Sögðu upp öllum starfsmönnum í Noregi

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Iceland Construction ehf. (IC), áður Ístak hf., hefur í dag sagt upp ráðningarsamningum við alla starfsmenn sína í Noregi, samtals um 140 manns. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu en þar segir að uppsagnirnar séu gerðar í varúðarskyni vegna erfiðrar rekstrarstöðu.

„Á næstu dögum verður unnið að endursamningum við verkkaupa og er vonast til að hægt verði að draga uppsagnirnar til baka. Félagið vinnur nú að einu verkefni í Noregi og er um helmingur starfsmanna Íslendingar og um helmingur Pólverjar. Verkefni IC í Noregi felst í byggingu fimm vatnsaflsvirkjana í Tosbotn í Norðurlands-fylki, en um 80% af verkinu er nú lokið. Afkoma verkefnisins hefur verið undir væntingum og er það rekið með tapi,“ segir í tilkynningunni.

Haft er eftir Jóni Steingrímssyni, framkvæmdastjóra IC, að uppsagnirnar séu gerðar í varúðarskyni.

„Við erum í viðræðum við verkkaupa um endurskoðun samninga. Á næstu dögum kemur í ljós hvort hægt verði að afturkalla uppsagnirnar, eins og við vonumst til. Starfsmenn IC verða áfram við störf í Tosbotn þar til framhald verkefnisins skýrist betur.“

Norskum vinnumálayfirvöldum hefur verið tilkynnt um uppsagnirnar.

Landsbankinn eignaðist IC, áður Ístak hf., þegar móðurfélag þess, danska verktakafyrirtækið Pihl & Søn, var tekið til gjaldþrotaskipta í lok ágúst 2013. Þegar umsvifin voru mest á árunum 2012–2014 störfuðu um 450 starfsmenn að verkefnum félagsins í Noregi. Haustið 2013 var félagið auglýst til sölu, án árangurs. Árið 2015 var stærsti hluti félagsins seldur undir nafninu Ístak hf. en IC hélt áfram starfseminni í Noregi.

Í tilkynningunni kemur fram að rekstur IC í dag er Ístaki óviðkomandi. IC hefur undanfarið unnið að því að ljúka verkefnum sínum og er verkefnið í Tosbotn síðasta verkefni félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK