c

Pistlar:

30. september 2014 kl. 23:19

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Eiginleikar líkamans til heilunar

img_6081.jpgMér finnst ég þegar vera komin á gott skrið með að hreinsa líkamann, enda þótt hið eiginlega 21 dags CLEAN detox ferli hefjist ekki fyrr en á morgun. Ég merki það á mörgu. Eftir rúmlega þriggja vikna starf erlendis, þar sem ég lifði meira og minna á hótelfæði sem ég reyndar vandaði valið á, fann ég fyrir bjúg í líkamanum, sem hvarf um leið og ég fór að drekka grænan djús á morgnana, strax við heimkomu fyrir um viku síðan. Líkaminn er líka á fullu að losa sig við slím. Ég hósta því upp annað slagið yfir daginn og nokkra morgna hefur nefið á mér verið fullt af þurru slími. Allt góð merki um það að hreinsunin sé að virka.

CLEAN detox-prógrammið miðar að því að skapa líkamanum þær aðstæður að hann geti notað náttúrulega eiginleika sína til að heila það sem að er í honum. Hjá mér eru einkennin nokkur sem ég ætla að fylgjast með. Undanfarið hefur sigið bjúgur á báða ökkla hjá mér, þó meira á vinstri ökklann, sem gefur til kynna einhvern slappleika í nýrum. Ég fæ líka oft verk hægra megin, rétt undir rifbeinunum, sem getur tengst lifur og galli. Meltingin hefur verið vandamál hjá mér alveg síðan ég var barn og þótt hún hafi aldrei verið betri en nú, finn annað slagið til í hægri beygjunni í ristlinum, svo ég er spennt að sjá hvort sá verkur hverfi ekki alveg við hreinsunina. Með lífsstíl mínum á undanförnum árum hef ég alveg losnað við liðbólgur, en hugsanlega er ég með einhverjar innvortis bólgur sem ættu að hverfa með þessu detox-prógrami, þegar ph gildi líkamans kemst í gott jafnvægi.

Byrjaði daginn í dag á hugleiðslu. Líkamsræktin fólst í því að hoppa á mini-trampólíninu mínu í 15 mínútur og gera svo jóga-teygjuæfingar. Í bústið mitt setti ég bláber, herslihnetu- og möndlumjólk, Pulsin' hrísgrjónaprótín, hempprótín, ólífuolíu, himalayasalt og ást. Vigtaði mig í morgun og er 65,5 kg. Verður spennandi að sjá hvort sú tala breytist á næstu 3 vikum.

Eftirmiðdagurinn fór í að kaupa ýmislegt sem þarf til þess að geta hafið CLEAN detox ferlið fyrir alvöru í fyrramálið, þann 1. október.

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún ruddi brautina þegar hún hóf að halda sjálfsræktarnámskeið árið 1990. Síðan þá hefur hún haldið fjölda námskeiða tengt heilsu og sjálfseflingu, aðallega kvenna, þótt karlmenn hafi líka slæðst með. Að auki hefur hún haldið fyrirlestra, bæði hérlendis og erlendis. Hún hefur einnig skrifað tuttugu bækur og fjölda greina, bæði á eigin vefsíðu - gudrunbergmann.is - og í blöð og tímarit. Nokkrar bóka hennar hafa verið gefnar út erlendis, bæði í Bandaríkjunum, Noregi, Austurríki og Þýskalandi. Þú finnur hana líka á YouTube og á Instagram.

Meira