Afbrýðisamur í fyrsta skipti í 50 ár

50 ára gamall íslenskur maður veit ekki hvernig hann á …
50 ára gamall íslenskur maður veit ekki hvernig hann á að bregðast við myndum í tölvu kærustunnar. mbl.is/ThinkstockPhotos

Valdimar Þór Svavarsson svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá 50 ára gömlum manni sem er afbrýðisamur út í myndir sem finnast í tölvu núverandi kærustu. 

Sæll Valdimar.

Kærastan og ég höfum verið saman í tæpt ár, bæði höfðum við verið fráskilin í tæpan áratug, ég búið einn og hún sömuleiðis með barninu sínu. Við höfum farið varlega í málin með tilliti til barnsins hennar og minna. Allt hefur gengið vel og börn okkar eru eftir því sem við skynjum ánægð með fyrirkomulagið. Hennar börnum þykir vænt um mig og mín börn eru rosalega hamingjusöm fyrir okkar hönd.

Ég er voða seinn til vandræða en það er eitt sem pirrar mig alveg óskaplega. Einhverjir fyrrverandi „næstum því“-kærastar hafa reglulega samband við hana þó svo að allir viti af okkar sambandi. Um daginn bað þessi elska mig um að taka afrit af myndum í símanum hennar yfir í tölvuna.

Ekki að ég hafi nokkurn áhuga að hnýsast í það sem liðið er en ég bara komst ekki hjá því að sjá hana í fanginu eða faðmlögum við einhverja sem mig varðar ekkert um. Samt sem áður fann ég fyrir afbrýðisemi að ég held í fyrsta sinn á mínum 50 árum. Upplifunin var alveg þess virði að kynnast henni en ég er ekkert allt of sáttur við þessar myndir af fyrrverandi þessum og hinum.

(Ég tala eins og um sé að ræða stóran hóp manna, en þeir eru nú bara 5 yfir 7 ára tímabil). Er ég að fara fram á mikið ef þessar myndir fara á USB-lykil svona til hægðarauka fyrir mig? Ég er mikið að hjálpa henni í námi svo tölvan er alltaf í notkun. Við erum á svipuðum aldri og bæði í námi, ég að ljúka mínu og hún að bæta við sig og þarf stundum hjálp svo ég hjálpa og kenni. En vá hvað þessar myndir trufla mig. Ekki alveg í mínum stíl en samt er ég að upplifa þetta í einhverjum pirringi. Jæja hvað er til ráða?

Er það köld sturta á 20 mínútna fresti eða á ég að opna mig með þetta og gefa henni USB-lykil? 

Kveðja,

einn svona skemmtilega ráðvilltur

Takk kærlega fyrir spurninguna, „skemmtilega ráðvilltur“.

Það er mjög einstaklingsbundið hversu frjáls við erum gagnvart því að makar okkar hafi átt í fyrri samböndum. Það getur sveiflast allt frá mjög alvarlegri afbrýðisemi yfir í að sumir velta því ekkert fyrir sér. Reglulega koma til dæmis upp hressandi mál þar sem tengdamamma og/eða tengdapabbi neita að taka niður myndir af fyrrverandi tengdadætrum eða sonum. Sitt sýnist hverjum hvað þetta varðar og ég legg ekki dóm á það í sjálfu sér, svo lengi sem það er ekki beinlínis viljandi gert að valda særindum.

Á meðan mörgum þykir ekkert eðlilegra en að halda upp á myndir frá fyrri samböndum þykir öðrum það algjörlega ótækt. Tengsl fólks eru mismikil og oft hefur vináttan verið dýrmæt og þess vegna vill fólk eiga um það minningar. Almennt talað þá má segja að aðilar sem elska hvor annan og eru að byggja upp samband ættu að forðast að valda maka sínum óþarfa sársauka. Færa má rök fyrir því að myndir af gömlum kærustum falla undir þessa óskrifuðu reglu, sérstaklega þær sem sýna mikla nánd. Fyrir aðila sem vill eiga myndir af því tagi, þrátt fyrir að vera að byggja upp nýtt samband, getur verið gagnlegt að svara spurningunni: Hvaða tilgangi þjónar það að halda upp á myndirnar?    

Eins og þú leggur þetta fram sýnist mér að það eina sem raunverulega vanti upp á sé það sem oftast nær er vandinn: Þið þurfið að tala saman. Segðu henni hvað þú ert að upplifa, ekki til þess að dæma hana fyrir að eiga myndir af ástvinum sem hún átti áður, heldur einfaldlega til að segja henni að þér líði ekki vel að hafa þær fyrir augunum.

Það lýsir ákveðnu trausti gagnvart þér af hennar hálfu að hafa yfir höfuð treyst þér til að skyggnast inn í lífið hennar eins og það var áður en þið kynntust. Hugsanlega er hún ekki afbrýðisöm sjálf og þar af leiðandi hugleiðir hún lítið hvaða áhrif myndirnar geta haft á þig. Það er sjálfsagt að ræða þessi mál og finna sameiginlegan flöt um það hvað getur talist eðlilegt í sambandi við að halda upp á minningar um fyrri ástarsambönd. USB-lykillinn gæti verið góð byrjun.

Með bestu kveðju, 

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni fjölskyldumiðstöð 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimari Þór spurningu HÉR. 

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni.
Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál