Halda áfram þrátt fyrir orð Þórdísar

Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri Landsbankans.
Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri Landsbankans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir kaup bankans á tryggingafélaginu TM vera til þess að viðhalda verðmæti bankans til haga fyrir eigendur bankans, sem að lang stærstum hluta er ríkið. Hún segir mikilvægt að nýta tækifæri þegar þau gefist og að tilboðið í TM hafi komið til að mjög vandlega ígrunduðu máli.

Hún segir að bankinn muni áfram, þrátt fyrir opinberlega gagnrýni fjármálaráðherra á kaupin, halda áfram og standa við kaupsamninginn og klára áreiðanleikakönnun og afla heimilda eftirlitsaðila. Þá kom til greina að byggja upp tryggingastarfsemi frá grunni áður en bankinn stökk til og bauð í TM.

Þetta er á meðal þess sem Lilja segir í samtali við mbl.is. Í gær var greint frá því að Kvika hefði samþykkt tilboð Landsbankans í TM og að einkaviðræður myndu hefjast um kaupin. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra brást hins vegar við í kjölfarið og sagði viðskiptin ekki verða að veruleika með hennar samþykki nema söluferli Landsbankans myndi hefjast.

Sagðist Þórdís jafnframt hafa óskað eftir skýringum frá Bankasýslu ríkisins sem heldur utan um eignarhlut ríkisins í bankans.

Markmiðið að fjölga viðskiptavinum

Lilja segir að hún líti á TM sem flott félag, en að með kaupum Landsbankans sé hægt að auka verðmæti þess talsvert. „Við erum með stóran hóp viðskiptavina og stóra markaðshlutdeild. Þarna er tækifæri fyrir okkur að bjóða nýja þjónustu til viðskiptavinanna,“ segir Lilja og bætir við að það eigi bæði við um einstaklinga og fyrirtæki. Markmiðið sé að fjölga viðskiptavinum TM og nýta „slagkraft Landsbankans til að efla TM sem tryggingafélag.“

Bendir Lilja á að mikill fastur kostnaður sé hjá fjármálafyrirtækjum og þá skipti miklu máli að fjölga viðskiptavinum, enda kosti lítið að bæta einum viðskiptavini við þegar grunnstoðir séu fyrir hendi.

„Tækifærin núna eru önnur“

Áður fyrr voru bankar og tryggingafyrirtæki í samstarfi með sölu á tryggingum innan útibúa, en bankarnir áttu þó ekki beint tryggingafélögin. Spurð hvað hafi breyst nú þegar þessi starfsemi sé að samtvinnast meira segir Lilja að það byggi meðal annars á uppgangi stafrænnar þjónustu. Því fáist samlegð með að flétta tryggingar með stafrænum lausnum inn í vöruframboð bankans. Í dag séu tækifærin mun meiri en þegar um mannfreka þjónustu var að ræða þegar kom að tryggingasölu.

Nefnir Lilja eignarhald Arion banka á Verði tryggingum í þessu sambandi. „Ég tel að Arion hafi tekið vel utan um Vörð og gert það sem við erum að hugsa. Samtvinna betur rekstur banka og tryggingafélags og nýta þar með slagkraftinn og fjárfestinguna sem er í innviðum. Þetta er ekki eitthvað sem var gert áður þegar bankar og tryggingafélög voru í samstarfi, en tækifærin núna eru önnur.“

Eftir að Kvika eignaðist TM virðist lítið hafa orðið um jákvæð samlegðaráhrif við bankastarfsemina. Spurð hvað sé öðruvísi hjá Landsbankanum segir Lilja að Kvika hafi illa nýtt sér möguleikana með TM og það byggist meðal annars á því að Kvika hafði öðruvísi viðskiptasamband við viðskiptavini sína en Landsbankinn.

Á ekki von á uppsögnum

Spurð hvort að hún geri ráð fyrir því að hægt verði að ná samlegðaráhrifum meðal annars með að draga úr starfsmannakostnaði og þar með uppsögnum segir Lilja það ekki markmiðið, heldur að stækka TM.

„Það verður alltaf einhver samlegð þegar rykið fellur, en aðal hugsunin hjá okkur og drifkrafturinn er að sækja á þennan markað og efla tryggingahlutann. Einhvers konar samlegð eða kostnaðarspörun seinni tíma verður örugglega einhver, en það er ekki drifkrafturinn við kaupin, heldur að bjóða tryggingar og stækka umsvif TM.“

Þýðir þetta þá að starfsfólk TM ætti ekki að gera ráð fyrir niðurskurði og uppsögnum eftir kaupin? „Nei, okkar fyrsta skref væri að taka vel á móti TM og starfsfólki TM og finna leiðir hvernig við verðum betri og sterkari saman,“ segir Lilja.

Munu halda áfram þrátt fyrir orð Þórdísar

Orð Þórdísar í gær vöktu sannarlega athygli, enda sagði hún að ríkisfyrirtæki ætti ekki að kaupa tryggingafélag og að fjármunum ríkisins væri betur varið í samfélagslega innviði og byggja undir verðmætasköpun og samkeppnishæfni. Sagði hún að viðskiptin yrðu ekki að veruleika með hennar samþykki nema ef söluferli Landsbankans hefjist, en ekki er kveðið á um slíkt söluferli í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Lilja segist ekki mikið geta tjáð sig um orð Þórdísar. „Það er erfitt fyrir mig að tjá mig um orð fjármálaráðherra en við höfum ígrundað vel þessi kaup og þau eru á forræði stjórnar bankans. Við munum halda áfram að standa við okkar kaupsamning og klára áreiðanleikakönnun og afla heimilda eftirlitsaðila. Ég get ekki tjáð mig um orð hennar sérstaklega.“

„Við megum aldrei vera fyrirtæki sem staðnar“

Spurð nánar út í ákvörðunina á bak við að fara í kaupin segir Lilja: „Við megum aldrei vera fyrirtæki sem staðnar og við höfum verið að bæta við okkar ýmiskonar þjónustu síðustu ár þó það sé ekki á jafn áberandi hátt. Tryggingar eru fjármálaþjónusta og fellur vel að því sem við gerum.“

Bætir hún jafnframt við að mikilvægt sé að bankinn verði öflugur í samkeppni við aðra á markaði, óháð eignarhaldi. „Að viðhalda verðmæti bankans, það er mikilvægt. Og að við séum að nýta þau tækifæri meðan þau gefast,“ segir Lilja.

Kom til greina að byggja upp tryggingastarfsemi frá grunni

Þá bendir Lilja á að bankinn hafi meðal annars nýlega bætt við sig færsluhirðingu sem hún vænti að verði að stærri tekjustoð áður en fram líða stundir. Til greina hafi einnig komið að byggja upp tryggingastarfsemi frá grunni, en að hin leiðin hafi verið að skoða TM þegar félagið kom á sölu. „Þetta er tækifæri sem við einfaldlega nýttum.“

Segist hún að lokum gera ráð fyrir að þetta verði góð fjárfesting sem skili sér til eigenda bankans, þ.e. til ríkisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK