c

Pistlar:

15. maí 2024 kl. 10:23

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Skilyrðislausa góðmennskuloforðið

Geta íslenskir forsetaframbjóðendur svikið börnin á Gasa eins og haldið hefur verið fram nú í aðdraganda forsetakosninga? Og ef þeir hafa svikið þau eru það þá einu börnin í veröldinni sem forsetaframbjóðendurnir hafa svikið? Það getur verið erfitt að koma auga á rökin bak við slíkar fullyrðingar sem eru þó dæmigerð fyrir margt í þjóðmálaumræðunni í dag. Margir virðast trúa því einlæglega að íslenskt samfélag skuldi fólki úti í heimi betra líf. Skiptir engu hvar þetta fólk býr eða við hvað aðstæður það lifir. Hvað nákvæmlega fær fólk til að hugsa þannig er erfitt að segja en hugsanlega er hugmyndin um ábyrgð og skyldur í samfélagi eins og hér á Íslandi fullkomlega á reiki og því margir búnir að missa sýn á hvaða skyldur eitt samfélag hefur og hvort að skyldurnar geti orðið meiri en inní sameiginlega sjóði er lagt?border

Í dag er talað nokkuð frjálslega um samfélagið, sögu þess og gildi eða það sem yfirleitt sameinar fólk á tilteknu landsvæði utan um einhver sameiginleg gildi og markmið. Vanalega höfum við stjórnmálin til að ná utan um þessa vegferð. Stjórnmálaflokkarnir skerpa á hinni hugmyndafræðilegu sýn og bjóða upp á mismunandi leiðir og stefnu. Það hafa komið tímabil hér á landi þar sem ekki hefur borið mikið á milli þegar kemur að markmiðum þó á flestum tímum hafi verið deilt um leiðir. Þarna hefur orðið breyting.

Ná skyldur velferðarkerfisins út fyrir landsteinanna?

Málefni, flóttamanna, hælisleitenda og innflytjenda hafa flækt málið og lesendur þessara pistla hafa tekið eftir að hér er talsverð umræða um þessi mál. Eftir því sem fjölgar í þessum hópi því meiri verður umræðan. Engum dylst að það er búið að færa mjög út skyldur íslensks samfélags sem sést ágætlega í máli þeirra þriggja nígerísku kvenna sem nú hefur verið vísað úr landi. Þeir sem gagnrýna brottvikninguna hafa ekki sparað stóryrðin en því er haldið fram að íslenska ríkið beri ábyrgð á þessum konum í nafni mannúðar og mannréttinda þeirra. Ekkert segir þó að slík réttindi séu altæk. Eins og oft áður í slíkum málum þá fáum við til þess að gera einhliða fjölmiðlaumfjöllun, við vitum til dæmis ekkert um rökstuðning eða forsendur þeirra úrskurðaraðila sem um málin fjalla. Þessir aðilar, sem eru væntanlega að starfa samkvæmt lögum, hafa haft málin lengi til meðferðar og búið var að tæma áfrýjunarúrræði sem höfðu tafið málið og tryggt viðkomandi lengri dvöl á landinu. Konurnar þrjár höfðu hafnað öllu samstarfi við íslensk yfirvöld.

Löggjafinn miður sín yfir lögunum

Fulltrúar Útlendingastofnunar, kærunefndar útlendingamála og ríkislögreglustjóra mætu á fund allsherjar-, og menntamálanefndar Alþingis til að gera grein fyrir þessari ákvörðun í gær. Ríkisútvarpið sagði frá þessu án þess þó að vitna með neinum hætti á rökstuðning þessara aðila. Í fréttinni er þetta hins vegar haft eftir þingmanninum Jódísi Skúladóttur: „Ég er fullkomlega miður mín yfir örlögum þeirra og ég er svo sannarlega ekki ein um það. Það eru takmörk fyrir því hversu lágt við sem samfélag viljum og getum lagst og við þurfum að vita hvernig svona getur gerst.“

Getur verið að það sé þingmanninum hulið að það séu lög í landinu og meðhöndlun hælisleitenda stjórnist ekki af geðþóttaákvörðunum? Gera má ráð fyrir að á fundinum, sem Jódís sat, hafi komið fram ítarlegur rökstuðningur fyrir brottvikningunni. Hún tekst ekki á við þau rök heldur grípur til tilfinningahlaðinnar orðræðu. Hún er svo sem ekki ein um það. Talskona Stígamóta gagnrýnir aðgerðina í heild sinni. Frá handtöku kvennanna á föstudag til brottvísun þeirra í fyrradag. „Við erum komin á einhvern nýjan stað á Íslandi þegar við erum farin að brottvísa mansalsþolendum sem hafa verið hérna árum saman á Íslandi. Með afskaplega ómannúðlegum hætti. Þær eru handteknar á föstudag, meinað að fá heimsóknir, sama hvort það sálfræðingur eða prestur, “ segir Drífa Snædal, talskona Stígamóta við Vísi.border

Alþjóðleg aðgerð

Þessi brottvikning er ekki ódýr, frekar en annað það er snertir útlendingamál. Fólk sem vill ekkert samstarf er flutt nauðugt. Samkvæmt frétt á Vísi fóru þrettán starfsmenn frá embætti ríkislögreglustjóra auk eins læknis með í flugi til Frankfurt í gær. Aðgerðin er sameiginleg aðgerð fjögurra landa og að mestu kostuð af Frontex. Í Frankfurt voru á annað hundrað nígerískir ríkisborgarar sameinaðir í eina flugvél sem er flogið til Nígeríu. Hluti íslensku lögreglunnar fylgir þeim alla leið til Nígeríu og kemur svo heim.

Þrátt fyrir þessi ummæli þeirra Jódísar og Drífu er staðreyndin sú að íbúum flestra landa Evrópu ofbýður hraður innflutningur hælisleitenda og gera má ráð fyrir að aðgerðum sem þessum fjölgi. Í nýrri könnun sem spænska dagblaðið El País gerði kemur fram að 7 af hverjum 10 Evrópubúum telja að landið þeirra taki við of mörgum innflytjendum. Niðurstöður könnunarinnar eru svona sundurliðaðar eftir löndum, prósentan sýnir hlutfalla þeirra sem telja að land þeirra taki við of mörgum.

Grikkland: 90%
Kýpur: 84%
Írland: 78%
Austurríki: 77%
Þýskaland: 77%
Búlgaría: 76%
Pólland: 75%
Ítalía: 74%
Frakkland: 70%
Spánn: 70%
Svíþjóð: 70%

Ekki er vitað hvert þetta hlutfall er hér á landi en af viðtölum við fólk má ætla að fjölmiðlaumfjöllunin og þeir álitsgjafar sem þar birtast séu í minnihluta. Mjög margir á Íslandi telja að í óefni stefni í útlendinga- og hælisleitendamálum. Nú er bara spurning hvort stjórnvöld geti brugðist við því vegna hávaða sem birtist í einhliða fjölmiðlaumræðu.