Saga Plain Vanilla og QuizUp

QuizUp-leiknum hefur verið hlaðið niður 80 milljón sinnum. Þá bætast …
QuizUp-leiknum hefur verið hlaðið niður 80 milljón sinnum. Þá bætast enn við um 20.000 notendur QuizUp á dag

Plain Vanilla, sem hefur ákveðið að loka skrifstofu sínni á Íslandi, byrjaði með aðeins þrjá starfsmenn árið 2010 og þegar QuizUp appinu var hleypt af stokkunum í nóvember 2013 voru starfsmennirnir ekki nema 16. Fjöldinn fór mest upp í 86 2015 en í morgun fengu svo allir 36 starfsmenn fyrirtækisins uppsagnarbréf.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem var send í morgun vegna ákvörðunar Plain Vanilla um að loka skrifstofu sinni á Íslandi, en þar er að finna ágrip af sögu QuizUp.

Fyrsta íslenska fyrirtækið sem fær fjármagn úr Sílikondalnum

Fram kemur að fjárfestum hafi þótt leikurinn lofa afar góðu því skömmu áður en QuizUp var gefinn út fjárfesti bandaríski fjárfestingarsjóðurinn Sequoia Capital í Plain Vanilla fyrir tvær milljónir dala, eða um 240 milljónir íslenskra króna. Sequoia Capital sérhæfir sig í því að finna áhugaverð tæknifyrirtæki á frumstigi og var sjóðurinn einn af fyrstu fjárfestunum í Apple, Google, Oracle, Cisco, Dropbox, Instagram, PayPal, Yahoo, Linkedin, Youtube og Airbnb. Alls lögðu áhættufjárfestar 5,6 milljónir dala í Plain Vanilla áður en QuizUp kom út. Bent er á, að Plain Vanilla sé fyrsta íslenska fyrirtækið sem fær fjármagn úr Sílíkondalnum.

Ennfremur segir að leikurinn hafi strax átt mikilli velgengni að fagna og nokkrum dögum eftir útgáfu hans hafi hann verið kominn í efsta sæti vinsældalista App Store. Hann sé sá leikur í App Store sem hafi vaxið hvað hraðast. QuizUp var kominn með milljón notendur eftir sex daga en mörg af vinsælustu öppum og vefsíðum dagsins í dag voru margfalt lengur að ná einni milljón notenda. Það hafi t.d. tekið Twitter tæp tvö ár, Foursquare rúmt ár, Facebook tíu mánuði, Dropbox sjö mánuði, Spotify fimm mánuði og Instagram hálfan þriðja mánuð. Í kjölfarið bauðst stofnendum að selja fyrirtækið fyrir um 12 milljarða króna en þeir völdu frekar að taka inn nýtt áhættufjármagn upp á um þrjá milljarða króna frá sumum stærstu tæknifyrirtækjum og tæknifjárfestum heims.

Fleiri starfsmenn og flutt í stærra húsnæði

Þá segir að vorið 2014 hafi starfsmenn Plain Vanilla verið orðnir 40 og flutti fyrirtækið í stærra húsnæði við Laugaveg 77. Á sama tíma, örfáum mánuðum eftir útgáfu QuizUp, valdi vefsíðan Fast Company Plain Vanilla sem eitt af tíu fyrirtækjum sem sýndu hvað mesta nýsköpun í samfélagmiðlum. Önnur fyrirtæki á lista síðunnar hafi m.a. verið Twitter, Whatsapp, Snapchat, Foursquare og bandaríska geimferðastofnunin (NASA). Þá hafi Plain Vanilla verið valið frumkvöðlafyrirtæki ársins á Nordic Startup Awards og hlaut Webby-verðlaun fyrir besta fjölspilunarleikinn. Fyrirtækið fór í samstarf við Coca-Cola í tengslum við heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu í Brasilíu og var notendum QuizUp boðið upp á að keppa í sérstökum spurningaflokkum tengdum keppninni. Fram kemur að þetta hafi ekki verið eina stórfyrirtækið sem Plain Vanilla starfaði með því tæknirisinn Google styrkti einnig spurningaflokk í QuizUp þar sem notendur fengu að sjá myndir sem hægt var að finna í Google Earth forritinu og áttu þeir að giska á hvar í heiminum myndirnar voru teknar. Ári síðar hlutu QuizUp og Google Webby-verðlaunin í flokknum auglýsingar og miðlun fyrir auglýsingaherferðina. Þá fékk herferðin sérstök People’s Choice-verðlaun.

QuizUp var fljótlega þýddur yfir á erlend tungumál, á borð við frönsku, þýsku og spænsku, og naut mikilla vinsælda í löndunum þar sem málinu voru töluð. Fyrri hluta árs 2015 gaf Plain Vanilla út QuizUp í Kína í samvinnu við leikjarisann Tencent, sem rekur vinsælasta samfélagsmiðilinn þar í landi, WeChat. Nokkrum klukkustundum eftir að leikurinn kom út var hann orðinn vinsælasti ókeypis leikurinn í kínversku App Store. Alls komst QuizUp í efsta sæti í App Store í 132 löndum. Það er árangur sem aðeins örfáir aðrir hafa náð, að því er segir í ágripinu.

Varð vinsælasti stafræni spurningaleikur í heimi

Í maí sama ár kynnti Plain Vanilla til sögunnar nýja útgáfu af QuizUp þar sem fyrri útgáfan, sem hafði verið óbreytt frá því leikurinn kom fyrst út árið 2013, var tekin í gegn. Í nýju útgáfunni var lögð meiri áhersla á samskipti og að tengja fólk með svipuð áhugamál saman. Eins konar samfélagsmiðill í kringum áhugamál. Auk þess var QuizUp.com breytt á þann veg að notendur í borð- og fartölvum gátu loks spilað leikinn beint í gegnum vafra.

Plain Vanilla hélt áfram að þróa leikinn og færa út kvíarnar. Íslandsbanki, Google og fleiri fyrirtæki keyptu nýja vöru fyrirtækisins, appið „QuizUp at Work”, sem var tól til að fræða, þjálfa og skapa góðan starfsanda. Nokkru síðar tilkynnti Plain Vanilla um nýjan möguleika í leiknum sem kallaðist My QuizUp. Með honum gátu notendur búið til spurningar um allt á milli himins og jarðar og deilt þeim með vinum, ættingjum og öðrum leikmönnum í QuizUp. Á þessum tíma voru starfsmennirnir orðnir 86 talsins – sjötíu fleiri en þegar QuizUp var gefinn út tveimur árum áður enda QuizUp orðinn  vinsælasti stafræni spurningaleikur í heimi með rúmlega 75 milljónir notenda.

Stöðugildum fækkað

Loks segir að í janúar á þessu ári hafi verið  tilkynnt að tölvuleikjaframleiðandinn Glu Mobile Inc, sem sérhæfi sig í að framleiða leiki fyrir snjallsíma og spjaldtölvur, hafi ætlað að fjárfesta í Plain Vanilla fyrir 7,5 milljónir dala og að fyrirtækin myndu sameinast innan 15 mánaða. Í kjölfarið þurfti Plain Vanilla að ráðast í endurskipulagningu og var stöðugildum fækkað um fjórtán. Síðasta vor hugðist fyrirtækið auka umsvif sín í Los Angeles í Bandaríkjunum í tengslum við QuizUp-spurningaþáttinn, sem til stóð að frumsýna vorið 2017 og í tengslum við það var starfsemin endurskipulögð á ný og stöðugildum fækkað um 27. Í ágústmánuði störfuðu tæplega 40 manns hjá Plain Vanilla og hefur QuizUp-leiknum verið hlaðið niður 80 milljón sinnum. Þá bætast enn við um 20.000 notendur QuizUp á dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK