Tekjur Airbnb af Íslandi námu 900 milljónum

AFP

Heimagisting í gegnum Airbnb í Reykjavík velti um 46 milljónum evra á síðasta ári sem jafngilda 6,1 milljarði íslenskra króna. Ætla má að þar af hafi um 900 milljónir króna runnið í vasa fyrirtækisins Airbnb en óvíst er hvort að fyrirtæki af þessum toga greiði nokkurn skatt af starfsemi sinni hér á landi. 

Hagfræðideild Landsbankans kynnt ítarlegu greiningu á ferðaþjónustunni á ráðstefnu ­bank­ans í Hörpu í dag. Deildin hefur aflað gagna um starfsemi Airbnb í Reykjavík í gegnum greiningarfyrirtækið Airdna sem safnar samtímagögnum af vefsíðu Airbnb.

Hagstofa Íslands hefur áður lagt mat á hversu algengt er að ferðamenn notist við Airbnb-íbúðir eða aðra óskráða gististaði en athugun hagfræðideildar bendir til þess að gistingin sé mun umfangsmeiri en mat Hagstofunnar gefur til kynna. Hagstofan áætlar að rétt undir 670 þúsund gistinætur á höfuðborgarsvæðinu öllu hafi verið óskráðar árið 2016 en útreikningar hagfræðideildar benda til þess að þær hafi verið ríflega 1,1 milljón aðeins í Reykjavík og því mögulega allt að 1,4 milljónir á öllu höfuðborgarsvæðinu.

Hlutfallsleg aukning í þessari tegund gistingar kann að mati hagfræðideildar að skekkja verulega mælingar á útgjöldum ferðamanna, sem og fjölda gistinátta. Ein helsta ástæða þess að erfitt er að nálgast nákvæmar upplýsingar um heildarfjölda gistinátta ferðamanna er sú að hluti framboðsins er óskráður. 

Markaðshlutdeild hátt í 50%

Aðgengileg gögn um útleigu Airbnb í Reykjavík ná aðeins yfir tímabilið frá ágúst 2015 til og með ágúst 2017. Í greiningu hagfræðideildar kemur fram að miðað við sambærileg tímabil hafi aukning útleigu árið 2016 numið 152% milli ára. Það sem af er þessu ári hafi vöxturinn haldið áfram en hafi 43% aukning mælst fyrstu átta mánuði ársins miðað við sama tímabil í fyrra.

Miðað við höfuðborgarsvæðið metur hagfræðideildin að markaðshlutdeild Airbnb hafi verið 40% síðastliðið sumar. Tekið var fram að þar sem upplýsingar um Airbnb-gistingu í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur séu ekki taldar með megi ætla að markaðshlutdeildin sé um 50%. Álykta megi að markaðshlutdeild Airbnb-gistinga af hótelmarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu fari sívaxandi. 

Grein­ing Lands­bank­ans á ís­lenskri ferðaþjón­ustu

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK