Hollari týpa af hamborgara

Eggjaborgari Guðrúnar Veigu.
Eggjaborgari Guðrúnar Veigu. Ljósmynd/Guðrún Veiga

„Ég lofaði víst upp í ermina á mér í gær að reyna að lifa heilbrigðara lífi. Mig langaði samt í hamborgara í kvöld. Þessi lífsstílsbreyting verður auðvitað tekin í hænuskrefum. Öðruvísi geri ég ekki hlutina. Hægt en örugglega. Það er minn stíll,“ segir Guðrún Veiga í sínum nýjasta pistli en hún útbjó eggjaborgara í kvöldmatinn.

„Djöfull sem mig langaði í franskar með þessu líka. Sjoppufranskar sko. Einn vel djúpsteiktan skammt. Með mikið af kryddi. Dýfa hverri einni og einustu í tómatsósu og láta þær leika um mjúkar varir mínar. Nei. Ég borða ekki kokteilsósu. Ótrúlegt en satt. Það er fyrirbæri sem er mér með öllu óskiljanlegt. Aftur að þessum fína hamborgara.“

Ég borða heldur ekki hamborgarasósu. Oj bara. Það fer alltaf tómatsósa og sterkt sinnep á minn borgara. Nema það sé bernaisesósa í boði. Þá alltaf bernaise. 

Allt í lagi. Hollustan fór kannski smá til fjandans með þessu sósumagni. Ég á ferlega erfitt með að hemja mig í sósunum. Ég vil allt vel sósubleytt. 

Tvö spæld egg í staðinn fyrir hamborgarabrauð. Brauð er auðvitað rót alls ills í heiminum. Að mér skilst. Grænmeti og kjöt á milli.

Æ, ég setti nú líka smá ost á borgarann. Tvær agnarsmáar sneiðar. Ég er nú ekki steindauð að innan þó ég þrái hollara líferni. 

„Eitt egg hefði sennilega alveg dugað. Ég er gjörsamlega afvelta eftir þennan snæðing. Samt langar mig ennþá í franskar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert