Hélt hún gæti ekki lifað af myndlistinni

Birta Björnsdóttir fatahönnuður og myndlistarmaður.
Birta Björnsdóttir fatahönnuður og myndlistarmaður.

Birta Björnsdóttir fatahönnuður flutti til Barcelona 2012 ásamt fjölskyldu sinni og ákvað að söðla algerlega um. Frá því Birta var barn hefur hún haft unun af því að teikna en eftir áramótin ákvað hún að taka myndlistina skrefinu lengra.

„Mig hefur alla tíð langað í myndlistarnám og á yngri árum eyddi ég öllum mínum tíma í að teikna. Þegar ég hóf nám eftir framhaldsskóla hélt ég til Ítalíu til að læra tísku-, leikhús- og kvikmyndaförðun og vann svo við það í þó nokkurn tíma. Áður en ég vissi af var ég komin á fullt í fatahönnun og myndlistaráhuginn hvarf smátt og smátt. Ég held að ég hafi í byrjun verið smeyk við að fara í myndlistarnám. Ég var á listabraut í FB en þegar kom að því að velja frekara nám efaðist ég um að geta nokkurn tímann haft af því lifibrauð að vera myndlistarkona. Ég kem af heimili þar sem við höfðum lítið á milli handanna og ég hugsaði alltaf um að velja skapandi störf með starfsöryggi og sjálfstæði,“ segir Birta í samtali við Smartland Mörtu Maríu.

„Eftir að við fluttum hingað út til Barcelona hef ég haft meiri tíma fyrir sjálfa mig og fannst kjörið að skella mér í nám hér úti. Hér í Barcelona hef ég aðgang að listaskólum sem bjóða það nám sem mig hefur alltaf langað í. Skólinn sem ég er í núna kennir fígúratíva listmálun að hætti gömlu meistaranna, sömu aðferðir og notaðar voru af myndlistarmönnum endurreisnarinnar. Mín ósk er að sjálfsögðu að geta sinnt máluninni á einhvern hátt í framtíðinni og kannski hafa af henni lifibrauð á einhvern hátt,“ segir hún.

Aðspurð hvað hún fái raunverulega út úr myndlistinni umfram fatahönnunina segir hún að það skapi ákveðna hugarró að mála.

„Myndlistin gefur mér ákveðna hugarró. Mér finnst fatahönnun og tískuheimurinn oft og tíðum mjög krefjandi. Það er í svo mörgu að snúast í kringum fatahönnunina og í mörg horn að líta. Eftir að hafa lifað og hrærst í þessum heimi í öll þessi ár þrái ég lúmskt að setjast fyrir framan trönuna. Það er gaman að hanna fallega flík, en að klára málverk sem ég er sátt við er ólýsanleg tifinning.“

Fyrir átta vikum byrjaði Birta í listnámi við Barcelona Academy of Art. Í framhaldinu frétti hún af myndlistarkeppni á vegum MEAM museum, sem er eitt virtasta safnið í Barcelona fyrir fígúratífa list, og ákvað að senda inn mynd. Hún er þó ekki ein um það því um 2.500 myndir voru sendar í keppnina, sem er alþjóðleg. Birta sendi inn mynd af Jóni Páli, manninum sínum, og fékk þær fréttir fyrir stuttu að hún væri komin áfram.

„Ég var nú bara stödd í skólanum þegar ég heyrði einhvern minnast á þessa keppni og ákvað strax að prófa. Ég fór heim og fann þetta fína módel þar ásamt góðum legókassa frá syninum. Mér datt aldrei í hug að ég myndi komast að þar sem ég er algjörlega ólærð í máluninni, en vildi samt gefa því tækifæri.“

Finnst þér grunnurinn sem förðunarmeistari nýtast þér við málunina?

„Já, það eru reyndar ansi mörg ár síðan ég var með förðunarpensilinn í hendi, en óneitanlega nýtist hann nokkuð. Einna helst þó er það æfingin við að sjá hvernig litir og form vinna saman og blandast. Þessi tegund málunar sem ég er að fást við byggist á að sjá, skilja og endurskapa það sem fyrir framan mig er.“

Barcelona fer mjúkum höndum um Birtu, manninn hennar og börnin þeirra tvö.

„Við búum uppi í fjalli um 30 mínútum frá borginni. Hér höfum við verið tvö síðustu ár og erum búin að koma okkur vel fyrir. Bæði við og börnin eigum hér góða vini og erum komin inn í þægilega rútínu og öryggi. Við búum með náttúruna allt í kringum okkur sem gefur mér mikinn frið í hjarta og góðan innblástur.“

Málverk Birtu Björnsdóttur sem tekur þátt í myndlistarkeppni á vegum …
Málverk Birtu Björnsdóttur sem tekur þátt í myndlistarkeppni á vegum MEAM museum. Myndin er máluð og heitir Devoted father og er olía á striga í stærðinni 1.20x1.20.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál