Elísabet útskýrir brottreksturinn frá Landspítala

Elísabet Guðmundsdóttir, lýtaskurðlæknir, var gestur Sölva Tryggvasonar í nóvember.
Elísabet Guðmundsdóttir, lýtaskurðlæknir, var gestur Sölva Tryggvasonar í nóvember. Skjáskot/YouTube

Elísabet Guðmundsdóttir lýtaskurðlæknir var gestur Sölva Tryggvasonar í Podcast með Sölva Tryggva hinn 20. nóvember síðastliðinn. Elísabet komst í fréttir um helgina þegar hún kom til landsins frá Danmörku og fór hvorki í sýnatöku né sóttkví. Hún mætti á mótmæli við Austurvöll um helgina.  

Í þættinum hjá Sölva ræðir Elísabet ítarlega um kórónuveiruna og einnig af hverju henni var sagt upp á Landspítalanum fyrr á þessu ári. 

„Mig langar að segja stutt frá því af hverju ég var rekin. Þegar ég byrjaði á Landspítalanum fyrir átta mánuðum var mér sagt í óspurðum fréttum af fimm læknum sem ég þekki, sumir yfirlæknar, einn karl og fjórar konur, að á Landspítalanum liðist mikið misrétti, kynjabundið misrétti og bara klíkuskapur. Ég lét þetta sem vind um eyru þjóta og hugsaði með mér að ég hefði aldrei lent í neinu svoleiðis. Svo horfði ég bara á að hvernig manneskja sem vann með mér, læknir, var kerfisbundið lögð í einelti sem endaði með því að manneskjan er búin að segja upp. Þetta er eini sérfræðingur sinnar tegundar á landinu sem er í mikilvægu starfi. Ég fór á fund míns yfirmanns, sem er sami yfirmaður og hennar, ég sagði frá að ég hefði setið á 1. bekk og horft á þetta gerast og mér fyndist þetta ekki í lagi.

Ég ætla ekki að fara í einhverja baráttu um það inni á spítalanum. Ég vildi bara fá að vera í friði og fá að sinna þessum hópi sem ég er að sinna. Því ég er að fá konur til baka með minnkandi hnút í brjóstum og alls konar, ég held það sé hægt að koma í veg fyrir mörg brjóstakrabbamein. En ég má ekki gera þetta. Ég má ekki rannsaka konurnar, ég má ekki taka blóðprufur. Ég má ekki senda þær í rannsóknir heldur á ég að senda þær til heimilislækna. Ég er búin að reyna að hringja í heimilislækna, þeir eru ekki sérfræðingar í brjóstum. Þannig að það er brottrekstrarsökin. Plús það að ég kom greinilega við mjög veika punkta þarna því ég var rekin sex dögum eftir þetta,“ segir Elísabet. 

Elísabet ræddi einnig um að einkennalaust fólk gæti ekki smitað út frá sér. 

„Það eru engar rannsóknir til um það, það er búið að rannsaka þetta í 100 ár, meðal annars eftir 1918-faraldurinn, það er til einhver ein rannsókn þar sem kannski líklega einhver smitar af veiru áður en hann er kominn með einkenni. Þær eru ekki til. Við erum ekki að smita einkennalaus. Þú getur ekki greint Covid-19 nema þú sért með einkenni,“ segir Elísabet.

Sölvi benti á að öll þau skilaboð sem við hefðum fengið síðan faraldurinn kom upp væru á þá leið að einkennalausir gætu smitað aðra. 

„Það er bara ekki rétt. Ég hef allavega ekki séð neitt sem bendir til þess. Þetta hefur verið rannsakað svo mikið,“ segir Elísabet. 

Í þættinum ræða þau Elísabet og Sölvi um ýmislegt tengt faraldrinum og skoðanir Elísabetar. Hún segist ekki vera hrædd við að vera útskúfað úr læknasamfélaginu fyrir að spyrja gagnrýninna spurninga um kórónuveiruna. 

Hægt er að hlusta á þáttinn á hlaðvarpsvef mbl.is og í spilaranum hér fyrir neðan. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál