c

Pistlar:

20. febrúar 2024 kl. 21:59

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Umsnúningur innflytjendastefnunnar?

Það hefur orðið umsnúningur í umræðu um innflytjendamál. Hin pólitíska umræða hefur skyndilega tekið stakkaskiptum. Nú er lítill munur á orðum formanns Samfylkingarinnar, varaformanns VG, formanns Viðreisnar og margra í Sjálfstæðisflokknum. Framsóknarmenn eru enn að hugleiða næstu skref eftir nýbirta skoðanakönnun um málið. Eina sem Miðflokksmenn geta gert er að segja „þetta er okkur að þakka“. Og þó hafa þeir verið kallaðir rasistar fyrir það, og taldir allgerlega óstjórnhæfir. Nú keppast flokkar á vinstri vængnum við að breyta stefnu sinni til þess að halda trúverðugleika sínum gagnvart kjósendum sem sjá nú í gegnum stefnuleysið og óttast ráðaleysið. Píratar einir standa eftir með óbilandi stuðning við hælisleitendakerfið og að þar megi engu breyta.austurv

Nú er eins og allir sjái að stefna undanfarinna ára er að sliga landið, eins og raunin er víða í Evrópu. Innflytjendakerfið er sprungið, kostnaður orðinn stjórnlaus, innviðir veiklaðir, landamærin stöðva ekki misindismenn, skipulögð brotastarfsemi vaxandi, löggæslan á í vök að verjast og erlendum fána flaggað svo vikum skipti fyrir framan Alþingi Íslendinga.

Opin landamæri og innflytjendakerfið 

Hér hefur oft verið bent á að á Íslandi og hinum Norðurlöndunum eru velferðarkerfin öfundsverð. Nóbelsverðlaunahafinn í hagfræði, Milton Friedman, benti á fyrir rúmlega hálfri öld, að opin landamæri væru í sjálfu sér ekkert vandamál ef velferðarkerfið væri afnumið. Velja þyrfti á milli þessara tveggja þátta. Ómögulegt væri að viðhalda báðum. Öldruð kona í Afganistan getur ekki haft sama rétt til velferðarkerfisins og öldruð kona á Íslandi. Þetta dæmi er valið af því þetta er hluti þess sem Danir horfðu til þegar þeir voru að reyna að koma böndum á fjölskyldusameiningar. Það úrræði reyndist herfilega misnotað. Þannig viðgekkst það um tíma að flytja inn gamla ættingja frá heimalandinu, koma þeim fyrir uppi á háalofti og hirða svo bæturnar. Allir sem hafa búið í Danmörku þekkja endalaus dæmi slíkrar misnotkunar. Í Noregi er nú gerð krafa til þeirra sem vilja fjölskyldusameiningar að viðkomandi sýni fram á að hann geti framfleytt ættingjum sem koma í gegnum þau úrræði. Af þeim sökum hefur mjög dregið úr fjölskyldusameiningum þar í landi.austurv2

Eru hælisleitendur líklegri til að misnota velferðarkerfi? Reynsla nágranalandanna bendir til þess að svo sé. Verst er hins vegar þegar aðlögun að því þjóðfélagi fer í handaskolum eins og Danir og Svar upplifa. Skiptir engu þó menn beiti nýlensku (e. newspeak) eða hugtakinu „inngildingu”, sem felur í sér að Íslendingar lagi sig að útlendingum.

Innviðirnir að bresta

Aðflutningur fólks skapar vaxandi álag fyrir velferðarkerfi, skólakerfi og húsnæðismarkaðinn. Hér höfum við séð að kostnaðurinn við aðstoð við flóttamenn og hælisleitendur vex stjórnlaust með hverju árinu. Pistlaritari hefur hvað eftir annað vakið athygli á því að brátt geti þessi kostnaður óhjákvæmilega haft áhrif á getu samfélagsins til að sinna öðrum skyldum sínum. Ákvarðanir sem teknar eru í hita augnabliksins geta þannig unnið gegn skynsamlegri nýtingu fjármuna.

Fjármunirnir nýtast best ef þeim er varið sem næst heimkynnum flóttamannanna. Allar rannsóknir sýna það. Þá er hægt að hámarka hamingju sem flestra. Á þetta er ítrekað bent en ekkert breytist. Nú er rætt opinberlega um að móttaka flóttamanna kosti íslenskt samfélag 20 til 30 milljarða króna í ár. Flestir vita líka að þar til viðbótar er verulegur falinn kostnaður sem birtist meðal annars í auknu álagi á velferðar- heilbrigðis- dóms- og menntakerfið. Palestínski maðurinn sem hætti að vinna til að einbeita sér að mótmælum á Austurvelli hefði getað tryggt bæði efnahagslega afkomu fjölskyldu sinnar og öryggi með áframhaldandi vinnu á Íslandi og koma um leið fjölskyldunni í öruggt skjól í Egyptalandi. Hann kaus að fara aðra leið.utgjöld

Eðlilega spyr fólk, hver sé stefna íslenskra stjórnvalda í flóttamannamálum? Að hafa landið algerlega opið og taka við öllum sem hingað leita? Að hingað komi nokkur þúsund manns árlega og móttaka flóttamanna verði þannig stærsti útgjaldaliður íslenska velferðakerfisins? Vissulega tala margir óábyrgir stjórnmálamenn þannig en almenningur sér í gegnum þá. Það sýna kannanir og stjórnmálamenn á vinstri vængnum eru loks að vakna að værum blundi.

Því miður er það svo að fjölmiðlar og þá sérstaklega Ríkisútvarpið hafa kosið að teikna upp einhæfa og villandi mynd af þróun mála. Þannig hefur stofnunin lengst af hundsað þá sem hafa mælt varnaðarorð en hampað þeim sem vilja opin landamæri. Það sjá allir sem fylgjast með dagskránni þar.