Losnar ekki undan áreiti fyrrverandi

Valdimar Þór Svavarsson.
Valdimar Þór Svavarsson. mbl.is/Árni Sæberg

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni fékk spurningu um áreiti fyrrverandi unnustu og hvað sé til ráða. Hér svarar hann spurningu manns: 

Hvað þarf maður að gera til að losna undan áreiti fyrrverandi unnustu sem er ómöguleg ef hún hefur ekki tak á þér. Hún hefur gengið til sálfræðinga og geðlækna í 25 ár.
Endalausar ásakanir í 19 ára sambandi og aldrei var maður að gera neitt nógu gott.
Endalaust að láta tala niður til sín og ef maður svaraði þá var manni kennt um ofbeldi og eftir að vera skilinn í 5 ár er ég enn þá að að finna fyrir vanmætti mínum við þessa svörtu veröld.

Kveðja,
einn ráðþrota

Takk fyrir að senda spurninguna.

Einfalda svarið við spurningunni er að setja skýr mörk og fara úr skaðlegum samskiptum. Skýr mörk felast meðal annars í því að segja hvað manni finnst og hvað maður vill og geta sagt nei þegar það á við. Að fara úr skaðlegum samskiptum þýðir að taka ekki þátt í samskiptum sem eru óheilbrigð og valda sársauka. Það er engu að síður fátt einfalt í samskiptum fólks og ýmislegt sem getur haft áhrif hve vel þau ganga fyrir sig. Einnig skiptir máli að skoða það hjá sjálfum sér af hverju maður gefur öðrum leyfi til að fara í taugarnar á sér eða áreita sig, eins og þú nefnir.

Þegar sambandi lýkur er öllu jafna best að lágmarka samskipti á milli aðila og í mörgum tilvikum að sleppa þeim alveg. Í sumum tilvikum gengur fólki vel að halda áfram í samskiptum eftir að sambandi lýkur og það er hið besta mál ef svo er. Algengara er þó að áframhaldandi samskipti valdi erfiðleikum, reyna á alla aðila og geta aftrað fólki frá því að byggja upp ný heilbrigð sambönd. Ef samskiptin skapa neikvæða orku er nauðsynlegt að skoða hvort einhver tilgangur er með þeim. Það kemur ekki fram í fyrirspurninni hvort þið eigið börn saman en það er ein af fáum ástæðum til þess að einhver samskipti þurfi að vera á milli aðila sem áður voru í sambandi. Ef svo er, þá er mikilvægast að einfalda samskipti sem allra mest, hafa þau eingöngu í tengslum við mikilvæg atriði sem snúa að börnunum og sjálfsagt að færa samskiptin alfarið yfir á rafrænt form eða jafnvel í gegnum hlutlausan þriðja aðila ef þess þarf. Þegar staðan er þannig að það þurfi að setja einhverjum skýr mörk er gott að útskýra mörkin og mikilvægt að standa svo við þau, jafnvel þótt öðrum gangi illa að sætta sig við það.

Með bestu kveðju, 

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni.
Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál