Björk fékk heilablæðingu - ekki ofþreytu

Björk Eiðsdóttir ritstjóri MAN.
Björk Eiðsdóttir ritstjóri MAN.

„Fyrir rúmum tveimur vikum var ég keyrð með sjúkrabíl á spítala. Ég ætlaði nú bara að leggja mig og athuga hvort sviminn, höfuðverkurinn og skekkjan á vinstri hluta andlitsins myndi ekki bara jafna sig. En eftir að hafa verið sannfærð af einkar ákveðnum vinkonum og dóttur um að ég yrði að kíkja á læknavaktina endaði sú heimsókn á sjúkrabörum og beint  á sjúkrahús,“ segir Björk Eiðsdóttir, ritstjóri MAN, í pistli á Hringbraut.is:

Til að gera langa sögu stutta kom í ljós að ég hafði orðið fyrir heilablæðingu við mænukylfuna (svokallað Wallenberg-heilkenni). Hún er óútskýrð og ekkert sem ég gerði eða ekki gerði olli henni eða hefði getað komið í veg fyrir hana. Það var ekki streita, háþrýstingur eða neitt slíkt sem varð til þess að æðin rofnaði og hefði hún gert það þótt ég væri barnlaus jógakennari í hamingjusömu hjónabandi sem drekkur grænt te og borðar hráfæði í hörfötum við lágstemmda slökunartónlist alla daga. 

Verandi aftur á móti þriggja barna einstæð móðir sem rekur fyrirtæki, ritstýrir tímariti, stjórnar vikulegum sjónvarpsþætti og tekur virkan þátt í lífinu virtist enginn (nema heilbrigðisstarfsfólk) efast um að ég hefði hreinlega keyrt mig út, unnið yfir mig ... loks bugast af álaginu. Með fullri virðingu fyrir því að keyra þannig á vegg þá fór þessi „greining“ ekki vel í mig. Ekki síst vegna þess að sá grunur læðist sterklega að mér að karl í minni stöðu hefði ekki upplifað sömu viðbrögð. Hefði það verið það fyrsta sem fólki dytti í hug ef karlkyns yfirmaður á besta aldri og í fínu formi hefði lagst inn á spítala? Ég leyfi mér að segja nei. Sjálfri leið mér svolítið eins og fólk vildi bara að ég legði mig, slakaði aðeins á og breytti forgangsröðuninni. 

Það er einmitt þetta sem fær kalt vatn til að renna niður bak mitt. Ég trúi á að láta drauma sína rætast, leggja mikið á sig til þess að svo geti orðið og væla helst aldrei á hálli vegferðinni upp á við. Setningar í þessa átt: „Nú verður þú bara að setja allt til hliðar nema heilsuna og ekki einu sinni spá í vinnuna“ ómuðu ótal oft við sjúkrarúm mitt og urðu sannarlega ekki til þess að lækka háan blóðþrýstinginn sem fylgir slíkri blæðingu, þótt auðvitað viti ég að allt var þetta ótrúlega vel meint. Maður setur starfsferil sinn ekki auðveldlega á pásu – maður hendir ekki draumum sínum á hilluna og bara geymir þá, því miður er geymsluþolið lítið, álíka lítið og geymsluþol mánaðarlegra reikninga heimilisins sem eru einnig faktor í þessu öllu. 

Maður aftur á móti tekur gjafir eins og skjótan og góðan bata ekki sem sjálfsagðan hlut og þakkar fyrir ástvinina, aðstoðina, lífið og áminninguna um að án heilsunnar er ekkert. Og heldur áfram, skynsamlega þó, rólega; vitrari og með skýrari sýn.

En ekki segja mér að róa mig eða leggja mig – því ég er ekki æst og ég er ekki þreytt! 

Ég er bara svo til í þetta allt saman! Og þakklát! 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál