c

Pistlar:

19. desember 2015 kl. 16:29

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Hagsýna húsmóðirin flippar

Smáhesturinn er ekki bara að reyna að ala börnin sín upp þessa dagana heldur er það nánast full vinna fyrir hann að ala sjálfan sig upp. Þótt forritið sé gott þarf stundum að uppfæra það og hlaða inn nýjum fídusum. Það verður þó að játast hér og nú að aðalsjálfsuppeldið felst í því að greina á milli raunverulegra þarfa og gerviþarfa og síðast en ekki síst að átta sig á því hvað keyrir upp hina einu sönnu hamingju og hvað í tilverunni skiptir bara engju djö... máli.

Fagurkerinn sem býr innra með smáhestinum hefur þroskast og áttað sig á því að honum líður betur ef það er þokkalega snyrtilegt í kringum hann og honum líður betur í náttúrulegum gæðaefnum og sniðum en gerviefnum.

Lífið hefur kennt hinum hagsýna smáhesti að það borgar sig oftast að eyða örlítið meiru og sjaldnar og kaupa þá eitthvað sem endist og virkar.

Smáhestinum leið þó pínulítið eins og hann væri búinn að missa það endanlega þegar hann stóð sig að því að kaupa sér aftur nákvæmlega eins föt og hann átti. Fyrir tveimur árum hafði smáhesturinn fjárfest í dragt, sem er nú ekki í frásögur færandi, nema fyrir þær sakir að hún var notuð svo hryllilega mikið að hún var eiginlega komin í gegn og eiginlega alveg orðin háglans. Dragtin er frá sænska spariguggu-merkinu Filippu K og er með því klæðilegasta sem smáhesturinn hefur mátað. Því skal haldið til haga að dressin sem smáhesturinn hefur mátað í gegnum tíðina eru ófá og gerir hann miklar kröfur um snið og efnisval.

Þegar smáhesturinn mætti í innkaupaleiðangur á dögunum tók hann mjög meðvitaða ákvörðun um að kaupa tvær dragtir, aðra svarta og hina dökkbláa. Þetta hljómar náttúrlega eins og argasta bruðl og sóun en þegar heildarmyndin er skoðuð er ekki hægt að horfa á þetta með þeim augum. Það mun náttúrlega enginn sjá muninn en þessir tveir litir munu auka fjölbreytileikann í klæðaburði. Svo má alveg halda því til haga að smáhesturinn er ekki að klæða sig upp fyrir aðra heldur sjálfan sig.

Sumir litir fara einfaldlega betur með dökkbláu á meðan aðrir passa betur við svart. Með því að eiga tvær eins dragtir hvora í sínum litnum þarf smáhesturinn ekki að hafa neinar sérstakar áhyggjur af eigin útgangi. Hann getur verið í þessum fötum til skiptis við bundna kjóla og notað mismunandi silkiskyrtur við.

Svo eru þessir jakkar bara svo fáránlega klæðilegir við pils og gallabuxur – nú eða yfir kjóla yfir sumartímann. Að eiga þá í tveimur litum er innilega engin góðærisstæla-hegðun heldur hagsýni.

Það eina sem smáhesturinn þarf að passa, svona af því hann fer alveg að detta í aldurstengda fjarsýni, er að hafa góða lýsingu í herberginu þegar hann klæðir sig á morgnana svo hann víxli drögtunum ekki. Það agalegasta sem gæti gerst er að fara í svartar buxur við dökkbláan jakka...