Gefur ekki endilega rétta mynd

Staða ríkissjóðs hefur batnað jafnt og þétt síðustu ár. Reyndar má rekja jákvæða niðurstöðu ríkisreiknings síðastliðinna tveggja ára og niðurstöðu í frumvarpi um fjáraukalög nú að miklu leyti til einskiptis- og óreglulegra liða, þannig að sú mynd sem sést gefur ekki endilega rétta mynd af undirliggjandi rekstri, segir í Hagsjá Landsbankans sem kom út í morgun. Þar er fjallað um fjármál ríkisins.

Fjárlagafrumvarpið var lagt fram með um 15 milljarða króna tekjuafgangi. Miðað við þær fréttir sem komið hafa fram um stöðu mála má reikna með að breytingar á frumvarpinu á lokasprettinum muni fela í sér meiri hækkun útgjalda en tekna þannig að endanlegur tekjuafgangur verður minni en lagt var upp með.

Kostnaður vegna kjarasamninga og launabreytinga er þungur baggi fyrir ríkissjóð og má ætla að stór hluti af því svigrúmi sem til var við fjárlagagerðina fari í launabætur. Töluverð umræða hefur orðið um stöðuna á Landspítalanum í því sambandi, en það sama gildir líka um aðrar stofnanir.

„Ýmis merki eru því um að slaknað hafi á aðhaldi í ríkisfjármálum. Mikil tekjuaukning, aðallega vegna einskiptis- og óreglulegra liða, skýra þessa þróun að einhverju leyti. Flestar ytri aðstæður eru ríkisfjármálunum hagstæðir um þessar mundir.

Óreglulegar tekjur og einskiptistekjur hafa verið miklar og von er á miklum tekjum til ríkissjóðs í tengslum við afnám fjármagnshafta. Það skiptir því miklu á næstu misserum að freistnivandinn nái ekki tökum á ráðamönnum og að þessum tekjuauka verði varið skynsamlega til lækkunar skulda án þess að slíkt valdi of mikilli þenslu,“ segir ennfremur í Hagsjánni.

57 milljarðar í fjármagnskostnað á átta mánuðum

Á fyrstu átta mánuðum ársins greiddi ríkið 57 milljarða króna í fjármagnskostnað, eða um 12% allra ríkisútgjalda, og síðustu ár hefur fjármagnskostnaður ríkissjóðs numið um og yfir 4% af landsframleiðslu.

Þær miklu skuldir sem söfnuðust upp í kjölfar hrunsins eru ríkissjóði því þungur baggi, en bjartara er framundan í þeim efnum. Takist að greiða niður skuldir myndu vaxtagjöld ríkissjóðs lækka verulega. Það hefur t.d. komið fram að 640 ma.kr. lækkun skulda gæti leitt til þess að vaxtagjöld ríkissjóðs myndu lækka um 35 ma.kr. á ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK