Hvernig eigum við að hafa hjónaherbergið?

Halla Bára Gestsdóttir innanhússhönnuður.
Halla Bára Gestsdóttir innanhússhönnuður. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson

Svefnherbergið er líklegast til það herbergi í húsinu sem margir vilja aðeins uppfæra og gera hlýlegt og aðlaðandi þegar haustið sækir á. Hver skyldi vera auðveldasta leiðin til að breyta því á áhrifaríkan hátt? Að mála. Svefnherbergi í lit gerir gæfumuninn. Halla Bára Gestsdóttir innanhússhönnuður fer yfir litaval í svefnherbergið. 

Ljósmynd/Gunnar Sverrisson

„Ekkert breytir heimilinu jafn mikið og það að mála og skipta þar um liti. Hvort sem þú ert fyrir dökka liti eða ljósari, litir skipta bara öllu máli. Á hverju ári ná ákveðnir litir að verða vinsælli en aðrir, ákveðin hjarðhegðun myndast í litavali. Það skiptir engu máli, svo framarlega sem fólk er tilbúið til að prófa sig áfram og reyna við liti þá er ég ánægð. Hvað þá ef sá litur fær þann sama aðila til að þróa sig frekar og verða enn djarfari.

Það hvaða lit þú velur á heimilið þitt segir mjög mikið um þig, litir eiga að endurspegla persónur heimilisins og hvernig þær virkilega vilja hafa heima hjá sér en ekki hvað öðrum finnst. Ekki hræðast liti, ef kemur fram óöryggi kauptu litaprufur og málaðu á veggi. Sjáðu hvernig birtan fellur á þá, hvort undirtónninn er sá rétti, hvernig liturinn fer með því sem þú átt. Hvort hann hreinlega segir eitthvað um þig og þú fílar hann,“ segir Halla Bára Gestsdóttir, innanhússhönnuður og eigandi www.homeanddelicious.is, spurð um litaval á svefnherbergi.

Halla Bára segir að í gegnum tíðina hafi verið settar ákveðnar litareglur. Hún segir að þessar gömlu reglur hvað varðar liti séu algerlega úreltar.

„Það hvernig fólk bregst við litum er algjörlega persónubundið og háð tilfinningum. Í gegnum tíðina hafa verið settar ýmsar „litareglur“ um áhrif lita, hvaða liti hægt er að nota saman og hvaða litir hreinlega fara ekki saman. Þessu er engin ástæða til að fara eftir, reglurnar eru til að brjóta þær. Við spáum miklu meira í liti en við gerum okkur grein fyrir. Hvaða litur er á bílnum okkar, hvernig grænmetið er á litinn sem við kaupum í matvörubúðinni, hvort græn skyrta passar við bleikar buxur. Fyrir utan það breytist skynjun okkar á litum og áhrif þeirra á okkur með tímanum og ekkert segir að við munum alltaf elska sömu litina. Slíkt getur breyst á djúpstæðan hátt.“

Ljósmynd/Gunnar Sverrisson

Það þrá einhvern veginn flestir að eiga huggulegt svefnherbergi. Halla Bára segir að það þurfi að hugsa svefnherbergið í heild sinni, taka mið af gólfefnum og fleiru þegar litur á herbergið er valinn.

„Ef við hugsum eingöngu um svefnherbergið og litaval þar, þá kemur hreinlega allt til greina. Það eru alltaf margir sem vilja hafa svefnherbergið hvítt og breyta því aldrei. Það þýðir að hvítur litur virkar þar vel, einmitt og algjörlega eins og það á að vera. Hvítur er hins vegar miklu flóknari litur en fólk gerir sér grein fyrir, óræður, og getur verið blandaður öðrum litum án þess að allir taki eftir því. En sleppum hvítum svefnherbergjum að þessu sinni, eins falleg og þau geta verið, og ræðum þau í öðrum litum.

Grátt er hinn nýi hlutlausi litur. Grár er óneitanlega þægilegur litur því hann gengur hreinlega með öllum öðrum litum. En grár litur er líka flóknari en það. Hérna þarf að vanda valið á gráum lit og velja rétta undirtóninn svo hann komi vel út; taka mið af gólfefni og fataskápum, vali á textíl og birtuskilyrðum. Slíkt ætti reyndar að gera með alla liti, því of mikið af gulum, rauðum, bláum eða grænum lit sem undirtóni gjörbreytir litnum á herberginu. Leitið ykkur alltaf ráðgjafar þar sem þið kaupið málninguna sem þið veljið.

Jarðlitir eru þessir mjúku tónar sem flestir samsama sig við. Litir sem virkilega skipta litum eftir ólíkum birtuskilyrðum. Það er líka eins og þeir séu hannaðir til að vinna með öðrum litum enda tekur náttúran á sig óendanlegar myndir. Bláir litir eru með óendanlegan litaskala, himin og haf og allt þar á milli. Ljósir og dökkir. Kaldir og hlýir. Ráðast mikið af því hvað er sett með þeim. Mýkri litir í bleiku og grænu eru fullkomin samsvörun með öllum þessum litum. Þeir lyfta upp og gleðja og verða áhrifameiri notaðir með dökkum litum í bland.

Dökk svefnherbergi. Að hafa svefnherbergið sitt málað í dökkum lit getur hjálpað mikið til við það að ná slökun og hvíld, fyrir utan það að herbergið verður bara fallegt og öðruvísi. Fyrir þá sem aðhyllast dökka liti almennt þá er lítil hætta á því að fara aftur yfir í ljósu línuna þegar kemur að svefnherberginu. Það er einfaldlega of notalegt, þægilegt, kósý. Margir ýja að því að það sé allt of dökkt að hafa dökkmálað þegar er dimmt úti. En þar er ég algjörlega ósammála. Að horfa inn í fallegt svefnherbergi í dökkum lit, þar sem mjúk lýsing af lampa gerir rýmið aðlaðandi, er einmitt það sem maður vill sjá.“

Gunnar Sverrisson, eiginmaður Höllu Báru, tók myndirnar af svefnherbergjunum sem hún hefur hannað á síðustu árum.

„Myndirnar sýna flesta þá liti og tóna sem ég minnist á. Mér finnst ótrúlega gaman og áhrifaríkt að mála svefnherbergi í litum, mála þau í dökku og hafa veggi og loft í sama lit. Mála þau í tveimur litum og skipta veggjum í tvennt í lit, nota dökkt og ljóst saman. Nota jarðliti og leyfa mörgum litum að koma þar inn með í flóruna.“ www.homeanddelicious.is

Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál