Er hægt að komast yfir óheiðarleika maka?

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni fjölskyldumiðstöð, svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér er hann spurður um óheiðarleika í hjónabandi. 

Sæll Valdimar

Er einhvern tíma hægt að komast yfir óheiðarleika maka?

Hef verið í hjónabandi með manni í næstum 10 ár núna en áður komum við bæði nánast beint úr fyrri samböndum. Eigum bæði börn fyrir og eigum núna von á okkar öðru barni saman. Á fyrri meðgöngu komst upp um svik eiginmannsins sem tók verulega á hjónabandið og minnstu munaði að úr yrði skilnaður. Þessi svik varða traust og framhjáhald. Við leituðum okkur ráðgjafar og ákváðum að halda áfram en þessi svik sitja samt áfram í mér og blossa upp annað slagið. Núna á meðgöngunni hefur þetta orðið sterkara og sterkara og geri ég mér grein fyrir að hormónar og fleira eigi þar hlut. Við erum bæði frekar ung en erum með stóra fjölskyldu og mér finnst skilnaður tæplega koma til greina en í svo miklum erfiðleikum með allar þessar tilfinningar að suma daga sé ég enga aðra leið.

Er einhvern tíma hægt að komast almennilega yfir svona og halda áfram? Eða má búast við að erfiðar tilfinningar tengdar þessu muni koma upp reglulega í framtíðinni? Tek það fram að eiginmaðurinn sýndi mikla iðrun þegar upp komst og við þurftum mikla vinnu með ráðgjöfum til að geta haldið áfram.

Ein buguð sem er búin að mála sig út í horn.

Góðan daginn „ein buguð“ og takk fyrir þessa spurningu.

Það er mikið áfall að upplifa trúnaðarbrot maka af þessu tagi. Oft er talað um að tíminn lækni öll sár en það má líka færa fyrir því rök að áföll læknast ekki með tímanum þó svo að við hugsum sjaldnar um þau eftir því sem fjær dregur. Það eru nokkur atriði sem mestu máli skipta til þess að auka líkur á að samband sé heilbrigt og gott. Traust er eitt þessara lykilatriða. Þegar traustið verður að engu vegna framhjáhalds reynir það mikið á önnur atriði sem miklu máli skipta. Það eru vináttan, skuldbindingin og sameiginleg framtíðarsýn.

Það er fullkomlega eðlilegt að það reyni meira á þessar tilfinningar núna en áður, þar sem enn meiri fjárfesting er að eiga sér stað í ykkar sambandi út af barneignum. Það ýtir meira undir óöryggi þitt að þegar svikin komu upp varstu líka á meðgöngu og því eðlilegt að hugurinn þinn óttist að sömu aðstæður komi upp aftur.

Í þessum aðstæðum er mikilvægt að segja frá því hvað þú ert að upplifa. Ég hrósa þér fyrir að varpa spurningunni fram og opna þannig á umræðuna. Ég hvet þig til að ræða mjög opinskátt við manninn þinn hvað þú ert að upplifa og sjá hvort þú fáir stuðning frá honum. Eins mæli ég með því að ræða við fagaðila sem getur aðstoðað þig við að losa betur orkuna sem býr í þér vegna áfallsins sem þú varðst fyrir.

Góðu fréttirnar eru þær að oft verða sambönd enn sterkari, sem ná að vinna úr erfiðum verkefnum sem þessum. Það að treysta er í raun alltaf ferli, það er að segja, við getum eingöngu komist að því með tímanum hvort einhverjum sé treystandi. Það er samt mikilvægt að ákveða í hjarta sínu hvort maður ætli að treysta maka sínum, þrátt fyrir það sem á undan er gengið. Á endanum þá eru öll sambönd þannig að við þurfum að taka ákvörðun um það hvort við ætlum að treysta maka okkar og svo leiðir tíminn það einfaldlega í ljós hvort það var áhættunnar virði. Til þess að hjálpa þér að taka slíka ákvörðun, þrátt fyrir þetta tilvik sem um ræðir getur þú hugleitt hvort makinn þinn er almennt heiðarlegur, hvort það sé líklegt miðað við hans karakter að hann verði þér ótrúr og hvort þú teljir að hann hafi raunverulega lært eitthvað af biturri reynslu.

Með bestu kveðju, 

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni fjölskyldumiðstöð 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimari spurningu HÉR. 

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni.
Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál