Hægst hefur á launahækkunum

Vísitala kaupmáttar launa náði hámarki á árinu 2007 eftir stöðuga …
Vísitala kaupmáttar launa náði hámarki á árinu 2007 eftir stöðuga hækkun frá árinu 1994. Á milli áranna 2007 og 2010 minnkaði kaupmáttur launa um rúmlega 11% en hefur aukist stöðugt síðan, sérstaklega síðustu 3 ár. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Launavísitalan hækkaði um 3,2% milli apríl og maí og alls hefur launavísitalan hækkað um 7,8% frá maí 2016. Sífellt hefur hægt á hækkunartaktinum frá aprílmánuði í fyrra, þegar árshækkunin náði hámarki í 13,4%. Hækkun launavísitölunnar er óvenjumikil nú og er meginástæðan 4,5% samningsbundin áfangahækkun á almenna vinnumarkaðnum 1. maí. Kaupmáttur launa jókst því um 3% í maí og var 7,5% meiri þá en fyrir ári.

Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

Þar er bent á að vísitala kaupmáttar launa náði hámarki á árinu 2007 eftir stöðuga hækkun frá árinu 1994. Á milli áranna 2007 og 2010 minnkaði kaupmáttur launa um rúmlega 11% en hefur aukist stöðugt síðan, sérstaklega síðustu 3 ár. „Kaupmáttarvísitalan fór hæst í ágúst 2008 og náði þeirri stöðu aftur í nóvember 2014. Frá nóvember 2014 fram til maí 2017 hefur kaupmátturinn aukist um tæp 19% og er nú hærri en nokkru sinni,“ segir í Hagsjá.

Launavísitalan í heild hækkaði um 0,8% milli 4. ársfjórðungs 2016 og 1. ársfjórðungs 2017. Hækkunin á milli 1. árfjórðungs 2016 og 2017 var 6,4%.

„Sé litið á stóru hópana hækkuðu laun á almenna markaðnum um 0,7% á milli 4. ársfjórðungs 2016 og þess fyrsta 2017. Á sama tíma hækkuðu laun á opinbera markaðnum um 1,3%, 0,6% hjá starfsmönnum ríkisins og 2% hjá starfsmönnum sveitarfélaga. Sé litið á þróunina frá 1. ársfjórðungi er myndin svipuð. Hækkunin á almenna markaðnum var 6% og 8,4% á þeim opinbera, þar af 8,6% hjá ríkisstarfsmönnum og 8,2% hjá starfsfólki sveitarfélaga. Að hækkunin á almenna markaðnum sé lægri en á þeim opinbera þarf ekki að koma á óvart þar sem þar var um mikla kjarasamningsbundna hækkun að ræða í upphafi ársins 2016 og sú næsta kom ekki fyrr en 1. maí 2017,“ segir í Hagsjá.

Þegar kemur að atvinnugreinum var mesta hækkunin í verslun og viðgerðum eða 1% og næstmest í byggingastarfsemi eða 0,9% milli 4. ársfjórðungs 2016 og þess fyrsta 2017. 

 Laun í veitustarfsemi lækkuðu um 1,3% og lítils háttar lækkun átti sér stað í upplýsinga- og fjarskiptagreinum. Frekar óvenjulegt er að laun lækki beinlínis í einstökum hópum. Sé litið á breytingu milli ára var hækkunin mest í fjármála- og vátryggingarstarfsemi og í flutningum og geymslu, rúmlega 7%. Minnsta árshækkunin var í veitustarfsemi, tæp 5%.

„Í febrúar var gildistími núgildandi kjarasamninga framlengdur um eitt ár. Launahækkun upp á 4,5% kom til framkvæmda á almenna markaðnum þann 1. maí og gildi samningurinn áfram munu laun hækka um 3% þann 1. maí 2018. Töluvert er um að samningar losni það sem eftir lifir ársins og niðurstaða þeirra mun eflaust ráða miklu um hvort kjarasamningar verði framlengdir í febrúar 2018,“ segir í Hagsjá.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka