„Fyrir marga er skilnaður stærsta áfall sem fólk verður fyrir“

„Við lifum á breyttum tímum og fyrir börn þessa lands …
„Við lifum á breyttum tímum og fyrir börn þessa lands og framtíð þeirra væri æskilegast að það yrði tekið á þessum málum af festu“ segir Ragnheiður Sigurjónsdóttir hjá Fjölskyldumiðstöðinni. KRISTINN INGVARSSON

Skilnaður er eitt það mesta áfall sem margir upplifa á lífsleiðinni en oft kemur hann mjög illa niður á börnum. 

Þrátt fyrir að skilnaður og samsettar fjölskyldur séu venjan frekar en undantekning í okkar samfélagi er lítið gert til að mæta tilfinningalegum þörfum barna eftir skilnað og lítil sem engin úrræði eru í boði hér á landi, hvorki fyrir foreldra né börn. 

Nýverið setti félagsmálaráðherra Dana um 100 milljónir íslenskra króna í að setja af stað námskeið fyrir foreldra sem fara í gengum skilnað en síðasta ár voru öll skilnaðarmet slegin þar í landi og árlega eru fleiri skilnaðir en hjónavígslur hjá frændum okkar.

Það sama gæti verið upp á teningnum hérlendis en síðustu tölur hagstofunnar eru frá 2011. Þær sýndu að líkurnar á að hjónaband endi eru um 35%. Líklega má þó telja að hlutfallið hafi hækkað í takt við það sem gerist erlendis, sem og eftir efnahagshrunið. 

En hvað er gert fyrir íslensk börn sem eiga foreldra sem ganga í gegnum skilnað? Hvaða leiðsögn fá foreldrar og hver eru úrræðin? Við leituðum svara hjá Umboðsmanni barna og Fjölskyldumiðstöð Íslands. 

„Oft eru foreldrar á svo slæmum stað sjálfir þegar þetta …
„Oft eru foreldrar á svo slæmum stað sjálfir þegar þetta gengur yfir að þau átta sig ekki á þessu. Eru ekki nægilega næm fyrir þörfum barna sinna.“ segir Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna.

Stærsta áfall lífsins en lítið um úrræði

Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna á Íslandi, segir að mikið meira mætti gera fyrir íslensk börn sem ganga í gegnum skilnað foreldra sinna en sem stendur er það fyrst og fremst í höndum foreldra að benda börnum sínum á þau úrræði sem eru í boði og þau úrræði eru lítil sem engin. 

„Fyrir marga er skilnaður stærsta áfall sem fólk verður fyrir á lífsleiðinni og við höfum lengi gagnrýnt það hvað börnin eru lítið höfð með í ráðum. Þetta varðar þau svo mikið en þau hafa sama og ekkert að segja um það sem gerist í kringum þau,“ segir Margrét en stærsti málaflokkur umboðsmanns barna eru afleiðingar skilnaðar: forsjármál og umgengni. 

„Börnin hafa vissulega rétt á að tjá sig í sáttameðferðinni sem boðið er upp á hjá Sýslumanni en það væri mjög gott ef þau gætu leitað til sérfræðinga í þessu ferli,“ segir Margrét og bætir við að stundum vísi umboðsmaður barna á Fjölskyldumiðstöð sem rekin er á vegum Reykjavíkurborgar, velferðarráðuneytisins og Rauða krossins. 

„Börn geta reyndar hringt í 1717 og 112 en þau leita líka til okkar varðandi skilnaðarmál,“ segir Margrét og tekur í leiðinni fram að umboðsmaður barna leggi sig fram um að kynna réttindi barna fyrir þeim og að meðal annars flytji hún erindi í skólum ef óskað er eftir því. 

„Ég hef einsett mér að heimsækja alla skóla landsins áður en skipunartíma mínum lýkur. Það bætast bara bara alltaf ný börn við og þess heldur er mikilvægt að það verði boðið upp á skýr úrræði í þessum málum.“

Hvergi auglýst og allt að springa 

Ragnheiður Sigurjónsdóttir, forstöðumaður og fjölskyldumeðferðarfræðingur hjá Fjölskyldumiðstöðinni, tekur í sama streng og Margrét.

„Við höfum verið mjög sein að taka við okkur hérlendis, það er eins og við séum að stinga hausnum í sandinn,“ segir Ragnheiður.

„Það er gríðarlega mikil þörf á þessari þjónustu en við finnum hvernig þörfin hefur aukist frá ári til árs. Það er allt að springa hjá okkur og bið eftir aðstoð tekur tvær til þrjár vikur,“ segir hún en Velferðarsvið Reykjavíkurborgar vísar á Fjölskyldumiðstöð með margskonar mál, allt frá samskipta- og uppeldisráðgjöf yfir í fíknarvanda.

Þótt þjónustan sé í boði fyrir alla er Fjölskyldumiðstöðin þó hvergi auglýst nema á heimasíðu Rauða krossins og bæklingum er dreift í skóla og á heilsugæslustöðvar. 

Skilnaður getur valdið börnum miklum kvíða en oft hafa þau …
Skilnaður getur valdið börnum miklum kvíða en oft hafa þau engan að tala við um líðan sína. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Börnin kvíðin og í mikilli vanlíðan

„Margir þurfa reyndar ekki sáttameðferðina sem er í boði hjá Sýslumanni heldur vilja bara fá að vita hvað er best fyrir barnið í skilnaðinum. Vandamálin og erfiðleikarnir sem tengjast skilnaði skjóta nefnilega oft upp kollinum síðar meir, til dæmis þegar nýr maki kemur inn í myndina en þá er mikilvægt að barnið fái rödd og geti sagt frá því hvernig því líður,“ segir Ragnheiður. 

Foreldrar tala oft illa hvert um annað í áheyrn barna sinna eftir skilnað og barninu líður eins og það verði á milli. Þetta getur orsakað mikla vanlíðan hjá börnum. 

„Kvíði barna er mikið í umræðunni en það er ekki skrítið að þau séu kvíðin ef þau hafa enga rödd og geta ekki komið tilfinningum sínum í orð við þriðja aðila. Það hefur svo mikið að segja fyrir líðan þeirra að þau geti sett orð á það sem þau upplifa.“

Fjögur til sex ókeypis viðtöl og ráðgjöf

Tilgangur og hugmyndafræði Fjölskyldumiðstöðvarinnar eru forvarnir en verkefnið var upphaflega sett á fót í tengslum við hið bjartsýna verkefni, Ísland án eiturlyfja, árið 1997. 

„Upprunalega hugmyndafræðin er reyndar að fólk komi til okkar áður en allt er komið í óefni,“ segir Ragnheiður en tekur um leið fram að stundum sé skilnaður endanleg lausn mála. 

„Fólk fær þá fjögur til sex viðtöl hjá ráðgjöfum sér að kostnaðarlausu. Við tölum við báða aðila en það er mikilvægt að hlusta á alla og ekki síst börnin. Þegar kemur að skilnaðarferli reynum við að beina sjónum foreldranna að börnunum. Fá þau til að hugsa fyrst og fremst um þeirra líðan,“ segir hún. 

Eins og fyrr segir fær Fjölskyldumiðstöðin flesta skjólstæðingana til sín í gegnum velferðarsvið Reykjavíkurborgar. 

„Margar fjölskyldur eiga erfitt með að borga sálfræðingum og öðrum sérfræðingum fyrir og það er aðallega í því samhengi sem fólk kemur til okkar,“ segir hún en undirstrikar nauðsyn þess að fólk fái aðstoð. 

„Við lifum á breyttum tímum og fyrir börn þessa lands og framtíð þeirra væri æskilegast að það yrði tekið á þessum málum af festu,“ segir Ragnheiður að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál