c

Pistlar:

21. október 2014 kl. 21:01

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Happatalan alltaf verið 21

standing_yoga_mudra.gifMér hefur alltaf þótt eitthvað sérstakt við töluna 21 enda hefur hún verið mikil happatala í mínu lífi. Nú er senn að ljúka mínum 21. degi í HREIN detox kúrnum - og ég hef tekið ákvörðun um að halda áfram til mánaðarmóta. Það kann að vera að ég breyti síðustu dögunum aðeins og flytji mig þá yfir í lifrarhreinsun, en áfram ætla ég að halda út mánuðinn.

Yfirleitt hef ég látið duga að gera annað hvort jóga á morgnana eða fara í gönguferð, en í dag gerði ég hvorttveggja. Sólin var reyndar farin á bak við ský þegar ég loks kom mér út, en það var hressandi að hreyfa sig í kuldanum og ég er ekki frá því að ég hafi hreyft mig aðeins hraðar en vanalega, bara til að halda á mér hita. Síðdegis var það svo ristilskolun númer þrjú í þessu ferli sem skilaði góðum árangri.

Á morgun fer ég í blóðprufu, sem ég fæ niðurstöðu úr í næstu viku. Hún mun sýna mér hvaða breytingar hafa orðið á meðan ég hef verið á þessum kúr og eins hvort ég sé orðin nægilega öflug til að geta haldið áfram án skjaldkirtilslyfja. Hef ekki mikið fundið fyrir því að vera hætt á þeim, en tek samt tillit til þess sem blóðrannsóknin segir og læknirinn ráðleggur mér í þeim málum.

Í fyrramálið á ég líka tíma hjá Matthildi Þorláksdóttur heilpraktíker. Ég hef verið hjá henni í nokkur ár og fer alltaf reglulega til að láta taka stöðuna á líkamanum mínum. Hún mun skoða þjálni blóðsins, mæla orkuna í líkamanum, styrk líkamskerfanna og hvort mér hefur tekist að losna við þungmálma úr líkamanum. Bíð spennt að sjá hvað kemur út úr því.

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún ruddi brautina þegar hún hóf að halda sjálfsræktarnámskeið árið 1990. Síðan þá hefur hún haldið fjölda námskeiða tengt heilsu og sjálfseflingu, aðallega kvenna, þótt karlmenn hafi líka slæðst með. Að auki hefur hún haldið fyrirlestra, bæði hérlendis og erlendis. Hún hefur einnig skrifað tuttugu bækur og fjölda greina, bæði á eigin vefsíðu - gudrunbergmann.is - og í blöð og tímarit. Nokkrar bóka hennar hafa verið gefnar út erlendis, bæði í Bandaríkjunum, Noregi, Austurríki og Þýskalandi. Þú finnur hana líka á YouTube og á Instagram.

Meira