Hagnaður Haga dregst saman

Hagar eiga m.a. Hagkaup og Bónus.
Hagar eiga m.a. Hagkaup og Bónus. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hagnaður Haga á fyrsta ársfjórðungi fjárhagsárs félagsins, þ.e. dagana 1. mars til 31. maí, nam 850 milljónum króna, sem jafngildir 4,5% af veltu. Á sama tímabili í fyrra nam hagnaðurinn 948 milljónum króna eða 4,7% af veltu.

Afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) nam 1.277 milljónum króna, samanborið við 1.373 milljónir króna árið áður. EBITDA-hlutfall var 6,7%, samanborið við 6,9% árið áður.

Árshlutareikningurinn var samþykktur á stjórnarfundi í gær. Hann hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Endurskoðendur félagsins, PricewaterhouseCoopers ehf., hafa hvorki endurskoðað né kannað reikninginn.

Hagnaður Haga á hlut var 0,74 krónur en vörusala tímabilsins nam 19,048 milljörðum króna. Þá var framlegð tímabilsins 24,9% en heildareignir samstæðunnar námu 30,871 milljarði í lok tímabilsins. Handbært fé félagsins nam 3,027 milljörðum króna  og eigið fé 18,626 milljörðum. Eiginfjárhlutfall var 59,2% í lok tímabilsins.

4,7% sölusamdráttur á tímabilinu í heild

Vörusala tímabilsins nam eins og fyrr segir 19.048 milljónum króna, samanborið við 19.981 milljón króna árið áður. Sölusamdráttur tímabilsins er 0,9%, ef frá er talin aflögð starfsemi. Sölusamdráttur félagsins á tímabilinu í heild er 4,7% í krónum talið.

Í tilkynningu er tekið fram að aflögð starfsemi er verslun Debenhams í Smáralind, Korpuoutlet, Útilíf Glæsibæ, matvöruhluti Hagkaups Holtagörðum, efri hæð Hagkaups Kringlu og tískuverslanir Evans í Smáralind og Warehouse í Kringlu. Þrátt fyrir sölusamdrátt í krónum talið er magnaukning í mörgum vöruflokkum en í matvöru­verslanahluta samstæðunnar er magnaukning 1,8% milli tímabila, þrátt fyrir 2,6% samdrátt í krónum. Þá eykst fjöldi viðskiptavina matvöruverslana um 1,7% en í þessum tölum er ekki búið að taka tillit til lokunar matvöruhluta Hagkaups Holtagörðum og efri hæðar Hagkaups Kringlu.

Þriggja mánaða meðaltal vísitölu neysluverðs milli rekstrarára hefur hækkað um 1,77% en lækkun vísitölunnar án húsnæðis var 2,05%. Vísitala innkaupa í erlendum gjaldmiðlum, þar sem vegnar eru innkaupamyntir Haga, sýnir umtalsverða styrkingu íslensku krónunnar, eða um 17,4% á samanburðartímabilinu.

Aðstæðurnar „mikil áskorun fyrir félagið“

Í tilkynningu Haga til Kauphallarinnar kemur fram að verðhjöðnun hafi sett mark sitt á tekjur á fyrsta ársfjórðungi rekstrarársins en gera má ráð fyrir áframhaldandi áhrifum hennar.

„Verðhjöðnun er einkum tilkomin vegna mikillar styrkingar krónunnar, betri innkaupa og lægra innkaupsverðs á samanburðartímabilinu. Stórir kostnaðarliðir hafa hins vegar hækkað, m.a. vegna kjarasamninga og þenslu á vinnumarkaði, auk þess sem flestir leigusamningar félagsins eru bundnir vísitölu neysluverðs, sem hefur hækkað á tímabilinu. Þessar aðstæður eru mikil áskorun fyrir félagið,“ segir í tilkynningunni.     

Hagkaup í Kringlunni verður lokuð í 11 vikur

Að sögn félagsins er áfram unnið að hagræðingu og að bæta verslanir félagsins en líkt og áður hefur komið fram hefur verslun Hagkaups á 2. hæð í Kringlunni verið lokað. Unnið er að breytingu á versluninni á 1. hæð en vegna framkvæmdanna verður verslunin lokuð í 11 vikur á tímabilinu ágúst til október. Áætlað er að opna nýja og endurbætta verslun seinni hluta október. Þá mun verslun Bónus á Smáratorgi loka í um 3 vikur í ágúst en unnið er að stækkun og endurbótum á versluninni.

Eins og fram hefur komið undirritaði félagið samninga um kaup á öllu hlutafé í Lyfju hf. og Olíuverzlunar Íslands hf. Kaupin voru undirrituð með fyrirvörum. Vegna kaupa á hlutafé í Lyfju hf. hefur fyrirvörum vegna áreiðanleikakönnunar verið aflétt en enn er fyrirvari í gildi vegna samþykkis Samkeppniseftirlitsins. Vænta má niðurstöðu eftirlitsins vegna Lyfju í júlí. Þá eru í gildi fyrirvarar vegna kaupa á Olíuverzlun Íslands hf. um niðurstöður áreiðanleikakönnunar og samþykki Samkeppniseftirlitsins. Vænta má niðurstöðu undir lok árs 2017.

„Samkeppnisumhverfi verslunar á Íslandi er að breytast. Félagið hefur undirbúið sig vel undanfarin ár, m.a. með hagræðingaraðgerðum og betri innkaupum. Breytt samkeppnisumhverfi hefur áhrif á veltu og markaðsstöðu félagsins. Of snemmt er að segja til um hve mikil áhrifin verða á afkomu næstu ársfjórðunga og til framtíðar. Félagið rekur yfir 50 verslanir og býður sama verð um land allt. Félagið hefur á að skipa öflugri vöruhúsastarfsemi, starfsfólki með mikla reynslu og mikilvæg viðskiptasambönd við íslenska og erlenda birgja og mun byggja á þeim góða grunni til framtíðar,“ segir í tilkynningu Haga.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK