c

Pistlar:

21. júní 2015 kl. 9:27

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Tvö frábær fyrirtæki

Nú með skömmu millibili höfum við fengið ánægjulegar fréttir af tveimur frábærum fyrirtækjum. Annars vegar er það fjöl­skyldu­fyr­ir­tækið VHE sem er orðið þekkt inn­an áliðnaðar­ins en það þróar, fram­leiðir og smíðar vél­búnað í húsa­kynn­um fyr­ir­tæk­is­ins í Hafnar­f­irði og sel­ur til ál­vera víðs veg­ar um heim­inn. Hins vegar er það Bláa lónið en heimsóknarmet var slegið þar árið 2014 en þá voru 766 þúsund heimsóknir skráðar. Bæði þessi fyrirtæki hafa orðið til í tengslum við orkufrekan iðnað þó að starfsemi þeirra í dag sé orðin miklu víðtækari en svo að hún takmarkist við það. Þróun og uppbygging fyrirtækjanna er skýr vitnisburður um það hve mikilvægt er að hafa þekkingu og innviði til staðar til að hægt sé að nýta innlendar auðlindir. Á þann hátt er hægt að búa til öflug markaðs-, iðnaðar- og þekkingarfyrirtæki eins og VHE og Bláa lónið. Til samans störfuðu ríflega 1.000 manns hjá þessum fyrirtækjum á síðasta ári.

Gríðarleg arðsemi Bláa lónsins

Fyrir fjórum árum tók afkoma Bláa lónsins stakkaskiptum og hefur nú batnað ár frá ári. Tekjur Bláa lónsins hf. námu 6.176 milljónum króna í fyrra en þegar mest var störfuðu 364 manns hjá Bláa lóninu á síðasta ári. Hagnaður eftir skatta nam 1.802 milljónum eins og kemur fram í afkomutilkynningu frá félaginu. Rekstrartölur félagsins eru ótrúlegar. EBITDA-hagnaður (hagnaður fyrir fjármagnskostnað, skatta og afskriftir) var 2.646 milljónir króna, eða 42,8% af veltu. Eiginfjárhlutfall nam 36% og handbært fé frá rekstri var 2.407 milljónir króna. Eignir félagsins voru í árslok metnar á 7.273 milljónir króna. Aðalfundur félagsins samþykkti arðgreiðslu til hluthafa sem nemur 1.191 milljónum króna.

Vitaskuld má segja að vöxtur Bláa lónsins undanfarin ár hafi verið í takt við þróun ferðaþjónustunnar sem í dag aflar þjóðinni meiri gjaldeyristekna en nokkur önnur atvinnugrein.  Nú er unnið að áframhaldandi uppbyggingu á svæði Bláa lónsins sem felst í stækkun á upplifunarsvæði Bláa lónsins og byggingu lúxushótels þar sem áherslan verður áfram á einstaka upplifun gesta og gæði. Er um að ræða fjárfestingu upp á á milli 5-6 milljarða króna. Bláa lónið er án efa eitt verðmætasta vörumerki landsins og stjórnendur félagsins hafa greinilega áhugaverð áform um frekari hagnýtingu þess, meðal annars með þróun á vörum sínum og verslunarrekstri.blaa

Úr áliðnaði í olíuiðnaðinn

Þjóðhátíðardaginn 17. júní birtist merkileg umfjöllun í Morgunblaðinu. Þar sagði frá því að náið samstarf við álfyrirtækin á Íslandi hefur skapað tækifæri fyrir fjölskyldufyrirtækið VHE, Vélaverkstæði Hjalta Einarssonar, til að selja íslenskt hugvit og tækjabúnað sem er framleiddur í húsakynnum fyrirtækisins í Hafnarfirði til um 30 álfyrirtækja úti um allan heim eða fjórðungs allra álfyrirtækja í heiminum. Fyrirtækið hóf starfsemi í litlum skúr við Suðurgötu í Hafnarfirði árið 1971 en er nú orðið stórfyrirtæki með 10 dótturfélög og 650 starfsmenn víðs vegar um landið. Þetta er fyrirtæki sem íslenski áliðnaðurinn hefur aðstoðað við að skapa.

Fyrst í stað smíðaði fyr­ir­tækið eina og eina vél fyr­ir ál­fyr­ir­tæk­in en nú býður það heild­ar­lausn­ir þar sem jafn­vel hús­in eru byggð und­ir vél­arn­ar. Fyr­ir­tækið er um þess­ar mund­ir að vinna að stór­um verk­efn­um í Banda­ríkj­un­um og Persa­flóa og ef marka má stjórnendur fyrirtækisins er verkefnastaðan einstök. Helst að það skorti starfsfólk en fyrirtækið hefur vaxið um 25% sum árin.  Þess má geta að VHE vinnur ekki einungis fyrir álfyrirtæki því að fyrirtækið hefur einnig verið að hasla sér völl í olíuiðnaðinum og nýtur þar reynslu sinnar af samstarfinu við álfyrirtækin. Af þessu sést hvaða möguleikar geta skapast í því klasastarfi sem hér hefur myndast í áliðnaði.

Rekstur, uppbygging og afkoma þessara félaga er frábær og sýnir vel hvað hægt er að gera ef hugvitinu er beitt í tengslum við auðlindir landsins.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.