35% upplifað einelti á vinnustað

Brynja Bragadóttir vinnu- og heilsusálfræðingur.
Brynja Bragadóttir vinnu- og heilsusálfræðingur.

„Ég las áhugavert viðtal um vinnustaðaeinelti á netinu fyrr á árinu. Viðtalið er tekið við dr. Gary Namie félagssálfræðing og sérfræðing í eineltismálum og er það að finna á vefsíðunni legalchecklist.org.

Í viðtalinu segir dr. Namie að vinnustaðaeinelti sé faraldur (an epidemic) í Bandaríkjunum og skilgreinir hann einelti sem tegund ofbeldis þar sem gerandi er á launaskrá („A form of abuse where the abuser is on the payroll“). Þá segir hann að áhrif eineltis á þolendur geti verið mjög alvarleg,“ segir Brynja Bragadóttir, dr. í vinnu- og heilsusálfræði, í sínum nýjasta pistli.

„Fleira sem kemur fram í viðtalinu og ég sé ástæðu til að þýða er eftirfarandi:

  • Hugtakið einelti er notað til aðgreiningar frá hugtökum eins og stríðni.
  • Einelti er endurtekið neikvætt athæfi (repeated mistreatment) sem einn eða fleiri einstaklingar sýna.  
  • Einelti getur falist í meiðandi orðum, hótunum, niðrandi framkomu og skemmdarverkum.
  • Athæfið hefur neikvæð áhrif á heilsu þolanda.

Einelti hefur ekkert með starf þolanda að gera, heldur snýst það um neikvæðan ásetning geranda. Athæfið hefur truflandi áhrif á starf og fjölskyldulíf þolandans. Einnig hefur einelti neikvæð áhrif á starfsanda og fleiri þætti, svo sem afköst starfsmanna.

Samkvæmt rannsóknum dr. Namie, þá hafa 35% Bandaríkjamanna upplifað einelti á starfsferli sínum, eða 54 milljónir manns. Samkvæmt þessu er einelti útbreitt vandamál. Þá leggur dr. Namie áherslu á að einelti sé ekki huglægt (subjective) heldur raunverulegt fyrirbæri. Þó eru margir sem afneita þessum vanda.

Þegar horft er á hóp gerenda, þá sýna rannsóknir að um 70% eru yfirmenn. Samkvæmt þessu er einelti fyrst og fremst stjórnendavandamál. Hins vegar gerist það einnig að starfsmenn (einn eða fleiri) leggja samstarfsfélaga í einelti.

Jafnframt sýna rannsóknir að þolendur upplifa oft mikla skömm og sektarkennd vegna reynslu sinnar. Dr. Namie segir að skömm og sektarkennd séu aðskildar tilfinningar, en að báðar hafi þær þau áhrif að þolendur þegja. Bandarísk tölfræði sýnir t.d. að aðeins 15% þolenda tilkynna einelti á vinnustað.

Þegar þolendur tilkynna einelti, þá vænta þeir þess að vinnuveitendur bregðist við. Hins vegar gerist það sjaldnast. Algengara er að vinnuveitendur afneiti vandanum eða leitist við að réttlæta hegðun gerenda. Af þessum sökum - og vegna þess hversu fáir tilkynna mál - talar dr. Namie um vinnustaðaeinelti sem „hljóðan faraldur“ (silent epidemic).

Því miður er staðan svipuð hér á landi og er mikilvægt að breyta henni. Þarf hér tvennt að koma til, annars vegar að stjórnendur viðurkenni vandann og hins vegar að þolendur (eða vitni) tilkynni mál. 

Eins og staðan er í dag, þá er vinnustaðaeinelti falið vandamál á Íslandi, líkt og kynferðisofbeldi var áður. Sem betur fer hefur umræða um hið síðarnefnda opnast að undanförnu og vonandi mun hið sama gerast með vinnustaðaeinelti,“ segir Brynja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál