Mikill viðsnúningur í vöruviðskiptum

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

Vöruútflutningur í greiðslujöfnuði var áætlaður 154 milljarðar króna á þriðja ársfjórðungi 2020 en vöruinnflutningur 187,9 milljarðar. Vöruviðskiptajöfnuður var því áætlaður neikvæður um 33,9 milljarða króna.

Á sama ársfjórðungi var þjónustujöfnuður áætlaður jákvæður um 20,4 milljarða. Útflutt þjónusta var áætluð 90,5 milljarðar króna en innflutt þjónusta 70,1 milljarður.

Á þriðja ársfjórðungi 2020 var því áætlað verðmæti útflutnings vöru- og þjónustuviðskipta 244,5 milljarðar króna samanborið við 374,7 milljarða á þriðja ársfjórðungi árið áður. Á sama tíma var áætlað verðmæti innflutnings vöru- og þjónustuviðskipta 258,1 milljarður samanborið við 314,3 milljarða á sama tíma árið áður. Vöru- og þjónustujöfnuður var því áætlaður neikvæður um 13,6 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi 2020 en var jákvæður um 60,4 milljarða á sama tíma 2019.

Fyrstu þrjá ársfjórðunga ársins 2020 var vöru- og þjónustujöfnuðurinn neikvæður um 30,5 milljarða en var jákvæður um 109,4 milljarða á sama tíma 2019.

Útflutningstekjur af þjónustuviðskiptum hafa dregist saman um tæp 50% það sem af er ári

Verðmæti þjónustuútflutnings var 133,5 milljörðum króna minna á þriðja ársfjórðungi 2020 en á sama tíma árið áður eða 59,6% á gengi hvors árs. Útflutningstekjur af ferðalögum námu 28,4 milljörðum og lækka á milli ára um 91,2 milljarða króna eða 76,3% á gengi hvors árs fyrir sig. Tekjur af samgöngum og flutningum minnka einnig mikið á milli ára eða um 72,1% eða 47,7 milljarða króna á gengi hvors árs. Samdráttur í útflutningstekjum af farþegaflutningum með flugi vegur þar þyngst en samdrátturinn þar mælist 90,8% á milli ára.

Verðmæti þjónustuútflutnings til Evrópu á þriðja ársfjórðungi 2020 nam 62,8 milljörðum króna eða 69,4% af heildarverðmæti þjónustuútflutnings. Þar af var þjónustuútflutningur til Þýskalands 10,9 milljarðar króna, eða 12,1% af heildarverðmæti, og þjónustuútflutningur til Bretlands 10,6 milljarðar eða 11,7% af heildarverðmæti. Á sama tíma nam verðmæti þjónustuútflutnings til Bandaríkjanna 16 milljörðum króna eða 17,7% af heildarþjónustuútflutningi.

Verðmæti þjónustuinnflutnings hefur einnig dregist mikið saman á árinu Verðmæti þjónustuinnflutnings var 45,6 milljörðum króna minna á þriðja ársfjórðungi 2020 en á sama tíma árið áður eða 39,4% á gengi hvors árs fyrir sig. Útgjöld vegna ferðalaga Íslendinga erlendis námu 16,1 milljarði króna og lækka um 33,6 milljarða á milli ára eða 81,7% á gengi hvors árs. Útgjöld vegna samgangna og flutninga dragast töluvert saman á milli ára, um 32,5% eða 9,8 milljarða króna á gengi hvors árs.

Verðmæti þjónustuinnflutnings frá Evrópu á þriðja ársfjórðungi 2020 nam 57,4 milljörðum króna, eða 81,8% af heildarverðmæti þjónustuinnflutnings. Þar af var þjónustuinnflutningur frá Hollandi 8,1 milljarður eða 11,6% af heildarinnflutningi og þjónustuinnflutningur frá Bretlandi 7,6 milljarðar króna, eða 10,9% af heildarinnflutningi. Fyrir sama tímabil nam verðmæti þjónustuinnflutnings frá Bandaríkjunum 8,2 milljörðum króna, eða 11,7% af heildarverðmæti innflutnings.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK