Frosin bleik ostakaka frá Alberti

Frosin bleik ostakaka.
Frosin bleik ostakaka. Ljósmynd/Albert Eiríksson

Albert Eiríksson kann svo sannarlega að heilla samferðafólk sitt með góðum mat. Hér er hann með uppskrift að ostaköku sem gerir kvenpeninginn trylltan. Á dögunum var hann með árlegt kaffiboð fyrir hefðardömur. 

Slíkar kaffikvennasamkundur eru kjörinn vettvangur til að prófa nýjar tertur. Sem betur fer lukkast þær flestar vel en auðvitað kemur fyrir að ein og ein er „ekkert spes“ eins og kona nokkur í boðinu hafði á orði um tilraunakaffimeðlæti sem þær smökkuðu. Íslensk jarðarber flæða nú úr gróðurhúsum landsmanna. Þessi terta kemst alveg á topp þrjú yfir bestu hráfæðisterurnar,“ segir Albert á bloggsíðu sinni.

Botn

300 g möndlur

12 döðlur, mjúkar

2-3 msk. kókosolía, fljótandi

smá salt

Setjið allt í matvinnsluvél og maukið. Látið hringform á tertudisk (ekki botninn) og setjið „deigið” þar í. Þrístið því niður og aðeins upp með hliðunum. Frystið á meðan fyllingin er útbúin.

Fylling

3 dl fersk eða frosin jarðarber

safi úr 1/2 sítrónu

1/3 b hunang

2 dl mascarpone

2 dl grísk jógúrt

Blandið saman í matvinnsluvél mascarpone, jógúrt, hunangi og sítrónusafa. Bætið jarðarberjunum saman við síðast. Hellið yfir fyllinguna og frystið. Skreytið með ferskum jarðarberjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert