Minni hagnaður hjá HB Granda

mbl.is/Styrmir Kári

Hagnaður HB Granda á fyrsta fjórðungi þessa árs nemur 5,6 milljónum evra og dróst saman um nærri 60% miðað við fyrsta ársfjórðung 2015. Sé hagnaðurinn reiknaður í íslenskum krónum, miðað við meðalgengi á fjórðungnum (141,2), nemur hann 0,8 milljörðum króna. Yfir sama tímabil í fyrra nam hagnaðurinn jafngildi liðlega 2 milljarða króna, en þá var hann 13,8 milljónir evra.

Tekjur drógust saman um nærri 10 milljónir evra yfir sama tímabil og námu 43,9 milljónum evra sem svarar til 6,2 milljarða króna. EBITDA á fyrsta ársfjórðungi nam 12,4 milljónum evra, samanborið við 21,3 milljónir á fyrsta fjórðungi ársins 2015.

Afgerandi áhrif loðnuvertíðar

Í tilkynningu HB Granda til Kauphallar í tengslum við uppgjörið kemur fram að loðnuvertíðin hafi afgerandi áhrif á rekstrarniðurstöðuna. „Afkoma loðnuveiða og -vinnslu hefur veruleg áhrif á rekstur HB Granda hf. og þá sér í lagi á fyrsta ársfjórðungi hvers árs. Miklar sveiflur hafa verið bæði í aflamarki á loðnu og verði afurða á undanförnum árum.“

Í töflu sem fylgir tilkynningunni kemur fram að loðnuafli til vinnslu hafi á fyrsta fjórðungi þessa árs verið tæp 19 þúsund tonn, yfir sama fjórðung í fyrra hafi hann hins vegar verið tæp 68 þúsund tonn, tæp 24 þúsund tonn 2014 og tæp 81 þúsund tonn 2013. Af þessum tölum er ljóst að sveiflurnar í veiðunum eru mjög miklar.

Heildareignir HB Granda í lok mars námu 410,6 milljónum evra en voru 395,4 milljónir í lok mars í fyrra. Skuldir félagsins lækkuðu um rúmlega 10 milljónir evra og stóðu í 159,4 milljónum í lok fjórðungsins. Eiginfjárhlutfall fyrirtækisins var 61,2% í lok tímabilsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK