Stjúpan skráði barnið á Facebook

Valdimar Þór Svavarsson.
Valdimar Þór Svavarsson. mbl.is/Árni Sæberg

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér er hann spurður út í Facebook-notkun barns. 

Hæ,

Ég og fyrrverandi maðurinn minn skildum fyrir nokkrum árum en saman eigum við níu ára gamlan son. Við skiptum barninu á milli okkar viku og viku. Á dögunum komst ég að því að stjúpmóðir sonar míns hafði hjálpað honum að búa til Facebook-síðu fyrir sig. Þau breyttu bara aldrinum á barninu svo þetta gengi upp. Ég er mjög ósátt við þetta því ég vil ekki að barnið mitt sé á Facebook og ég vil heldur ekki að stjúpmamma barnsins sé að leyfa eitthvað sem móðirin myndi aldrei taka í mál. Hvernig myndir þú snúa þér í þessu?

Kær kveðja,

Ein í ruglinu

Góðan daginn og takk fyrir spurninguna.

Það er mjög algengt að flækjur skapast þegar fjölskylduformið færist úr kjarnafjölskyldu yfir í stjúpfjölskyldur. Einkunnarorðið í þeim samskiptum er „sveigjanleiki“ því það reynir gjarnan mikið á þegar margir aðilar eru að koma að ákvarðanatöku í sambandi við börnin. Það breytir því þó ekki að við ættum alltaf að ganga út frá öryggi og velferð barnanna.

Ég skil vel afstöðu þína varðandi notkun níu ára barns á Facebook enda er það óleyfilegt samkvæmt reglum samskiptamiðilsins, þó svo að allur gangur sé á því hvort verið sé að fylgja því. Fyrsta spurningin mín til þín er einfaldlega „hefur þú rætt þetta við föður drengsins?“. Fjölmargir koma að máli við mig og ræða hluti sem þeir eru ósáttir við í fari annarra en hafa aldrei talað við viðkomandi aðila um það sem þeim finnst. Þetta kallar maður að ræða „um“ en ekki „við“ einhvern. Regla númer eitt í málum sem þessum er að hafa í huga að sonur þinn á föður og móður og það eruð þið sem eigið fyrst og fremst að gæta að öryggi og velferð hans. Þess vegna er mikilvægt að þú ræðir við föðurinn og athugir hvort hann sé sammála þér um hvað syni ykkar sé fyrir bestu hvað þetta varðar. Ef hann er þér sammála þá getur hann axlað ábyrgð á því og tekið málið í sínar hendur á sínu heimili. Ef það er einhverjum vandkvæðum háð að þið ræðið saman eða að hann sýni málinu ekki áhuga, þá gætir þú rætt við stjúpmóðurina og sagt henni hvernig þú vilt að staðið sé að málum varðandi son þinn og notkun samskiptamiðla. Oft erum við hrædd við einföld samskipti, ýmist vegna þess að við óttumst neikvæð viðbrögð annarra eða að við erum að bera ábyrgð á tilfinningum þeirra og viljum þar af leiðandi ekki segja þeim skoðun okkar ef hún inniheldur það að þau hafi gert eitthvað rangt. Við þurfum að forðast slíkar áhyggjur og æfa okkur í að eiga í yfirveguðum samskiptum þar sem við getum sagt hvað við viljum og hvað okkur finnst.

Ef eðlileg samskipti hafa nú þegar farið fram og ekki borið árangur er möguleiki að leita annarra leiða. Það er sjálfsagt að sonur þinn viti af afstöðu þinni og hverjar reglur Facebook eru varðandi aldur notenda. Það er einfaldlega hægt að senda Facebook þar til gerða ábendingu um að barn yngra en 13 ára sé að nota miðilinn. Almennt bregðast þeir við því með því að loka viðkomandi aðgangi. Hægt er að nálgast það með því að smella HÉR. Þetta væri þrautalending því auðvitað væri best að fullorðnir einstaklingar geti rætt einfalda hluti í sambandi við uppeldi barna sinna og komist að niðurstöðu sem gengur út frá velferð og öryggi barnsins.

Með bestu kveðju, 

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimari spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál