Vel í holdum og komst inn í Ungfrú Ísland

Stefanía Tara mun keppa í Ungfrú Ísland í haust.
Stefanía Tara mun keppa í Ungfrú Ísland í haust.

Andlitið datt af Stefaníu Töru Þrastardóttur þegar hún fékk þær fréttir að hún væri komin inn í Ungfrú Ísland. Stefanía segist ekki vera steríótýpa af fegurðardrottningu. 

„Ég er ekki þessi týpíska stelpa sem tekur þátt í svona keppni. Þær eru greinilega farnar að víkka út sjóndeildarhringinn hjá Ungfrú Ísland fyrst ég komst inn. Þær eru greinilega hættar að horfa á aukakíló og mæla fegurð í öðru en holdafari,“ segir Stefanía í samtali við Smartland. 

Þegar Stefanía er spurð að því hvað hún sé þung vill hún ekki gefa það upp en upplýsir að hún sé í þriggja stafa tölu.

„Þegar maður er jafnþungur og ég finnst manni fáránlegur heiður að vera valin inn. Og ég er glöð yfir því að þetta sé að breytast og fjölbreyttari hópur geti nú tekið þátt í keppninni,“ segir hún. 

Stefanía er 22 ára gömul og segist vera ósköp venjulega stelpa frá Akureyri sem er hægt og rólega að færast nær Reykjavík. Frá Akureyri flutti hún upp á Akranes en er nú komin í Hvalfjarðarsveitina. Hún segist lifa frekar hefðbundnu lífi en hún starfar nú hjá Borgarbyggð þar sem hún vinnur á sumarnámskeiði fyrir krakka á aldrinum 6-11 ára. Hún er líka menntaður förðunarfræðingur og er hálfnuð með hárgreiðslunám. Hún segir mér að hún þrái að vinna í kringum tískuheiminn. 

„Ég elska förðun, hárgreiðslu og tísku og myndi vilja starfa á því sviði,“ segir hún. Þegar ég spyr hana hvað hindri hana í því segir hún að hindrunin sé hún sjálf. 

„Ég er að mjaka mig í átt að draumnum, ég myndi vilja stofna fyrirtæki og starfa við það sem mér finnst skemmtilegast," segir hún. 

Stefanía þegar hún var lítil.
Stefanía þegar hún var lítil.

Stefanía segir að hún hafi alltaf verið þétt sem krakki og þekki ekkert annað en að vera vel í holdum. 

„Ég var alltaf feiti krakkinn og með strákaklippingu, svona bollaklippingu. Á gömlum myndum er ég eins og bangsi. Ég hef alltaf verð í þyngri kantinum en ég er líka hávaxin eða 180 sm á hæð. Ég hef aldrei verið ósátt við mig eða liðið illa, ég er þakklát fyrir að vera sátt við sjálfa mig,“ segir hún. 

Þegar ég spyr hana hvort það verði ekki viðbrigði að vera í stífri líkamsrækt fyrir Ungfrú Ísland segist hún hlakka til. 

„Ég er svo meira en til í þetta. Æfingar hafa staðið yfir í tæpan mánuð og þetta er búið að vera mjög mikið út fyrir þægindarammann. Við höfum aðallega verið að æfa okkur í að pósa, ganga á hælum og æfa okkur allri almennri framkomu. Þarna er maður að gera eitthvað sem maður hefur aldrei gert áður. Þetta er eitthvað svona sem maður gerir bara einu sinni á lífsleiðinni. Ég er að gera þetta á mínum forsendum,“ segir hún. 

Aðspurð um hvaða væntingar sem hún hefur varðandi þátttöku í Ungfrú Ísland segist hún eiginlega bara vilja að þetta sé gaman. 

„Allt sem ég geri á að vera skemmtilegt. En þetta verður líka að vera krefjandi og ég vona að ég komi út úr þessu sem stærri manneskja,“ segir hún.

Hvernig datt þér í hug að sækja um?

„Ég sótti um í fyrra og fékk bara senda neitun til baka. Svo núna fékk ég boðun í viðtal eftir að hafa fengið tölvupóst þess efnis að hægt væri að sækja um aftur. Ég fékk hjartaáfall þegar ég var boðuð í viðtalið. Þegar ég mætti í viðtalið sat ég fyrir svörum fyrir framan langborð af fegurðardrottningum og hafði aldrei trú á að ég kæmist inn. Svo fékk ég tölvupóst um að ég hefði verið valin,“ segir hún og hlær. 

Stefanía segir að kærasti hennar sé betri en enginn. 

„Kærastinn minn studdi mig í þessu. Þetta var næstum því hans ákvörðun frekar en mín. Ég sé ekki eftir því og mun ekki sjá eftir því,“ segir hún. 

Snap: stefaniatara

Facebook: facebook.com/stefaniataraui2017

Take me back to that body and booty plz 👅

A post shared by Stefanía Tara (@stefaniatara) on Mar 24, 2017 at 1:20pm PDT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál