein sem hann birti í dag á vefsvæði sínu. Þá segist hann ósammála öðru, t.d. að byggja eigi upp hótel við Ingólfstorg í anda Hótels Íslands og efasemdum um uppbyggingu á Hörpureitnum.

Gagnrýni Sigmundar nær til 1960

Í færslu á Facebook síðu sinni segir Dagur að ánægjulegt sé að fá umræðu um uppbyggingu miðborgarinnar. Þar þurfi að vanda vel til verks, en hann tekur fram að sú uppbygging sé í flestum tilvikum á grundvelli endurskoðaðs skipulags. „Samhliða nýjum byggingum hafa aldrei fleiri gömul hús verið endurgerð og aldrei fleiri hús verið vernduð sem áður mátti rífa, en einmitt á allra síðustu árum,“ segir Dagur.

Bendir hann á að gagnrýni Sigmundar sé ekki einskorðuð við núverandi stjórn í borginni, heldur nái hún aftur marga áratuga, eða allt til 1960. „Ýmsu er ég sammála enda hefur víða verið undið ofan af eldra skipulagi undanfarin ár og fjöldi húsa verndaður sem áður mátti rífa. Dæmi um þetta eru af Hljómalindarreit, Brynjureit, Landsímareit, Hafnarstræti og Barónsreit,“ segir Dagur.

Hótel Ísland við Lækjargötu eða Ingólfstorg

Dagur segir í færslu sinni að hann sé ósammála Sigmundi um að byggja hótel á Ingólfstorgi, en í pistli sínum minnist Sigmundur á endurbyggingu Hótels Íslands sem var við torgið. Aftur á móti horfir Sigmundur í sínum pistli aðallega til þess að endurbyggja húsið við Lækjargötu, við hlið gamla Iðnaðarbankahússins. Dagur segir í færslu sinni um hugmynd um aukna uppbyggingu við Ingólfstorg að hann vilji standa vörð um torgin og gera þau líflegri og skemmtilegri. „Það er nóg verið að byggja allt í kring,“ segir Dagur.

Skiptar skoðanir um Hörpureitinn

Sigmundur viðraði efasemdir um uppbyggingu á Hörpureitnum í pistli sínum í dag: „Mörgum mun eflaust bregða í brún þegar þeir kynna sér byggingaráform við hinn enda Lækjargötunnar. Þar sem áður stóð aðlaðandi byggð fjölbreytilegra timburhúsa, sem tengdu Kvosina við sjóinn, stendur nú til að byggja gríðarstór skrifstofu- og verslunarhús sem gína munu yfir gamla bænum og leysa Esjuna af sem bakgrunnur miðborgarinnar.“

Dagur svarar því til að efasemdir Sigmundar veki sérstaka athygli. „Þar voru ekki gömul hús heldur bensínstöð og Faxaskáli sem var úrelt birgðageymsla sem notuð var sem bílaplan undir það síðasta. Í dag eru þetta óbyggðir reitir eða bílastæði, að ógleymdri holunni við Hörpu. Ríki og Reykjavíkurborg seldu þessar lóðir sameiginlega og eru þær nú í höndum einkaaðla. Og þess má geta að Sigmundur Davíð sjálfur var um tíma varaformaður skipulagsráðs Reykjavíkur og auglýsti ákveðnar skipulagsbreytingar á Hörpu-reitunum, án þess að leggja til á þeim róttækar breytingar. Það hefur fátt breyst frá þeim tíma, nema til batnaðar, við höfum lagað skipulag gatnakerfisins og minnkað byggingarmagn,“ segir Dagur

Bætir hann við að ástæðulaust sé að sá óþarfa ótta um það sem er framundan. „Uppbyggingin í kringum Hörpu verður öruggulega ekki óumdeild, frekar en Harpan sjálf, en hún mun sannarlega kallast á við sögu staðarins einsog kostur er og borgin mun gera allt sem í hennar valdi stendur til að hún verði okkur öllum til sóma,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK