Fékk nýtt eldhús fyrir 37.000 kr.

Sandra ákvað að mála eldhúsið sitt bleikt.
Sandra ákvað að mála eldhúsið sitt bleikt. mbl.is/Árni Sæberg

Sandra Gunnarsdóttir er 28 ára áhugamanneskja um innanhússhönnun og öllu því tengt. Henni finnst gaman að spá í heimilum annarra og sjá mismunandi stíla. Fyrir einu og hálfu ári keypti hún íbúð í Grafarvogi og á dögunum málaði hún eldhúsið bleikt og filmaði eldhúsinnréttinguna. 

„Heima hjá mér finnst mér gaman að blanda saman gömlu og nýju og ég fer reglulega í Góða hirðinn og á aðra markaði í bænum. Þær búðir eru í miklu uppáhaldi enda alltaf hægt að finna eitthvað fallegt fyrir heimilið. Mér finnst líka gaman að kaupa gamalt og breyta og gera upp. Ég myndi segja að stíllinn minn væri samblanda af retró og skandínavískum stíl.“

Hvað dreymir þig um inn á heimilið?

„Það sem mig langar mest í inn á heimilið þessa dagana er stór hringlóttur Umbra hub-spegill og fallega mottu í stofuna mína.“

Þegar Sandra flutti inn í íbúðina lá fyrir að eitthvað þyrfti að gera fyrir eldhúsið án þess að eyða of miklum peningum. 

„Þegar við fluttum inn í íbúðina okkar fyrir um einu og hálfu ári var ég staðráðin í því að flikka eitthvað upp á eldhúsið á einfaldan og ódýran hátt þar sem það var ekki á planinu að skipta um innréttingu strax. Skáparnir voru orðnir sjúskaðir og hvíti liturinn á innréttingunni orðinn hálfgulleitur. Ég keypti mér því filmu í Bauhaus og byrjaði að filma. Ég filmaði bæði skápahurðar og borðplöturnar líka. Það er svo mikið úrval af filmum í Bauhaus en ég valdi mér gráar filmur með viðaráferð. Það kemur ótrúlega vel út, sérstaklega með þessum bleika lit á veggjunum. Enda er grátt og bleikt svo fallegt saman,“ segir Sandra. 

Hvers vegna ákvaðstu að mála eldhúsið bleikt?

„Það er mikið grátt heima hjá mér, bæði veggir og svo er ég líka með dökkgrátt gólf. Mér fannst því tilvalið að mála eldhúsið í aðeins bjartari og glaðlegri lit á móti þessu gráa. Ég er frekar djörf og finnst gaman að gera eitthvað aðeins öðruvísi og þegar ég fæ hugmynd í hausinn þá er ég yfirleitt fljót að hrinda henni í framkvæmd,“ segir hún. 

Tók langan tíma að breyta eldhúsinu?

„Það tók svolítinn tíma að filma eldhúsið, en ég var ekkert að flýta mér heldur filmaði bara eina og eina hurð þegar tími gafst. Þetta voru örugglega nokkrir mánuðir í dundi sem það tók mig. Það tók svo enga stund að mála, skreyta og gera fínt. Síðan er ég alltaf að breyta til heima hjá mér þannig það verður gaman að sjá hvað mér dettur í hug að gera næst í eldhúsinu.“

Hvað kostaði að mála eldhúsið og filma innréttinguna?

„Það kostaði mig um 30.000 að filma allt eldhúsið. Málninguna fékk ég síðan á góðum díl hjá Slippfélaginu á um 7.000 kr. Þetta er mikil breyting fyrir litla peninga og ótrúlegt hverju hægt er að breyta með filmum og málningu.“

Hvað er litanúmerið á þessum bleika?

„Þessi fallegi bleiki litur heitir Paradís og fæst hjá þeim í Slippfélaginu.“

Hvernig breyttist andrúmsloftið í íbúðinni við að gera þessar breytingar?

„Mér fannst létta heilmikið yfir öllu þegar ég málaði eldhúsið, þar sem það er mikið dökkgrátt heima hjá mér, þessi bleiki litur er líka bara svo kósý! Þessa dagana er ég mikið að spá í hvað meira ég get málað með þessum lit. Ég er alveg heilluð.“

Grindurnar á veggjunum skapa góða stemningu.
Grindurnar á veggjunum skapa góða stemningu. mbl.is/Árni Sæberg
Bleiki liturinn kemur vel út og passar vel með brassinu …
Bleiki liturinn kemur vel út og passar vel með brassinu sem er í ljósinu og klukkunni. mbl.is/Árni Sæberg
Sandra filmaði eldhúsinnréttinguna í leiðinni.
Sandra filmaði eldhúsinnréttinguna í leiðinni. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál