Borðar brauð með banana og hnetusmjöri

Þorbergur Ingi Jónsson.
Þorbergur Ingi Jónsson.

Þorbergur Ingi Jónsson er einn fremsti utanvegahlaupari Íslands. Hann varð í 9. sæti á HM í utanvegahlaupi í Frakklandi í sumar, og á Íslandsmetið í Laugarvegshlaupinu. Þorbergur lætur íslenskan vetur ekki stöðva sig í að hlaupa.

„Það er lykilatriði að vera klæddur miðað við aðstæður. Við búum á Íslandi og það er vetur hér níu mánuði á ári. Það má ekki láta veðrið stoppa sig í að hlaupa ef maður ætlar að ná árangri í hlaupum. Svo lengi sem maður klæðir sig vel er ekkert mál að hlaupa 5, 10 eða tuttugu kílómetra í slyddu, rigningu eða roki. Það er mikilvægt að vera í fatnaði sem heldur á manni hita og losar sig við raka. Ég nota mikið fatnað frá 66°Norður og í öllu utanvegahlaupi nota ég skó frá La Sportiva,” segir Þorbergur en hann er orkutæknifræðingur að mennt og starfar hjá Marel.

Það að stunda jafn mikla hreyfingu og Þorbergur Ingi gerir kallar á gott mataræði.

„Ég reyni yfirleitt að borða hollan mat. Dagana fyrir mót borða ég mikið af kolvetnum. Ég reyni samt að breyta ekki of mikið til þannig að ég borða það sem ég borða daglega. Kjúklingur, fiskur og kartöflur eru oft á disknum. Morgunmaturinn hjá mér er yfirleitt brauð með hnetusmjöri og banana. Í hlaupum borða ég GU orkugel, Clif bar og Snickers. Þetta er bara fullt af orku. Það er það sem ég þarf. Í hlaupi í Frakklandi kom ég engu niður nema kóki og appelsínum,” segir Þorbergur og brosir.

Þorbergur hafnaði í 9. sæti HM í utanvegahlaupi, sem oft er nefnt fjallahlaup, í Frakklandi í sumar. Þetta var frábær árangur þar sem meðal keppenda voru margir af fremstu ofurhlaupurum heims. Hlaupin var 86 km leið og hækkunin var alls 5.300 metrar. Þorbergur fór þessa 86 km á 8:47:20 og var rétt um hálftíma á eftir fyrsta manni, Frakkanum Sylvian Court sem varð heimsmeistari.

„Þetta er mitt stærsta mót á ferlinum og var gríðarlega erfitt hlaup, bæði langt og hækkunin mjög mikil. Ég var mjög sáttur með að ná 9. sætinu,” segir hann.

Þorbergur var í 29. Sæti styrkleikastans sem gefinn var út fryir hlaupið, og vakti þessi mjög góði árangur hans sannarlega athygli en þetta var í fyrsta skipti sem Ísland tók þátt í HM í utanvegahlaupi. ,,Stóra markmiðið mitt er næsta HM 2017 en ég tek fullt af hlaupum fram að því. Framundan eru stór alþjóðleg hlaup í Sviss og Frakklandi á næsta ári,” segir hann.

Þorbergur segist hafa byrjað að æfa markvisst og keppa árið 2004. Síðan þá hefur hann verið á fullu í hlaupum. „Ég hef fært mig úr styttri vegalegndum í lengri vegalengdir og nú undanfarið hef ég farið út í ofurhlaup eins og HM í Frakklandi og fleiri hlaup.“

Þorbergur Ingi Jónsson.
Þorbergur Ingi Jónsson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál