Of mörg dæmi um vafasaman rekstur

„Sama hvað kemur upp á eru starfsmenn okkar á vakt …
„Sama hvað kemur upp á eru starfsmenn okkar á vakt sjö daga vikunnar, 24 tíma á sólarhring,“ segir Þórunn Reynisdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Horfur eru á góðu ferðasumri hjá Úrvali-Útsýn og virðist ekkert lát ætla að verða á áhuga sólþyrstra Íslendinga á spænskum strandbæjum þar sem njóta má lífsins í góða veðrinu. Þórunn Reynisdóttir, forstjóri ferðaskrifstofunnar, segir líka vaxandi áhuga á ferðum til Austur-Evrópu og má m.a. þakka það komum nýrra flugfélaga sem bjóða upp á beinar tengingar við borgir á borð við Varsjá og Ríga. Spennandi tækifæri kunna að vera handan við hornið með tengingum við Asíu.

Þá mun Úrval-Útsýn á næstu dögum taka í notkun nýja bókunarvél á netinu sem á að auðvelda íslenskum ferðalöngum að kaupa, með einföldum hætti, hvort heldur er flug eða ferðapakka um allan heim. Hefur ferðaskrifstofan gert flugleigusamning við Icelandair fyrir þetta sumar og mun því m.a. geta boðið þeim viðskiptavinum sem þess óska að ferðast til útlanda og aftur heim í „betra sæti“. Þórunn segir þetta ólíkt venjulegu leiguflugi þar sem yfirleitt er aðeins eitt farrými í boði.

Aðspurð hvers vegna Icelandair varð fyrir valinu segir Þórunn að sú ákvörðun hafi m.a. byggst á því hvernig tryggja mætti sem besta þjónustu við viðskiptavini ferðaskrifstofunnar á tímum mikilla breytinga á íslenskum og alþjóðlegum flugmarkaði. „Áfangastaðir okkar í sumar eru að mestu leyti þeir sömu og í fyrra, og hefðbundnir áfangastaðir á Spáni í aðalhlutverki. Við höfum getað boðið upp á mjög hagstæða flug- og hótelpakka á þessum stöðum og þökk sé samstarfi við okkar erlendu hótelbirgja á hverjum stað erum við með vöru sem hefur töluverða sérstöðu,“ útskýrir Þórunn en Úrval-Útsýn býður upp á flug til Gran Canaria og Tenerife árið um kring.

Tímasparnaður og öryggi

Sumum gæti þótt það merkilegt að spænsku strandbæirnir skuli hafa svona sterkt og viðvarandi aðdráttarafl á íslenska ferðalanga sem sumir geta varla hugsað sér annað en að skreppa eins og einu sinni á ári – og helst oftar – suður að Miðjarðarhafi eða til Kanarí til að spila nokkra hringi á fallegum golfvelli, sigla eða hjóla, versla og gera vel við sig í mat og drykk. „Það á ekki bara við um Íslendinga heldur Skandinavíubúa almennt að þeir sækja í þessa staði og skemmir ekki fyrir að þjónustan þar er í alla staði mjög góð og búið að taka gististaðina í gegn. Við sjáum líka að ferðalangar kunna að meta fjölbreytnina í gistiframboðinu og hægt að velja á milli ólíkra svæða og ólíkra gæðaflokka, allt upp í fimm stjörnu lúxushótel og lúxusíbúðagistingu,“ útskýrir Þórunn og bætir við að enginn afgerandi munur sé á milli þess hvert ákveðnir viðskiptavinahópar ferðaskrifstofunnar leita. Þannig sé ekki hægt að segja að eldri og rólegri ferðalangar velji tiltekna bæi en næturuglurnar og gleðiljónin taki stefnuna annað. „Það á við um alla áfangastaði okkar að þeir sækja í alla markhópa með þjónustu- og afþreyingarframboði sínu.“

Einnig er áhugavert að reksturinn skuli blómstra hjá ferðaskrifstofum eins og Úrvali-Útsýn og pakkaferðir höfði enn til stórs hóps neytenda, nú þegar leitarvélar á netinu auðvelda fólki að skipuleggja ferðalög sín sjálft. Þórunn segir hægt að skýra þetta m.a. með því öryggi og þægindum sem fylgja því að versla við ferðaskrifstofu. „Ef það t.d. gerir vonskuveður og röskun verður á flugi, eins og hefur gerst í vetur, þá eru viðskiptavinir í góðum höndum hjá okkur og við leysum úr vandanum. Sama hvað kemur upp á eru starfsmenn okkar á vakt sjö daga vikunnar, 24 tíma á sólarhring, en margir hafa brennt sig á að ef þeir t.d. kaupa ódýrasta fáanlega flugmiðann frá erlendum seljanda sem þeir finna í gegnum leitarvél er ekki alltaf hægt að stóla á að fá aðstoð utan hefðbundins afgreiðslutíma, hvað þá að fá aðstoð á íslensku,“ segir Þórunn og bætir við að á sólarstrandaáfangastöðum Úrvals-Útsýnar sé ferðaskrifstofan líka með sína eigin starfsmenn á staðnum til að aðstoða gesti.

Þórunn bendir jafnframt á að það sem naskir neytendur hafi gert sér grein fyrir er að það getur verið flókið og tímafrekt að skipuleggja ferðalag. „Ef leitin að rétta fluginu og gistingunni kallar á að grúska á netinu í fimm daga, eða jafnvel lengur, þá er það vitaskuld ákveðinn fórnarkostnaður.“

Loks segir Þórunn að jafnvel reyndasta fólk geti slysast til að gera mistök þegar það bókar flug og gistingu á eigin spýtur og töluvert öryggi fólgið í því að versla í staðinn við ferðaskrifstofu sem axlar alla ábyrgð á bókunum og skipulagningu. „Að slysast t.d. til að bóka flug til Portland í Maine frekar en Portland í Oregon, eða rugla dagsetningum, geta verið dýr mistök og þarf ekki nema minni háttar rugling til að eyðileggja fríið.“

Eftirliti ábótavant

Eins og fyrr var getið hafa undanfarin misseri einkennst af hræringum á flugmarkaði og þá hafa líka verið sviptingar á íslenska ferðaskrifstofumarkaðinum. Er þess skemmst að minnast að WOW air fór á hausinn snemma á síðasta ári, en mögulegt er að tvö ný flugfélög hefji rekstur innan skamms.

Þá fór rekstur Primera á hliðina og því tengt tók Arion banki yfir rekstur TravelCo, sem rekur tvær ferðaskrifstofur hér á landi. Í desember hætti ferðaskrifstofan Farvel rekstri og sátu margir eftir með sárt ennið, eins og komið hefur fram í umfjöllun Morgunblaðsins.

Þórunn segir alla samkeppni af hinu góða en þykir vanta upp á eftirlit stjórnvalda með starfsemi ferðaskrifstofa. „Þetta hef ég bent bæði ráðuneyti ferðamála og Ferðamálastofu á – margsinnis – og allt of mörg dæmi um vafasaman rekstur þar sem fyrirtæki og einyrkjar eru að taka á sig skuldbindingar sem þau geta ekki endilega staðið við,“ segir hún og bætir við að það þurfi að hafa nánari gætur á fyrirtækjunum í greininni til að koma nokkuð hratt og vel auga á hættumerki í rekstri þeirra. „Það er mjög mikilvægt að eiginfjárstaða þessara fyrirtækja sé skoðuð áður en ferðaskrifstofuleyfi er endurnýjað.“

Þórunn segir líka áríðandi að allir sitji við sama borð, og óheppilegt að þurfa að standa í samkeppni við ferðaskrifstofur sem hafa heilan banka sem bakhjarl.

„Það er mjög óðlilegt að vera í samkeppni við banka sem er að leigja heilu flugvélarnar til að senda Íslendinga í sólarferðir. Einnig er með ólíkindum að sjá Andra Má Ingólfsson [sem átti Primera Group] undirbúa opnun á ferðaskrifstofu kortéri eftir að Arion banki þurfti að taka allar hans ferðaskrifstofur yfir til sín. Hann upplýsir nýlega í viðtali við Morgunblaðið að hann sé fullfjármagnaður, en skv. fyrirtækjaskrá er „fullfjármagnaður“ kr. 500.000. Það er eitthvað mikið bogið við þetta kerfi okkar.“

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. janúar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK