Segir 365 uppfylla skilyrðin

„365 telur augljóst að öll skilyrði tíðniheimildarinnar sem eru fyrir …
„365 telur augljóst að öll skilyrði tíðniheimildarinnar sem eru fyrir hendi í dag hafi þegar verið uppfyllt fyrir nokkru síðan með samningi félagsins við Símann. 365 veitir nú 2G, 3G og 4G farsímaþjónustu um allt land og er dreifikerfi 365 því jafn stórt og dreifikerfi Símans," segir Sævar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Í ljósi þess að 365 á um þessar mundir í viðræðum við Vodafone um kaup á hluta starfsemi 365 hefur Póst- og fjarskiptastofnun staðfest við 365 að ekki verði byggt á ákvæðum tíðniheimildarinnar gagnvart félaginu að sinni,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365. Vísar hann þar til fréttar Morgunblaðsins í morgun þar sem fjallað var um meintar vanefndir fyrirtækisins gagnvart útboðsskilmálum sem fyrirtækið gekkst undir þegar Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) úthlutaði fyrirtækinu nýtingarrétti á 800 MHz tíðnisviði fyrir farnetsþjónustu árið 2013.

Í upprunalegum útboðsskilmálum var gengið út frá því að fyrirtæki sem fengi heimildina til 25 ára myndi tryggja 98% útbreiðslu og uppbyggingu á hverju landsvæði fyrir árslok 2014 og 99,5% útbreiðslu og uppbyggingu á hverju landsvæði fyrir árslok 2016. Póst- og fjarskiptastofnun veitti fyrirtækinu hins vegar tilslakanir gagnvart þessum kröfum í lok síðasta árs og féllst fyrirtækið á þær kvaðir sem fylgdu þeim tilslökunum.

Í ljósi þess að fyrirtækið hefur til dagsins í dag aðeins sett upp einn sendi í þeirri viðleitni að virkja tíðniheimildina var fullyrt í Morgunblaðinu í morgun að fyrirtækið hefði vanefnt samning sinn við Póst- og fjarskiptastofnun. Sævar Freyr hafnar þeirri fullyrðingu.

„365 telur augljóst að öll skilyrði tíðniheimildarinnar sem eru fyrir hendi í dag hafi þegar verið uppfyllt fyrir nokkru með samningi félagsins við Símann. 365 veitir nú 2G, 3G og 4G farsímaþjónustu um allt land og er dreifikerfi 365 því jafn stórt og dreifikerfi Símans. 365 telur því að vanefndir á skilmálum tíðniheimildarinnar séu ekki fyrir hendi. Það er ljóst að hagsmunir fólksins í landinu felast ekki í því að byggja upp fjórða farsímakerfið frá grunni, enda nú þegar fyrir hendi þrjú farsímakerfi sem dekka nánast allt landið. Hagsmunir fólks felast fremur í því að við bætist dreifing á strjálbýlli byggðum landsins, en ljósleiðaravæðing dreifbýlisins er mikilvægt skref í að gera þá uppbyggingu hagkvæma. Komi til þess að Vodafone kaupi fjarskiptarekstur 365 og ef tíðnisviðið sameinast inn í Vodafone geta falist í því mikil viðskiptatækifæri,“ segir Sævar Freyr.

Í frétt Morgunblaðsins í morgun var meðal annars rætt við Hrafnkel V. Gíslason, forstjóra Póst- og fjarskiptastofnunar. Þar kom fram að fyrirtækjum væri lögum samkvæmt óheimilt að framselja tíðniheimildir sem þeim hefði verið úthlutað. „Þannig er lagaumgjörðin í dag en víðast í Evrópu er verið að hverfa frá þessum reglum. Slíkt ætti einnig við hér á landi ef búið væri að innleiða Evróputilskipun þessa efnis,“ segir Hrafnkell. Segir hann að skoða þurfi það sérstaklega hvort möguleg kaup Vodafone á fjarskiptastarfsemi 365 feli í sér framsal eða ekki. Hann bendir í því dæmi á að þegar fjarskiptafélagið Nova var selt í heilu lagi hafi ekki verið litið svo á að um framsal tíðniheimilda væri að ræða, þar sem tíðniheimildir hafi eftir sem áður fylgt þeirri kennitölu sem þeim var úthlutað til upphaflega.

Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365.
Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365. mbl.is/Golli
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK