Veiking krónunnar skilar sér inn í vísitölu neysluverðs

Breytingin skýrist fyrst og fremst af lækkun á gengi krónunnar, …
Breytingin skýrist fyrst og fremst af lækkun á gengi krónunnar, en verð á evru hefur hækkað um 4,9% og verð á Bandaríkjadal hefur hækkað um 7,1% milli verðkannanavikna. Ljósmynd/Aðsend

Hagstofan birtir nóvembermælingu vísitölu neysluverðs (VNV) fimmtudaginn 29. október nk. Hagfræðideild Landsbankans spáir 0,3% hækkun vísitölunnar milli mánaða. Gangi spáin eftir hækkar ársverðbólgan úr 2,8% í 3,3%.

Þetta kemur fram

<a href="https://umraedan.landsbankinn.is/umraedan/efnahagsmal/frett/2018/11/16/Hagsja-Veiking-kronunnar-sidustu-manudi-skilar-ser-inn-i-visitolu-neysluverds/" target="_blank">í Hagsjá Landsbankans. </a>

„Spá okkar nú er 0,1 prósentustigi hærri en spá okkar frá í október. Breytingin skýrist fyrst og fremst af lækkun á gengi krónunnar, en verð á evru hefur hækkað um 4,9% og verð á Bandaríkjadal hefur hækkað um 7,1% milli verðkannanavikna,“ segir bankinn. 

Helstu áhrifaþættir milli mánaða nú:

  • Flugfargjöld til útlanda lækka alla jafna milli mánaða í nóvember. Við gerum ráð fyrir að þau lækki minna milli mánaða en síðustu ár.
  • Verðkönnun okkar á fasteignamarkaði bendir til þess að reiknuð húsaleiga hækki.
  • Matur og drykkjarvara hækka einnig vegna lækkunar á gengi krónunnar.
  • Kaup ökutækja hækka vegna lækkunar á gengi krónunnar.

Það er töluvert mikil óvissa um verðlagsþróun næstu mánuði og meiri óvissa en oft áður. Þessi óvissa snýr einna helst að tvennu, annars vegar þróun fasteignaverðs og hins vegar með hvaða hætti sú gengisveiking sem orðið hefur á undanförnum mánuðum kemur fram í verðbólgu, að því er fram kemur í Hagsjánni. 

Þá segir, að það sé ljóst að veikingin muni auka verðbólgu en óvissan snúi að því hversu mikið verðbólgan muni aukast.

„Það mun m.a. ráðast af svigrúmi fyrirtækja til að taka að hluta til á sig gengisveikinguna, samkeppnisstigi og að hversu miklu leyti fyrirtæki telja að þessi gengisveiking sé komin til að vera. Telji stjórnendur fyrirtækja að gengisveiking sé komin til að vera eru þeir líklegri til að hækka verð en ef þeir telja að hún sé tímabundin og að krónan muni styrkjast á ný.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK