Mun án efa stílisera heimili kúnnanna

Guðlaug Halldórsdóttir hefur hafið störf á Fasteignasölunni Bær.
Guðlaug Halldórsdóttir hefur hafið störf á Fasteignasölunni Bær. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Mér var boðið þetta starf og ég ákvað að þiggja það þar sem ég hef ólæknandi áhuga á húseignum, arkitektúr og hönnun. Í þessu starfi fæ ég að sjá allar tegundir húsnæðis og læri ýmislegt nýtt og spennandi. Ég fæ yfirleitt hugmyndir til endurbóta og fegrunar um leið og ég sé húsnæði og ég hef endalausa löngun til að gera gott betra og fallegra og skapa þá stemningu sem mér finnst tilheyra hverju húsnæði fyrir sig. Auðvitað skiptir öllu máli að sá aðili sem mun koma til með að búa í húsnæðinu líði vel þar og alltaf þarf að hafa í huga þarfir íbúanna og hvað veitir þeim mesta velllíðan. Einnig er mikilvægt að gera það besta úr því sem fyrir er og hægt er að nýta, en ég vil meina að heimilið á að taka vel á móti okkur, veita öryggi og slökun og helst að þú komir inn og hugsir, ó hvað það er gott að koma heim í þetta fallega heimili,” segir Guðlaug Halldórsdóttir sem nýlega hóf störf á fasteignasölunni Bær.

Guðlaug er landsmönnum að góðu kunn en hún var hluti af hópnum sem var með Innlit/Útlit á Skjá Einum á sínum tíma og svo vann hún líka með Völu Matt í þættinum Veggfóðri sem sýndur var á Stöð 2. Guðlaug er hönnuður en hún lærði í Listaháskóla Íslands og rak hönnunarfyrirtækið Mámímó um margra ára skeið. Síðan hún hætti í sjónvarpinu hefur hún unnið við innanhússráðgjöf. 

Þegar Guðlaug er spurð að því hvort hún muni hjálpa fólki að gera íbúðir sínar sölulegri játar hún því.

„Ég mun veita seljendum ráð hvað má betur fara til að eignin verði söluvænlegri án stórtækra breytinga og oft má laga hluti án mikillar fyrirhafnar og kostnaðar til að eignin verði söluvænni, „Glöggt er gests augað“ og á það oft við, fólk hættir stundum að sjá hvað má betur fara. Það sem skiptir máli við að eign seljist á mettíma er margþætt. Verð og staðsetning skipta máli, ástand eignarinnar utanhúss og innan, gott viðhald er mikilvægt. Góðar myndir af eigninni og ekki skemmir fyrir að falleg heild, innréttingar og innanhúss munir séu til staðar en ekki nauðsynlegt því sumir kaupendur vilja breyta miklu,“ segir hún.

Guðlaug veit fátt skemmtilegra en að breyta og bæta og laga.  

„Ég er mikið í innanhússhönnun fyrir fólk og fyrirtæki, enda með því skemmtilegra sem ég geri. Oft þarf lítið til að gera miklar breytingar, til dæmis réttir litir á rýmið, breyting á uppröðun, nýir hlutir og eitt og eitt húsgagn geta gert kraftaverk. Fólk ætti að hugsa „hvað vil ég segja með mínum stíl?“ Hver er ég? Eitt að því mest spennandi við að koma inn á heimili er að finna út hvernig fólkið sem býr þar er og hvað það vill hafa í kringum sig. Heimilið upplýsir oft aðra um áhugamál og persónur íbúanna sem er svo dásamlegt við flest heimili. Ef þú ert hjólari og átt fallegt reiðhjól þá er flott að hengja það upp í stofunni eða forstofu á smart upphengi og það er á við fallegt málverk.“

Guðlaug hefur aldrei fílað ofurstíliseruð heimili og vill að þau séu fyrst og fremst persónuleg. 

„Mér finnst skipta mestu máli að öllum líði vel á heimilinu, að allir hafi aðstöðu til að sinna sínu, hvort sem það er vinna nám eða áhugamál. Að sameiginleg rými séu nytsamleg og fyrir alla fjölskylduna, ekki lokuð sparistofa sem er notuð nokkrum sinnum á ári. Að fólki líði vel heima og það sé stolt af heimili sínu og njóti þess að bjóða gestum heim með stolti. Oft er það mikil ánægja fyrir fólk að skipta um húsnæði þegar núverandi húsnæði hentar ekki vel lengur, er orðið of stórt eða of lítið og fara í húsnæði sem er eins og sniðið að þörfum þeirra.“

Hvað finnst þér vera mest móðins núna þegar kemur að heimilinu?

„Það sem mér finnst vera mest móðins núna er innanhúss karakter. Enginn einn stíll, frekar að búa til stemningu og þá stemningu sem lýsir íbúunum eða stíll sem býr til það ævintýri sem við þráum og þá erum við búin að taka fyrsta skrefið í þá átt. Til dæmis að skapa draumaveröld með þeim fjárráðum sem fólk hefur á hverjum tíma og setja sér markmið fram í tímann og kaupa þá síðar draumahúsgagnið eða draumaeldhúsið. Það þarf ekki alltaf allt að vera fullkomin, betra er að hafa gæði sem endast og veita meiri ánægju, en að klára allt í einu sem ódýrast og svo breytist tískan og allt heimilið er komið úr tísku einn daginn. Vandaðir hlutir klassískir og standa tímans tönn og eitt og eitt gamalt húsgang með karakter getur gert mikið með nýrri hlutum. Hrifnust núna er ég af dökkum hlýjum litum, gegnheilum við, flaueli, ull og skinnum, fallegum gömlum gler, leir og málm skrautmunum og þessari hlýju lúxus stemningu sem lætur mér líða vel,“ segir hún.

Guðlaug Halldórsdóttir.
Guðlaug Halldórsdóttir. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál