Pistlar:

28. apríl 2017 kl. 13:31

Vilborg Arna Gissurardóttir (vilborgarna.blog.is)

Skemmtileg fjögurra vikna fjallgönguáætlun fyrir sumarið

17813703_10155121725557114_1089745402_nHér er ein lauflétt æfingaáætlun fyrir þá sem langar til þess að setja sér fjallgöngumarkmið í sumar. Þetta plan er heppilegt fyrir þá sem vilja t.d. ganga Fimmvörðuháls í sumar, fara Laugaveginn eða sambærilegar gönguleiðir. Útivist er frábær leið til þess að komast í gott form, skoða landið í leiðinni og skapa minningar sem maður lifir á í margar vikur.

Fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref að þá mæli ég sérstaklega með Fimmvörðuhálsi sem sumarmarkmiði. Leiðin er 22 km og hækkun upp á 1000 metra. Áætlaður göngutími er allt frá 9 og upp í 12 klst eftir hraða og færi.

Fimmvörðuháls er ein vinsælasta gönguleiðin á Íslandi og ekki að ástæðulausu. Virkilega falleg og fjölbreytt leið sem endar í paradísinni Þórsmörk. Mæli með því að þeir sem eru óvanir fari yfir með ferðafélagi eða reyndari göngumönnum.

Upplýsingar um leiðir má finna t.d. í bókinni Íslensk fjöll eða í nýja göngu appinu @wappið. Svo eru til frábærar vefsíður og öpp eins og Wikiloc og Gaia GPS sem eru stútfull af upplýsingum.

Hér er skemmtilegt fjögurra vikna æfingaplan. Það er mikilvægt að muna fyrir þá sem eru að byrja að þetta verður alltaf auðveldara í hvert skipti. Fyrir þá sem vilja taka lengri tíma í verkefnið að þá má auðveldlega hafa annað fjallið í vikunni fasta ferð á t.d. Helgafellið og hina ferðina samkvæmt planinu.

Vika 1

1. Mosfell í Mosfellssveit.
– Hæð: 280 m og gönguhringur um 4 km.

2. Úlfarsfell
– Hæð: 295 m og gönguhringur um 5 km.

Vika 2
1. Helgafell í Hafnarfirði.
– Hæð: 338 og mæli með því að menn prófi að ganga hringinn (ekki sömu leið fram og til baka) og þá telur leiðin 5,4 km.

2. Háihnúkur í Akrafjalli
– Hæð: 555 m og leiðin er um 4,6 km .

Vika 3
1. Esjan upp að steini
– Hæð: 586m og leiðin er um 6 km

2. Móskarðshnúkar
– Hæð: 807 m og 7 km. Nú er mál að skella bakpoka á bakið og æfa framvegis með hann ef þú hefur ekki gert það nú þegar.

3. Leggjabrjótur:
– Hækkun um 500 m og leiðin er um 17 km.

Vika 4
1. Helgafell í Hafnarfirði
– Hæð: 338 og mæli með því að menn prófi að ganga hringinn og þá telur leiðin 5,4 km.

2. Vífilsfell
– 655 m og leiðin er um 5 km.

3.Skeggi í Henglinum
– 805 m og leiðin er um 12 km.

Nú ættuð þið að vera komin í frábært form og vel í stakk búin til þess að takast á við Fimmvörðuhálsinn.

mynd
21. apríl 2017 kl. 9:57

Klæddu þig rétt fyrir útivistina

Það er ekki eins flókið að ákveða í hverju maður á að vera eins og það virðist í fyrstu. Frost, vindur, rigning eða sól? Það er mikilvægt að geta brugðist við síbreytilegu veðrinu á Íslandi en jafnframt látið sér líða vel, ekki of heitt og ekki of kalt.  Flestir kjósa að klæða sig í lagskiptan fatnað svo það sé hægt að stýra hitanum en það hentar mun betur heldur en að klæða sig í eina meira
mynd
15. apríl 2017 kl. 12:31

Í form með fjallgöngum

Fjallgöngur eru frábærar sem heilsu- og líkamsrækt. Að svitna undir berum himni, fá púlsinn upp og roða í kinnar. Sumum finnst tilhugsununin um að fara í fjallgöngu yfirþyrmandi ef að reynslan er lítil eða fyrri reynsla hefur ekki verið góð. Það geta nánast allir gengið á fjöll, þetta er bara spurning um að fara rétt að. Byrja á réttum stað og ætla sér ekki of mikið í upphafi. Algengt er að meira
Vilborg Arna Gissurardóttir

Vilborg Arna Gissurardóttir

Ástríða mín er náttúra, útivist og áskoranir og hef ég haft mikla köllun til þess að fylgja draumum mínum eftir. Mottóið mitt er: “Ef þú þráir eitthvað nógu heitt að þá finnurðu leiðina, – annars finnurðu bara afsökunina“. Gildin sem ég hef að leiðarljósi í öllum mínum verkefnum eru jákvæðni, áræðni og hugrekki. Bakgrunnur minn er fyrst og fremst úr ferðaþjónustu en ég hef sinnt hinum ýmsu störfum innan hennar. Ég er með B.A. ferðamálafræðum frá Háskólanum á Hólum í Hjaltadal og hefur auk þess MBA gráðu frá Háskóla Íslands. Meðal leiðangra sem ég hef farið í eru skíðaferð yfir Grænlandsjökul, farið í siglingarleiðangra og gengið einsömul á Suðurpólinn. Jafnframt hef ég klifið fjöll bæði hér á landi og víða erlendis. Árið 2014 varð ég fyrsta og eina konan í heiminum sem hefur bæði klifið 8000m tind sóló og gengið á pól sóló. Það eru forréttindi að alast upp á íslenskum fjöllum og jöklum. Aðstæðurnar á Íslandi eru oft krefjandi og þá sérstaklega með tilliti til veðurfars. Íslenska náttúran hefur verið góður skóli með öllum sínum litbrigðum. Ég hvet fólk til þess að leyfa sér að dagdreyma því draumarnir eru oft undirrót þess að fólk setji sér markmið. Í dagdraumunum er maður nefnilega alltaf leynt og ljóst að ná markmiðum sínum og maður er að ferðast inn á staði og inn í aðstæður sem manni langar raunverulega að vera á. Auk þess er maður alltaf sigurvegari í sínum eigin draumum og við eigum að hugsa um okkur sem sigurvegara í okkar eigin lífi. Meira