Barnabarnið lýgur stöðugt

Valdimar Þór Svavarsson.
Valdimar Þór Svavarsson. mbl.is/Árni Sæberg

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni svarar spurningum lesenda Smartlands. Ráðþrota amma spyr hvernig best sé að bregðast við lygum barnabarnsins. 

Góðan daginn Valdimar,

mig langar svo að spyrja þig hvort að þú hafir einhverjar góðar lausnir fyrir mig með dótturson minn???

Hann er bara 8 ára en hann er mjög duglegur og kraftmikill strákur og úrsjónarsamur með ýmsa hluti. En það sem mér (ömmunni) og mömmu hans finnst svo hrikalegt er að hann er farinn að skrökva svo mikið og stela að við erum algjörlega ráðþrota. Okkur sárnar þetta mikið.  

Hann er með 3 erfiðar greiningar frá barnasálfræðingi en því miður þegar við spyrjum hana hvað við getum gert þá kemur alltaf sama svarið að þetta er bara svona út af hans greiningum. 

Vona mikið til að fá svar og takk fyrir greinarnar þínar. 

Kveðja,

Ráðþrota amma

Góðan daginn og takk fyrir spurninguna.

Fljótt á litið hljómar þetta þannig að strákurinn sé farinn að uppfylla ákveðið hlutverk sem umhverfið er að setja hann í. Ef hann sjálfur er farinn að upplifa það að hann sé „ekki góður“ er hætt við að hann gangist upp í því hlutverki. Mögulega er hann orðinn vanur neikvæðri endurgjöf frá umhverfi sínu, gæti bæði verið innan fjölskyldunnar, í skóla og jafnvel víðar, enda marga sem þrýtur þolinmæðin þegar börn eru ítrekað staðin að lygum og þjófnaði. Hann er að öllum líkindum orðinn fastur í ákveðnum varnarviðbrögðum þessu tengdu.

Einmitt af þessum sökum væri mikilvægt að veita honum jákvæða endurgjöf, jafnvel þegar hann hefur gerst ósannsögull eða stolið. Með þessu á ég við að ef hann á endanum viðurkennir mistök sín á einhvern hátt, þá er um að gera að hrósa honum sérstaklega fyrir að koma hreint fram í stað þess að skamma hann fyrir það sem hann gerði rangt. Með þessu gæti hann hægt og rólega farið að sækjast eftir jákvæðri endurgjöf sem hann fær með því að segja satt. Áherslan er sem sagt á heiðarleika og jákvæða endurgjöf en ekki á óheiðarleikann og neikvæða endurgjöf.

Ég mæli með því að samhliða þessu fari fram umræða um mikilvægi heiðarleika og að hann þurfi ekki að óttast að segja frá ef hann hefur gert eitthvað rangt. Það er mikilvægt að ná til hans með því að tala við hann af virðingu og sem jafningja en það gerum við meðal annars með því að ræða rólega við börn, horfa í augun á þeim, vera í sömu hæð og þau á meðan við ræðum við þau og hlusta af athygli á það sem þau hafa til málanna að leggja.

Þetta er þolinmæðisverkefni, gæti tekið marga mánuði og þarfnast þess að sem flestir sem koma að uppeldinu séu meðvitaðir um þessa vinnu og taki þátt í henni.

Gangi ykkur allt í haginn!

Með bestu kveðju, 

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimar póst HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál