Frelsaðist frá vigtinni

Hér er Sylvía þegar hún var ólétt af sínu fyrsta …
Hér er Sylvía þegar hún var ólétt af sínu fyrsta barni og í dag.

Sylvía Ósk Rodriguez er tæplega þrítug gift tveggja barna móðir í Borgarnesi. Í fjórtán ár rokkaði hún upp og niður á vigtinni og var ekki glöð og kát nema vera í kringum 70 kíló. Hún segir að það sé rangt að einblína bara á vigtina og horfa þurfi á hreyfingu og mataræði í heild sinni, ekki bara út frá tölu á vigtinni. 

Sylvía er ÍAK einkaþjálfari, þroskaþjálfi og er þessa dagana að vinna að meistararitgerð í leikskólafræðum. Síðustu tíu ár hefur hún meira og minna unnið á leikskóla í Borgarnesi. 

„Mitt upphaf í líkamsrækt er þegar ég er á sautjánda ári. Þá var ég nýbyrjuð með manninum mínum, sem er frekar grannur að gerð, en ég var frekar þung. Ég hef alla tíð verið þung og er þannig byggð að ég á mjög auðvelt með að byggja upp vöðva og verða sterk. Ég tók mig á og á skömmum tíma náði ég af mér í kringum 20 kg og var þá um 70 kg,“ segir Sylvía. Hún sem sagt léttist um 20 kíló og næstu árin rokkaði hún fram og til baka í þyngd. 

„Ég prófaði allar gerðir megrunarkúra sem til voru til að verða léttari en einhvern veginn var fast í mér að vera ekki yfir 70 kílóum! Ég hætti að borða kolvetni, ég borðaði engan mat sem var með salti í, ég æfði 14 sinnum í viku, ég prófaði þetta allt! Á tímabili vigtaði ég allan mat sem ofan í mig fór og ég fór ekkert ef það krafðist þess að ég gæti ekki vigtað ofan í mig matinn. Þetta gerði ég alla daga nema á sunnudagskvöldum, en það var eina fríkvöldið mitt. Þetta var ömurlegt tímabil og matur og æfingar stjórnuðu algjörlega lífi mínu,“ segir hún. 

Þegar hún varð ólétt af frumburði sínum þaut vigtin upp. 

„Ég var 100 kg þegar ég kom heim af fæðingardeildinni og mér fannst ömurlegt að þurfa að berjast við aukakílóin ofan á það að venjast því að eiga lítið barn. Ég náði að fara niður í 72 kg á einu ári og lofaði sjálfri mér að ég myndi ekki falla aftur ofan í sömu gryfju! Svo varð ég ólétt aftur og ég féll ekki einungis ofan í þessa gryfju, heldur tók heljarstökk ofan í hana! Svo baráttan við kílóin hófst aftur og ég náði þessum kílóum aftur af og skreið aftur niður í 70-72 kíló ári seinna, sem þá var einhver draumaþyngd fyrir mig en ég var samt ekki fyllilega ánægð í eigin skinni,“ segir hún. 

Sylvía segir að hún hafi verið föst í vítahring. 

„Ég held að ég hafi bara áttað mig á að ég væri að elta einhverja draumaþyngd án þess að hafa neina góða og gilda ástæðu fyrir því. Mér fannst eitthvað skömmustulegt við að vera þyngri og „feitari“, eins absúrd og það hljómar. Ég áttaði mig á að ég var ekkert hamingjusamari þótt ég væri að þræla mér í einhverja þyngd, ég fann alltaf eitthvað annað til að pirra mig á, þó svo þyngdin væri takmarkið. Þá fóru hugsanirnar bara að snúast um að léttast enn meira, fá flatari maga, fá mjórri læri sama hvað það kostaði. Ég áttaði mig á að ef ég myndi sífellt vera að eltast við einhverja tölu á vigtinni eða fatastærð myndi ég aldrei verða hamingjusöm í eigin skinni!“

Hvernig komstu á þann stað sem þú ert á núna? 

„Ég fór að vanda mig við að horfa frekar á það sem mér þætti flott við líkamann minn í staðinn fyrir að agnúast út í einhver smáatriði sem enginn sá nema ég. Ég fór að horfa á það hvað líkami minn gæti gert í staðinn fyrir það sem hann gat ekki gert og ég æfði mig að vera jákvæð gagnvart sjálfri mér. Ég peppaði sjálfa mig áfram. Og einhvern veginn hafðist það allt saman. Í dag er ég alltaf í kringum 80 kg, ég vigta mig sjaldan því þyngdin er aukaatriði hjá mér í dag. Ég hreyfi mig því ég elska að hreyfa mig, ég borða mat sem mér finnst góður og nýt þess að vera til. Og þessi tilfinning, að vera sáttur í eigin skinni, er stórkostleg,“ segir hún. 

Sylvía segir að það hafi tekið hana óralangan tíma að komast á þann stað sem hún er á í dag. 

„Þegar ég horfi til baka átta ég mig á að það tók mig 14 löng ár með hæðum og lægðum að ná þeim stað sem ég er á í dag og ég vildi svo innilega geta hoppað aftur í tímann og sagt 16 ára Sylvíu að hamingjan liggi ekki í kílóafjöldanum.

Og nú þegar ég á sjálf unga stelpu þá er ég dauðhrædd um hana og að hún muni einhvern tímann upplifa að hún sé ekki nógu mikilvæg því hún sé ekki x kg eða svona og hinsegin! Og hvað þá í dag þegar áreitið er endalaust og samfélagsmiðlar tröllríða öllu! Hún skal þá alla vega ekki horfa upp á sína mömmu klípa hér og þar og dæsa yfir spegilmyndinni, við erum fyrirmyndir barnanna okkar og ég ætla að sýna henni að ég sé hamingjusöm svo lengi sem ég geti hreyft mig og verið til, óháð þyngd og fatastærð.

Ég held að við brennum okkur ansi oft á að hugsa að við verðum hamingjusöm þegar við erum x þung eða svona og hinsegin. Það er jú gott að setja sér markmið og stefna að einhverju, en ég tel að það sé alveg jafnmikilvægt að hrósa sér líka á leiðinni að markmiðinu. Hrósa sér fyrir hvern litla sigur hvern einasta dag og vera jákvæður og elska okkur sjálfar, og líkama okkar, á leið að takmarkinu sem við höfum sett okkur. Lífið er núna, ekki eftir 10 kíló, og við eigum það skilið að njóta þess til fullnustu hvern einasta dag.“

Í dag æfir Sylvía fimm til sex sinnum í viku í um það bil 90 mínútur í senn. 

„Þetta er svolítið minn tími dagsins, þetta er það sem ég geri fyrir mig og mitt aðaláhugamál. Ég einblíni á lyftingar og ég vil lyfta þungt og brenni afar sjaldan. Ég svolítið horfi á þetta þannig að þetta eigi að vera gaman, þegar þetta er ekki gaman þá verður þetta kvöð og það vil ég ekki.

Ég æfi alltaf klukkan 6 á morgnana, en ég byrja vanalegast að vinna í kringum 8. Ég vil nýta þennan tíma því eftir langan vinnudag hjá mér og hjá börnunum í leik- og grunnskóla þá tími ég ekki að koma þeim í pössun til að æfa því tíminn sem við fáum saman hvern dag er ekki langur og þann tíma vil ég að þau fái mína athygli óskerta.  Og eins vil ég geta æft stresslaust. Því hefur maðurinn minn séð alfarið um að koma þeim á fætur á morgnana og af stað í skólana svo að ég geti notið minnar æfingar, sem er algjör lúxus og hefur hann stutt vel við mig í öllu sem ég hef gert, sem er ómetanlegt.“

Hvað ertu að borða á venjulegum degi?

„Það er mjög misjafnt. Morgunmaturinn er annaðhvort hafragrautur með rúsínum og mjólk og salti eða AB-mjólk með rúsínum og múslí.

Hádegismaturinn er það sem er í leikskólanum hverju sinni, en leikskólinn sem ég vinn á er heilsuleikskóli og matráðurinn þar er algjör snillingur! Allur matur er gerður frá grunni, mikið af grænmeti og bara hollum og góðum mat, sem auðveldar mér að halda mig hollara megin í lífinu.

Í kaffitímanum er það vanalegast skyrdós, ferna af Hámarki og hrökkkex. Svo borðar fjölskyldan kvöldmat heima, ég reyni vanalegast að hafa matinn heima í hollari kantinum en ég missi ekki svefn þó að það sé rjómasósa með matnum eða ostur á tortillum og þannig. Ég borða þá bara temmilega mikið, ég vil ekki öfgarnar. Ég hef brennt mig þar áður svo ég bara reyni að vera meðvituð um að hafa jafnvægi milli holla matsins og matsins sem er aðeins hitaeiningaríkari.

Ég fæ mér þó alltaf eitthvað sem mig virkilega langar í um helgar, hvort sem það er pítsa eða rjómaostapasta. Og ef ég fæ mér þannig, þá nýt ég hvers einasta bita og svo held ég bara áfram, ekkert samviskubit eða sjálfsniðurrif, bara njóta og halda svo áfram.“

Sylvía með börnunum sínum tveimur.
Sylvía með börnunum sínum tveimur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál