Hátíðamatur grænmetisætunnar

Valentína Björnsdóttir framkvæmdastjóri Móður Náttúru.
Valentína Björnsdóttir framkvæmdastjóri Móður Náttúru. mbl.is/Árni Sæberg

Það var jólalegt um að litast á heimili Valentínu Björnsdóttur, framkvæmdastjóra Móður náttúru, þegar hún útbjó fjögurra rétta vegan-máltíð. Það færist í vöxt að fólk borði ekki dýraafurðir og setti Valentína saman uppskriftir sem henta þeim sem eiga von á grænmetisætum í mat. Blaðamaður og ljósmyndari Morgunblaðsins geta staðfest að þessir réttir eru algert lostæti.

Valentína segir að jólamatur grænmetisætunnar geti vissulega verið frábrugðinn hefðbundnum jólamat eins og purusteik og rjúpum. Það sé þó ekkert sem segi að ekki sé hægt að nota hefðbundið meðlæti með hnetusteik eða svartbaunabuffi eins og hún gefur uppskrift að hér.

„Það er helst sósan sem þarf að hugsa fyrir, viljum við ekki alltaf hafa góða sósu með hátíðarmatnum?“ spyr hún og segir að til séu margar tegundir af jurtarjóma sem auðveldi matargerðina svo um munar fyrir þá sem eru vegan.

„Til að standa sig 100% í stykkinu borgar sig að lesa vel á allar umbúðir. Hefðbundinn sósujafnari er til dæmis ekki vegan því í honum er mjólkursykur. Í einni af sósunum sem ég gef hér uppskrift að eru vínber en það má gjarnan skipta þeim út fyrir sveppi ef fólki finnst það henta betur,“ segir hún.

Þegar Valentína er spurð að því hvaða jólamatur henti vel þegar fólk á von á grænmetisætum í mat nefnir hún hnetusteik.

„Hnetusteikina má kaupa tilbúna en það er auðvelt að búa hana til,“ segir hún.

Þegar ég spyr Valentínu hvað megi alls ekki nota í grænmetisréttina segir hún að það fari allt eftir því hvort manneskjan sé vegan eða ekki. „Þeir sem eru vegan borða engar dýrafurðir, hvorki smjör, mjólk, egg né hunang svo eitthvað sé nefnt.“

Valentína segir að þeim fjölgi stöðugt sem aðhyllast vegan-mataræði og það njóti til dæmis mikilla vinsælda hjá ungu fólki. Ef von er á jurtaætu í jólamatinn þarf ekki að örvænta því Valentína setti saman ákaflega girnilegar uppskriftir sem henta sérstaklega vel fyrir þennan hóp.

„Mig langaði að gera uppskriftir sem allir gætu gert á auðveldan máta og slegið í gegn um jólin þegar allir vegan-ungarnir mæta heim í jólamatinn,“ segir hún og hlær.

Svartbaunabuffið og hnetusteikin sem Valentína eldaði fyrir Jólablaðið sanna að grænmetisfæði er alls ekki síðra en hefðbundinn jólamatur. Meira að segja vegan béarnaise-sósan fær bragðlaukana til að hoppa af kæti.

„Ég er er mikill bernaise-sósu aðdáandi en þar sem helsta uppistaðan í béarnaise er egg og smjör er hún eins lítið vegan og hugsast getur! Það gerði hugmyndavinnuna enn meira spennandi. Ég gerði nokkrar tilraunir og mér fannst þessi uppskrift koma best; út það er að segja að nota vegan-majónes og hita saman bragðefnin. Það má líka nota kasjúhnetur í staðinn fyrir majónesið. En þá þarf að láta þær liggja í bleyti í nokkrar klukkustundir og mauka þær með vatni í blandara.

Mér fannst sósan verða betri við það að standa í kæli yfir nótt. Það kom mér skemmtilega á óvart að mér fannst sósan jafn góð eftir nokkra daga í kæli.“

Svartbaunabuffið og hnetusteikina er hægt að búa til og eiga í frysti. Valentína segir aðeins þurfa að gæta þess að taka það úr frysti deginum áður en það er notað og hita í ofni.

„Hnetusteikin frá Móður náttúru eins og ég nota hana í uppskriftinni þarf að vera vel þiðin áður en buffið er mótað úr henni og steikt. Steikt buffið má geyma í kæli, ef fólk vill spara sér handtökin og gera þetta deginum áður þá þarf aðeins að hita bufffið í um 10 mínútur áður en það er borið fram,“ segir hún.

Svartbaunabuff með vegan béarnaise-sósa, rauðkáli og grænmeti.
Svartbaunabuff með vegan béarnaise-sósa, rauðkáli og grænmeti. mbl.is/Árni Sæberg

Svartbaunabuff

olía til steikingar

1 rauðlaukur, sneiddur

1 hvítlauksrif, gróft saxað

½ rauð paprika, sneidd

30 g sellerí, sneitt

60 g rifin sæt kartafla

3 döðlur, saxaðar

1 tsk. piparblanda

1 msk. provencal-kryddblanda frá Pottagöldrum

2 msk. sojasósa

½ tsk. salt

2 msk. næringarger

100 g Oumph-sojakjöt

1 dós svartar baunir eða 220 g soðnar

100 g soðið bankabygg

130 g soðnar kartöflur

2 msk. næringarger

50-100 g brauðrasp/haframjöl

100 g grófmalaðar möndlur til að velta buffinu upp úr.

Steikið rauðlauk, hvítlauk, papriku og sellerí í potti þar til það er aðeins farið að brúnast, bætið út í sætri kartöflu og látið blönduna mýkjast aðeins. Setjið döðlur, piparblöndu, provencal-krydd, sojasósu og salt út í pottinn og hrærið vel saman.

Látið þetta kólna aðeins og setjið í matvinnsluvél ásamt restinni af hráefninu nema brauðraspi og maukið allt saman – en ekki of fínt þó.

Hrærið út í brauðraspi eftir þörfum. Látið farsið standa í ísskáp í ca 1 klst. (eða lengur)

Mótið 6 stór buff og passið að hafa þau frekar þétt. Veltið upp úr grófmöluðum möndlum og steikið buffið upp úr vel heitri olíu ca 2 mín. á hvorri hlið.

Látið buffin kólna og pakkið þeim með smjörpappír á milli buffa í gott box ef það á að frysta þau.

Ef þau eru frosin þurfa buffin 15 mín. í ofni v 160 °C.

Vegan béarnaise-sósa

2 msk. matarolía

3 skalottlaukar, fint skornir

2 dl kókosmjólk

½ tsk. túrmerik

½ msk. estragon

½ tsk. svartur pipar

1 msk. hrásykur

2 msk. sítróna

2 msk. fersk steinselja

5 msk. béarnaise-kraftur

6 msk. vegan-majónes

salt

Mýkið skalottlauk í potti, setjið út í kókosmjólk og látið suðuna koma upp. Setjið út í pottinn allt hráefnið nema majónesið og hrærið vel saman.

Látið blönduna kólna aðeins og hrærið saman vegan-majónesi. Smakkið sósuna til með salti og sítrónu. Geymist vel í lokuðu boxi í ísskáp í 5-7 daga.

Það má bera þessa sósu fram kalda.

Rauðkál

800 g rauðkál, fínt skorið í strimla

1 meðalstór rauðlaukur, sneiddur

100 g rauðrófur, skornar í litla bita

1 grænt epli, afhýtt og rifið

½-1 dl eplaedik

safi úr ½ sítrónu

3-5 msk. hrásykur eftir smekk

Allt sett saman í pott og soðið við vægan hita í 40 mín.

Geymist vel í lokaðri krukku í ísskáp.

Kartöflubátar í ofni

Skerið bökunarkartöflur í báta, penslið þær með smáolíu og stráið yfir þær grófu salti.

Bakið í ofni við 180 °C í 20 mín.

Grænt grænmeti

Léttsjóðið strengjabaunir og spergilkál í söltu vatni. Gott er að setja örfáa dropa af góðri olífuolíu og sítrónusafa yfir baunirnar og brokkolíið.

Sveppasúpa með aspas, brauðteningum og truffluolíu.
Sveppasúpa með aspas, brauðteningum og truffluolíu. mbl.is/Árni Sæberg

Sveppasúpa með aspas, brauðteningum og truffluolíu

1 l vatn, soðið

3 teningar sveppakraftur

4 msk. olía

3 skalottlaukar, fínt skornir

250 g ferskir blandaðir sveppir

½ dl hvítvín

2 msk. ferskt timjan

400 ml möndlurjómi

1 msk. hveiti

1 dl vatn

salt og svartur pipar

Leysið upp sveppakraft í heitu vatni.

Mýkið skalottlauk í potti og setjið síðan sveppina út í og látið þá brúnast aðeins. Hellið hvítvíni og timian yfir. Setjið sveppasoðið út í pottinn og möndlurjómann. Hitið saman.

Hristið saman í krukku hveiti og vatn og þykkið súpuna með því.

Smakkið til með salti og pipar.

Ef vill má veiða helminginn af sveppunum upp úr pottinum og mauka þá í matvinnsluvél. Það gerir súpuna bragðmeiri.

Brauðteningar

Steikið 2 brauðsneiðar á báðum hliðum upp úr vel heitri olíu.

Skerið sundur 1 hvítlauksrif og og nuddið brauðsneiðarnar með hvítlauknum.

Skerið brauðið í litla bita. Látið kólna, brauðteningarnir geymast vel í lokuðu boxi í ísskáp í viku.

Léttsjóðið ferskan aspas söltu vatni, skerið hann fallega og setjið út í súpuna.

Dreypið nokkrum dropum af truffluolíu yfir hvern disk ef vill.

Hnetubuff með grænbaunamús, sætkartöflumús og rauðrófuspírum. Með hnetubuffinu er bakað …
Hnetubuff með grænbaunamús, sætkartöflumús og rauðrófuspírum. Með hnetubuffinu er bakað grænmeti og frönsk sósa með vínberjum. mbl.is/Árni Sæberg

Hnetubuff

1 hnetusteik frá Móður náttúru.

Setjið hnetusteikina frosna í ofninn og bakið hana í 40 mín. v. 160 °C.

Látið hnetusteikina kólna vel. Hún geymist vel í ísskáp í þrjá daga ef hún er bökuð.

Hnoðið hnetusteikina í höndunum og mótið úr henni 3 buff. Veltið þeim upp úr möndluflögum og steikið þau á heitri pönnu í u.þ.b. 3 mínútur á hvorri hlið.

Sætkartöflumús

Pikkið nokkur göt á eina meðalstóra sæta kartöflu og bakið í um 40-50 mínútur. Það er upplagt að baka hana um leið og hnetusteikina.

Látið mesta hitann rjúka úr sætu kartöflunni, skerið hana í tvennt og skafið innan úr henni með skeið.

1 meðalstór sæt kartafla, bökuð og maukuð

1 msk. ólífuolía

1 væn lúka ferskt basil, saxað

safi úr ½ límónu

smásalt og svartur pipar

Allt hrært saman. Geymist vel í 5 daga í kæli.

Grænbaunamús

½ l soðið vatn

100 g frosnar grænar baunir

1 tsk. sítrónusafi

2 msk. vatn

1 msk. olífuolía

2 msk. steinselja, fínt söxuð

salt og svartur pipar

Hellið heitu vatni yfir frosnar baunirnar og látið þær standa í 5 mínútur.

Sigtið vatnið vel frá baununum. Setjið allt í matvinnsluvél og maukið vel saman. Geymist vel í lokuðu boxi í 5 daga í kæli.

Frönsk sósa með vínberjum

2 msk. olía

2 skalottlaukar, fínt skornir

2 hvítlauksrif, fínt skorin

2 msk. Dijon-sinnep

1 tsk. grænmetiskraftur

400 ml hafrarjómi

1 tsk. provencal-krydd

1 tsk. piparblanda

2 msk. sítrónusafi eða skvetta af hvítvíni

10 vínber, skorin í tvennt

Hitið olíuna í potti og mýkið skalottlaukinn og hvítlaukinn. Setjið út í Dijon-sinnep og hrærið saman. Bætið hafrarjómanum og grænmetiskraftinum út í og látið suðuna koma upp. Lækkið hitann og bætið út í kryddi, sítrónusafa og vínberjum.

Bakað rótargrænmeti

Afhýðið og skerið í fallega bita

sellerírót

gulrætur

rauðrófur

kartöflur

Raðið grænmetinu á ofnskúffu, gott er að hafa bökunarpappír undir.

Penslið með smáolíu og stráið yfir grófu salti.

Bakið í 25 mínútur v. 170 °C.

Appelsínukaka með súkkulaði og berjasósu.
Appelsínukaka með súkkulaði og berjasósu. mbl.is/Árni Sæberg

Appelsínuhrákaka með súkkulaði og berjasósu

Botn

200 g döðlur (leggja í bleyti í korter til að mýkja þær)

2 bollar möndlur (leggja í bleyti daginn áður, sigta og hreinsa næsta dag og gjarnan þurrka í ofni í 5 mín. á 160 – láta svo kólna aðeins aftur)

Blanda saman í matvinnsluvél þar til nokkuð fínt, má setja 1-2 msk. af vatni ef þetta er allt of þurrt.

Setja smjörpappír í bökuformið, setja botninn á og jafna vel.

Fylling

3 bollar kasjúhnetur (leggja í bleyti daginn áður, sigta og hreinsa næsta dag, á að fara blautt í matvinnsluvélina)

1/3 bolli agave-síróp

½ bolli kókosolía (mjúk/fljótandi)

1 tsk. vanilluduft

safi úr ½ sítrónu

safi úr 1 appelsínu

1 msk. fínt rifin appelsínubörkur (lífrænn)

Setjið allt í matvinnsluvélina oglátið vinna eins fínt og hún gerir, færið yfir í blandarann og blandið þar til silkimjúkt. Setjið fyllinguna á botninn og kælið.

Krem

½ bolli agave-síróp

½ bolli kakóduft

¼ bolli kókosolía (mjúk/fljótandi)

Hrært saman, má setja smá af vatni ef kremið er of þykkt.

Smyrja kreminu á þegar tertan er orðin nógu köld svo kremið og fyllingin blandist ekki saman, láta kremið svo stífna í kæli áður en hún er skorin.

Þessi terta geymist vel í frysti svo það er alveg óhætt að gera hana með góðum fyrirvara.

En þá er betra að setja súkkulaðikremið og fersku hindberin á tertuna daginn sem hún er borin fram.

Berjasósa

100 g blönduð frosin ber

½ dl appelsínusafi

2 msk. agave-síróp

Allt sett í blandara og maukað vel saman.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál