c

Pistlar:

22. janúar 2017 kl. 11:29

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Áhugaverð leyndarmál

Ég hef undanfarna daga verð að lesa mig í gegnum nýja bók eftir Dr. Yael Adler, sem heitir LEYNDARMÁL HÚÐARINNAR og verð að segja að þau sem þar koma fram eru bæði áhugaverð og skemmtilega framsett. Ég hafði til dæmis ekki hugmynd um að hægt væri að vinna bug á njálg með því að láta þann sem af honum þjáist beygja sig fram strax að morgni, setja límband við endaþarminn og kippa því svo af – og með því orminum og öllum eggjunum sem hann varp um nóttina.

HÚÐIN ER STÆRSTA LÍFFÆRIÐ
Líkamar okkar eru umvafðir húð, sem er um tveir fermetrar að yfirborðsmáli. Hún veitir okkur vernd með þykku lagi sínu en getur jafnframt verið risastór lífrænn pottur fyrir bakteríur, sveppi, vírusa og snýkjudýr. Það er í raun dásamlegt hvernig tungumálið lýsir svo vel tengslum okkar við húðina, því suma daga “líður okkur ekki vel í eigin skinni”, aðra erum við “hörundsár” og svo “vinnum við okkur reglulega til húðar”.

Það er ýmis mál sem Dr. Adler fjallar um sem tengjast húðinni, en ég hef samt ekki beint hugsað um sem hluta af henni, eins og til dæmis eyrnamerg og hor – og hún gerir þetta á skemmtilegan hátt, sem fær mann aðeins til að brosa um leið og maður fær meiri upplýsingar um sjálfan sig.

KYNÆSANDI SVÆÐIN
Hún fjallar líka um kynæsandi svæðin á húðinni, sem við sennilega vitum öll af, án þess að hugsa beint um þau sem hluta af húðinni. Það eru kynfærin, húðin og heilinn sem eru hin skilvirka þrenning að baki vel heppnuðu kynlífi. Samt eru ekki nema 5 ár síðan farið var kerfisbundið að rannsaka kynæsandi svæði húðarinnar. Þá kom í ljós að staðsetning þeirra var nokkuð lík hjá körlum og konum, en að konur skynja erótískt áreiti við snertingu eitthvað sterkar en karlar.

Ekki er annað hægt að segja en að í bókinni sé fjallað á opinskáan og einlægan hátt um hin ýmsu leyndarmál húðarinnar. Og þýðing Rakelar Fleckenstein Björnsdóttur kemur efninu vel til skila. Það er vel þess virði að lesa hana til að fletta enn frekar ofan af þeim leyndarmálum sem húðin kann að búa yfir – og við höfum ekki vitað um.

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún ruddi brautina þegar hún hóf að halda sjálfsræktarnámskeið árið 1990. Síðan þá hefur hún haldið fjölda námskeiða tengt heilsu og sjálfseflingu, aðallega kvenna, þótt karlmenn hafi líka slæðst með. Að auki hefur hún haldið fyrirlestra, bæði hérlendis og erlendis. Hún hefur einnig skrifað tuttugu bækur og fjölda greina, bæði á eigin vefsíðu - gudrunbergmann.is - og í blöð og tímarit. Nokkrar bóka hennar hafa verið gefnar út erlendis, bæði í Bandaríkjunum, Noregi, Austurríki og Þýskalandi. Þú finnur hana líka á YouTube og á Instagram.

Meira