Aron Björn á meðal 100 bestu í heimi

Aron ásamt verðandi eiginkonu sinni, Söru Dröfn Gunnarsdóttur. Hún fer …
Aron ásamt verðandi eiginkonu sinni, Söru Dröfn Gunnarsdóttur. Hún fer í sama MBA-nám í haust.

Aron Björn Bjarnason, MBA-útskriftarnemi við viðskiptadeild Berkeley-háskólans í Kaliforníu í Bandaríkjunum (e. University of California-Berkeley, Haas School of Business), var á dögunum valinn á lista yfir 100 bestu MBA-nemendur í heimi. Auk Arons komust tveir aðrir nemendur úr Berkeley á listann, Afraz Khan og Charlie Yates.

Aron segir í samtali við Morgunblaðið að útnefningin sé fyrst og fremst mikill heiður.

Aron hefur þegar ráðið sig í fullt starf sem tæknilegur vörustjóri (e. Product Manager – Technical) hjá tæknirisanum Amazon sem hann var í starfsnámi hjá síðasta sumar.

Sumayyah Alsabri, framkvæmdastjóri nemendaupplifunar og leiðtogaþróunar hjá skólanum, segir í umsögn um Aron á vefnum Poets & Quants að Aron sé framúrskarandi leiðtogi. Hann sé bæði ákveðinn og eigi auðvelt með að sýna hluttekningu. Hann hlusti á ólíkar hliðar, komi auga á styrkleika og tækifæri og eigi gott með að leysa úr vandamálum. Þá sé hann framúrskarandi leiðtogi sem leitist við að sameina fólk.

Tvöföld gráða

Aron er að útskrifast með tvöfalda gráðu, MBA og M.Sc. í iðnaðarverkfræði. „Ég tók B.Sc. í fjármálaverkfræði í Háskólanum í Reykjavík og langaði að bæta við mig í verkfræðinni í bland við MBA-námið,“ segir Aron og kveðst mjög ánægður með skólann og námið sem hófst haustið 2021.

Spurður um af hverju Berkeley hafi orðið fyrir valinu segir hann að upphaflega hafi hann verið að velja á milli nokkurra skóla en hjá Berkeley hafi hann mætt einstaklega góðu viðmóti í umsóknarferlinu.

„Ég var að sækja um í miðjum faraldri. Berkeley sýndi meiri skilning á því en hinir að ég, komandi frá Íslandi, vildi vera á staðnum en ekki í fjarnámi. Stærsta ástæðan var hins vegar fólkið sem ég hitti áður en ég tók ákvörðunina. Ég fann strax fyrir mikilli hlýju og áhuga og ég upplifði mig mjög velkominn.“

Einnig hafði það áhrif að sögn Arons að Berkeley er í nágrenni Kísildalsins. Draumur Arons var að fá starf hjá einhverju af stóru tæknifyrirtækjunum sem þar eru með bækistöðvar.

Aron segist ekki vita nákvæmlega hvernig valið er á listann en stjórnendur skólans sjá um að tilnefna nemendur sem þeim þykir skara fram úr. Þó viti hann að störf hans sem formaður nefnda í nemendafélagi skólans hafi haft sitt að segja.

„Það eru um fjörutíu ólíkar nefndir í skólanum og ég var kosinn til að stýra nefndarstarfinu, sem gekk mjög vel. Hluti af því er að kynna nefndarstarfið fyrir nýjum nemendum og aðstoða leiðtoga allra nefnda.“

Viðtalið í heild sinni má lesa í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK