„Ég er algjörlega þessi svarta týpa“

Kolfinna Von Arnardóttir.
Kolfinna Von Arnardóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Kolfinna Von Arnardóttir, framkvæmdastjóri Reykjavík Fashion Festival, RFF, gengur mest í svörtum fötum og myndi án efa fá sér stílista ef hún ynni milljón í happdrætti. RFF byrjar 23. mars. 

Hvernig er þinn fatastíll?

„Mjög einfaldur; stílhreinn, þægilegur og gjarnan í jarðlit. Helst fer ég í eitthvað sem getur virkað í fínni sem og meira hversdagslegum tilefnum. Ég veit sjaldnast hvað dagurinn minn býður upp á þegar hann hefst svo maður reynir ekki að binda sig við of fínar flíkur eða of afslappaðar. Kannski er ég aðeins að verða fyrir áhrifum RFF og legg áherslu á beinni línur og snið í flíkum. Ég held mjög upp á hönnuðina á RFF að þessu sinni, kann að meta vinnuna þeirra og gæti vel hugsað mér að klæðast því sem þeir munu sýna.“

Hvaða tískutímabil er í mestu uppáhaldi hjá þér?

„Ætli það sé ekki eitthvað sem ég mun aldrei komast í tæri við. Ég elska til dæmis að horfa á kvikmyndir um hefðarfólk á 17., 18. og 19. öld. Og kjólarnir eru meistaraverk þótt þeir hafi að öllum líkindum ekki verið þægilegir. En svo finnst mér hippatískan, Charleston-tískan, ninetees-tískan, hipphoppsenan heillandi. Já, mér finnst öll tímabil frábær ef þau eru verulega einkennandi.“

Klæðist þú litum eða ertu alltaf í svörtu?

„Ég er algjörlega þessi svarta týpa.“

Kaupir þú notuð föt?

„Já, ef ég rekst á eitthvað spennandi og skemmtilegt þá er það ekki spurning.“

Hvað gerir þú við föt sem þú ert hætt að nota?

„Ég gef þau yfirleitt, annaðhvort fara þau til systkina minna eða í Rauða krossinn. Nú finnst mér Lindex vera að gera frábært nýtt átak með að bjóða fólki að skila flíkum svo hægt sé að endurvinna efnið. Ég á eftir að prufa það en geri það fljótlega.“

Uppáhaldsverslunin á Íslandi? 

„Kiosk er sennilega uppáhaldsverslunin hérlendis, sem nú er reyndar tímabundið í Stefánsbúð á meðan þau eru að komast í nýtt húsnæði. Þar er svo frábært og fallegt úrval af íslenskri tísku og hönnun. Það er búð sem maður verslar við ef mann langar í eitthvað alveg sérstakt og flestar íslenskar konur geta fundið eitthvað vandað fyrir sig.

En í útlöndum?

„Í útlöndum myndi ég nefna Antonioli í Mílanó. Þar er skemmtilegt og boðið upp á skemmtilegt samansafn frá flottum hönnuðum.“

Verslar þú mikið á netinu?

„Já. Það er frábært fyrir fólk sem á erfitt með að fara í búðir einhverra hluta vegna og gaman þegar maður uppgötvar hversu þægilegt það er.“

Bestu kaup sem þú hefur gert?

„Þegar ég keypti silfurhálsmen frá Orr. Það er ótrúlega einfalt en hægt að nota á mismunandi vegu og poppar upp öll outfit.“

Mesta tískuslysið þitt?

„Munstraðar skræpóttar gardínubuxur sem mér fannst agalega smart. Maðurinn minn sá mig einu sinni í þeim og ég hef ekki séð þær síðan. En það hafa nú horfið hlutir úr hans fataskáp á móti á dularfullan hátt.“

Uppáhaldsaukahlutur?

„Hmmm, ætli það sé ekki bara Royal Republic koníaksbrúna tölvutaskan mín sem ég fékk í Geysi. Hún er alltaf með mér þessa dagana og mér til ánægju passar hún við allt.“

Hvað er á óskalistanum fyrir sumarið?

„Falleg sólgleraugu, því það verður svo gott sumar.“

Í hvaða borg finnst þér skemmtilegast að versla?

„Milanó, þar eru bæði skemmtilegir vintage-markaðir og flottar sérverslanir.“

Hvernig er þín kauphegðun?

„Ég er að færast úr fjöldaframleiðslu yfir í sérvalið sem endist jafnframt lengur. Hvort sem það er aldurinn, starfið eða hreinlega vitundarvakning veit ég ekki en ég er ánægð með að vera ábyrgari og meðvitaðri í neyslu og kauphegðun. Ég elska föt og ég elska tísku en ég versla alls ekki mikið.“

Ef þú ynnir milljón í happdrætti, hvað myndir þú kaupa í fataskápinn?

„Ég myndi láta stílista og fatahönnuð hanna saman vinnufatalínu sérsniðna að mínum þörfum sem myndi passa mér fullkomlega. En svona má maður nú láta sig dreyma. Þangað til það gerist er ég ánægð í mínum hefðbundnu fötum.“

Kolfinna Von Arnardóttir, framkvæmdastjóri RFF.
Kolfinna Von Arnardóttir, framkvæmdastjóri RFF. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál