706 milljarða velta

Velta í virðisaukaskattskyldri starfsemi, fyrir utan lyfjaframleiðslu, starfsemi ferðaskrifstofa og farþegaflutninga á vegum, var 706 milljarðar króna í júlí og ágúst sem er 1,4% hækkun miðað við sama tímabil árið 2016. Veltan jókst um 1,7% á tímabilinu september 2016 til ágúst 2017 miðað við síðustu tólf mánuði þar á undan. Velta í byggingarstarfsemi eykst um 20% á ársgrundvelli.

Starfsemi tengd farþegaflutningum og ferðaskrifstofum var ekki virðisaukaskattskyld fyrr en í ársbyrjun 2016 og er nauðsynlegt að taka tillit til þess þegar velta frá og með 2016 er borin saman við fyrri ár.

Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofunnar.

Sú tímabundna breyting hefur verið gerð að nú eru birtar tölur yfir veltu í virðisaukaskattskyldri starfsemi án framleiðslu lyfja og efna til lyfjagerðar. Verið er að yfirfara og sannreyna gögn tengd þeirri atvinnugrein, segir í fréttinni.

Hærra þrep virðisaukaskatts, eða almennt þrep, er í dag 24%. Í þessu þrepi eru allar tegundir vöru og þjónustu sem ekki eru flokkaðar í öðrum þrepum samkvæmt lögum um virðisaukaskatt (nr. 50/1988). 

Lægra þrep virðisaukaskatts er í dag 11% skv. 14. grein laga um virðisaukaskatt. Í þessu þrepi eru m.a. bækur, tímarit, hitaveita, rafmagn til húshitunar, matvara, þjónusta veitingahúsa, gistiþjónusta, farþegaflutningar innanlands (aðrir en áætlunarflutningar) og þjónusta ferðaskrifstofa. Áfengi er í lægra þrepi síðan 1. janúar 2016 en var áður í hærra þrepi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK