Er á nálum út af manninum sínum

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni fjölskyldumiðstöð, svarar spurningum lesenda. Hér fær hann spurningu frá íslenskri konu varðandi samskipti maka hennar við börnin sem hún á af fyrra sambandi. 

Sæll

Oft er talað um að það sé erfitt að vera stjúpforeldri eða stjúpbarn. En það getur líka ekki síður verið erfitt fyrir foreldrið eins og i mínu tilfelli. Maðurinn minn er mjög oft með neikvæðar athugasemdir við börnin mín, varðandi umgengni eða eitthvað sem honum finnst að þau ættu að gera öðruvísi. Oft þannig að maður þarf nánast að geta lesið hugsanir hans til að vita til hvers hann ætlast því það sem hann verður pirraður yfir er stundum svo mikið smáatriði i mínum huga og barnanna. Ég er búin að þróa með mér kvíða út af þessu. Þori varla að skilja þau ein eftir með honum og er oft á nálum yfir að hann komi með einhverjar athugasemdir. Honum finnst hann að sjálfsögðu mega siða þau til en ég er svo mjög viðkvæm fyrir því. Í gærkvöldi fékk ég svakalegt kvíðakast og gat ekki sofnað bara af því hann setti út á umgengnina eftir son minn inn á baði. Hann sagði ekkert við hann, bara mig en ég brást svona svakalega illa við og fór að gráta. Hvað er að gerast með mig? Hvernig er hægt að laga svona samskipti þeirra á milli?

Kveðja, 

Mamman

 

Góðan daginn og takk fyrir þessa spurningu.

Það er því miður mjög algengt að sambönd sem innihalda stjúptengsl ganga í gegnum mikla erfiðleika vegna samskipta í kringum uppeldi. Ástæðurnar eru margþættar en algengust er einmitt þessi birtingarmynd þar sem stjúpforeldri er að beita aðferðum sem reyna á stjúpbörn og foreldra þeirra. Grunnreglan er sú að við eigum að vernda börnin okkar og setja skýr mörk ef verið er að beita þau órétti.

Við erum öll alin upp á misjafnan hátt og höfum þar af leiðandi mismunandi skoðanir á því hvað er rétt að gera varðandi uppeldi á börnum. Það er ein af ástæðum þess að það sem einum finnst í lagi þykir öðrum ekki í lagi. Eins geta ólíkar tilfinningar til barnanna haft veruleg áhrif á það hvernig komið er fram við þau. Þetta á við um alla aðila sem koma að uppeldi barna og er ekki einskorðað við stjúpforeldra. Það liggur þó í hlutarins eðli að oftast eru tilfinningaleg tengsl við barn ólík hjá blóðforeldri annars vegar og stjúpforeldri hins vegar.

Í þessu tilviki mæli ég fyrst og fremst með að þú setjir skýr mörk varðandi hvað þú telur rétt í sambandi við framkomu gagnvart börnunum þínum. Segðu hvað þér finnst og hvað þú vilt í þessu samhengi. Þú hefur fullan rétt á því. Að því sögðu mæli ég eindregið með því að þið leitið til ráðgjafa sem getur aðstoðað ykkur við að vinna með algeng verkefni á borð við þetta sem koma upp innan stjúpfjölskyldna.

Með bestu kveðju, 

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni fjölskyldumiðstöð. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimari spurningu HÉR. 

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni.
Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál