Það eru allir að tjúllast af stressi

Inga Kristjánsdóttir, næringaþerapisti og vörustjóri Lyfju.
Inga Kristjánsdóttir, næringaþerapisti og vörustjóri Lyfju. mbl.is/Styrmir Kári

Inga Kristjánsdóttir, næringarþerapisti og vörustjóri í Lyfju, veit sitt þegar kemur að vítamínum og bætiefnum. Þegar hún er spurð að því hvaða vítamín sé nauðsynlegt að taka á þessum árstíma nefnir hún D-vítamín. 

„Ef fólk er ekki þeim mun sólgnara í fiskilifur eða kemst í sól til langs tíma þá tel ég algjörlega nauðsynlegt að taka inn D-vítamín. Það ættu allir að geta fundið D-vítamín við sitt hæfi. Það eru til hylki, dropar, sprey og sérstakt D-vítamín fyrir þá sem eru vegan. Börnin þurfa líka á D-vítamíni að halda alveg eins og fullorðnir og það er líka til fjölbreytt úrval sem hentar þeim,“ segir Inga. 

Spurð að því hvaða bætiefni séu vinsælust þessa stundina fyrir utan D-vítamín nefnir hún að fólk sæki í vítamín sem styrki taugakerfið.  

„Fólk sækir í ýmiss konar bætiefni sem eru sérstaklega hugsuð fyrir heilbrigt og gott taugakerfi, fyrir betri svefn, gott minni, góða slökun og fleira í þeim dúr. Fólk er mikið að leita að því sem getur verið styrkur gegn streitu og álagi. Það eru allir að tjúllast af stressi þessa dagana! Einnig eru þau bætiefni sem geta unnið gegn depurð og drunga vinsæl, sérstaklega á þessum árstíma.“

Þegar Inga er spurð að því hvað hafi verið bætiefni 2016 nefnir hún HCF. 

„Það er frekar einfalt svar við þessu, það er HCF, Happy Calm Focus. Það sló algjörlega í gegn og fólk er yfir höfuð mjög ánægt með virknina af því. Þó eru auðvitað alltaf einhverjir sem hafa ekki gagn af. Það eru margir hópar sem hafa tekið það inn með góðum árangri og má þar nefna þá sem eru að glíma við ofvirkni og athyglisbrest. Einnig hefur bætiefnið gefið góða raun fyrir þá sem þurfa að vera með góða einbeitingu, fyrir eldra fólk, konur á breytingaskeiði og þá sem eru kannski örlítið daprir eða þungir í sálinni.“

Magnesíum hefur verið töluvert í umræðunni. Mælir þú með því að fólk taki magnesíum?

„Já svo sannarlega hafa flest allir gott af því. Magnesíum kemur við sögu í ótrúlega mörgum þáttum líkamsstarfseminnar. Það getur stuðlað að eðlilegri slökun vöðva og hefur því gagnast vel þeim sem þjást af sinadráttum, krömpum og fótapirringi. Íþróttafólk er til dæmis einn hópur sem þarf oft á auka magnesíum að halda. Magnesíum  er einnig nauðsynlegt til að viðhalda sterku og heilbrigðu taugakerfi og inntaka þess getur hjálpað fólki að ná betri ró og sofa betur. Svo er það auðvitað mikilvægt góðri bein- og tannheilsu og einnig fyrir hjarta og æðakerfi. Það mætti lengi telja upp gagnsemi magnesíums en þetta er svona það helsta.“

Vítamínið Q10 hefur notið töluverðra vinsælda hjá þeim sem hugsa vel um heilsuna. Það er því ekki úr vegi að spyrja Ingu örlítið um það og hvers vegna það er gott að taka það inn. 

„Q10 er mikilvægt efni sem líkaminn framleiðir sjálfur. Hins vegar minnkar framleiðslan með aldrinum og þá getur hjálpað að taka það inn í staðinn. Q10 er mjög mikilvægt efni við orkuframleiðslu líkamanns, sem auðvitað er bráðnauðsynlegt að virki eðlilega. Einnig er Q10 mikið ráðlagt í tengslum við heilbrigði hjartavöðvans og  jafnvel talið gagnast gegn hjartabilun. Fólk hefur svo verið að prófa sig áfram með að nota Q10 gegn mígreni, síþreytu og fyrir heilbrigða og fallega húð.“

Hvað verður heitasta vítamínið 2017?

„Ég held að það muni verða bætiefni sem innihalda meltingargerla (probiotics) af hinum ýmsu gerðum. Leikir sem lærðir eru að átta sig á mikilvægi þarmaflórunnar með tilliti til hinna ýmsu sjúkdóma og fyrir almenna heilbrigði og vellíðan. Einnig held ég að bætiefni í dropa- og freyðitöfluformi verði vinsælli en áður, þar sem fleiri og fleiri vilja frekar taka þessi efni inn í vökva en töflum. Svo verða vegan-bætiefni líka vinsæl, þar sem vegan fólk fer alla leið og vill ekki bætiefni unnin úr dýraríkinu. Ég held líka að alls konar formúlur blandaðra bætiefna með sértæka virkni verði æ vinsælli, þar sem margir vilja geta fengið eitthvert eitt bætiefni sem inniheldur mörg virk efni sem vinna saman að einhverju sérstöku takmarki.“

Inga Kristjánsdóttir.
Inga Kristjánsdóttir. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál